Hvað er á seyði í Framsóknarflokknum?

Stundum verða atburðir í íslenskum stjórnmálum sem jaðra við hörmungar.
Meint endurkoma formanns Framsóknarflokksins í íslensk stjórnmál og yfirlýsingar hans er slíkur atburður. Formaðurinn virðist veruleikafirrtur og skynjar ekki andrúmsloftið í kringum sig.
Halda mætti að framsóknarmenn séu haldnir sjálfseyðingarhvöt ef heldur fram sem horfir og lítil döngun virðist í forsætisráðherranum ef hann skynjar ekki sinn vitjunartíma og tekur í taumana.
Hætt er við að þessi atburðarás endi með ósköpum. Slíkir atburðir urðu á síðustu öld og tengdust Framsóknarflokknum. Menn ættu því að gjalda varúð við því hvert stefnir.


Blekkingin um gjafir Guðs

Guðsgjöf kallar Tyrklandsforseti herforingjauppreisnina.
Margt kringum Erdogan er dæmalaust og sumir myndu halda því fram að hann gengi vart heill til skógar.
Þó er hitt víst að ýmsir, sem stefna að ákveðnu marki, fara krókaleiðir og nema víða staðar. Stundum láta þeir eins og þeir hrekist undan andstæðingum og sópi um leið með sér ýmsu sem verður á leið þeirra. Dæmin eru þekkt hér á landi þegar stjórnmálamenn ætla sér að eyðileggja stofnanir eða breyta þeim en halda um leið uppi vörnum fyrir þær.

Af því, sem skrifað hefur verið á netinu um Erdogan og byltingartilraunina, má ráða að ýmislegt sé gruggugt við hana. Orð Erdogans um Guðs gjöf bera því vitni að hverju hann hefur stefnt og áætlunin virðist hafa verið tilbúin.

1. Einungis lítill hluti hersins virðist hafa staðið að valdaránstilrauninni og henni var hrint af stokkunum þegar forsetinn var víðs fjarri öllu fjölmiðlasambandi.

2. Á undraskömmum tíma er hreinsað út úr hinum ýmsu dómstólum landsins og vafalítið þægir menn settir í staðinn. Hverjir skyldu velja þá?

3. Guðsgjöfin er sú að Erdogan notfærir sér manngerðan guð til þess að réttlæta framferði sitt. Það er þannig og hefur ævinlega verið svo, að menn hafa notað hugtakið Guð, sem er manngert í ýmsum myndum á öllum tímum, til að réttlæta gjörðir sínar.

Lokaspurningin er því sú hvort munur sé á hinum manngerðu guðum og almættinu? Hefur maðurinn ekki frá örófi alda búið sér til ímyndir til þess að beita þegar hann þarf að efla sig með einum eða öðrum hætti, biðjast afsökunar eða fremja ódæði, allt í nafni einhvers ímyndaðs valds sem hann hefur sjálfur búið til?

Í raun og veru er guðfræðin byggð á blekkingum sem kunna einatt að styrkja sjálfsmynd manna. Þar er Erdogan gott dæmi og slíkir einstaklingar finnast í öllum trúarbragðahópum.


Hatursáróður Útvarps Sögu og Péturs Gunnlaugssonar

Það kemur nú orðið sárasjaldan fyrir að ég hlusti á Útvarp Sögu.
Í morgun ákvað ég að leggja eyrun við viðtali Péturs Gunnlaugssonar við Illuga Jökulsson. Pétur leiddi viðtalið út í þvílíka hatursumræðu á hendur þeim sem eru ekki frá Norðurlöndum eða Evrópska efnahagssvæðinu og búa hér á landi, að mér blöskraði.
Útvarps Saga er að verða einhvers konar þjóðernisöfgafyrirbæri sem er beinlínis hættulegt íslensku samfélagi. Þetta tilheyrir víst fjölmiðlafrelsinu og því fylgir einnig að menn geta með góðu móti forðast slíka fjölmiðla. En hitt er verra að fjölmiðlar eins og Útvarp Saga geta með hægu móti efnt til ófagnaðar sem erfitt er að hafa stjórn á.


Sniðgengur íslenska tungu

Apple sniðgengur íslenska tungu.
Verum ekki ferköntuð og kaupum ekki tæki frá Apple!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband