Hvernig á að skrifa sannfærandi meirihlutaskýrslu?

Nú hafa Íslendingar loksins lært hvernig einfalda má skýrslugerð.
Tveir þingmenn semja skýrslu sem þeir segja að sé í nafni meirihluta Fjárlaganefndar.
Síðan er skýrslunni vísað úr fjárlaganefnd.
Til þess að einfalda málið enn frekar hverfur annar höfundurinn af skýrslunni og er þá málið orðið einfalt. Úr þessu ætti að verða auðvelt að komast að kjarna málsins.


Ættartengsl og kunningskapur eiga að ráða lista VG í Suðvestur-kjördæmi

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum gengur nú talsvert á hjá Vinstri-grænum í Suðvestur-kjördæmi.
Nú á að skipa listanum þannig að framarlega í flokki verði bæjarfulltrúi flokksins í Hafnarfirði, sem tók sér leyfi frá bæjarstjórnarstörfum, að sögn manna vegna þess að hún gat aflað sér meiri tekna með lögfræðistörfum. Þá er einnig sagt að tengdadóttir Steingríms Sigfússonar þurfi á sæti að halda auk sonar Svavars Gestssonar og í 4. sæti verði Sigursteinn Másson, sem Björn Bjarnason sagði um að hefði gert Öryrkjabandalag Íslands marklaust.
Núverandi bæjarfulltrúa, sem tók við um síðustu áramót, hefur verið boðið sæti aftarlega á listanum, sennilega vegna þess að hann er ætlaus maður innan flokksins.
Lengi hefur verið vitað að ættartengsl hafa skipt talsverðu máli innan Vinstri-grænna sem best sést á þessu að tengsl skipta meira máli en frammistaða fulltrúa flokksins.


Aðgengi hrakar að netútgáfu Morgunblaðsins

Árið 2003 hlaut Morgunblaðið aðgengisverðlaun Öryrkjabandalags Íslands enda höfðu stjórnendur blaðsins lagt metnað sinn í að gera netútgáfu þess aðgengilega.
Enn heldur Morgunblaðið sæti sínu sem einn af aðgengilegustu miðlum landsins, en þó hefur orðið brotalöm þar á.
Atvinnuauglýsingar blaðsins eru iðulega birtar sem myndir og því engin leið fyrir þá sem nota talgervil eða blindraletur að sækja um störfin.
Ekki virðist lengur aðgengilegt að senda greinar til blaðsins gegnum mbl.is og verður því að senda greinarnar í tölvupósti.
Þeir sem eru áskrifendur að tölvuútgáfunni og nota léttlesna Moggann fá ekki sunnudagsblaðið á laugardeginum heldur daginn eftir og spjaldtölvuútgáfan er gersamlega óaðgengileg.
Samt er tölvuáskriftin álíka dýr og venjuleg áskrift.
Þetta var ein ástæða þess að ég taldi mig ekki lengur hafa efni á að vera áskrifandi auk annarra atriða sem ekki verða tíunduð hér.

Ef til vill stafar skert aðgengi af vanþekkingu einhverra sem sjá um tölvukerfi blaðsins. Þessi vandi virðist leynast víða hjá stofnunum og fyrirtækjum.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband