Vegagjöldin og sérgæskan

Umræðan um vegagjöld er gott dæmi um hrepparíg, sérdrægni Íslendinga og skort á heildaryfirsýn.
Nú þegar ljóst er að afla þarf fjár til nauðsynlegra vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og víðar og lagðar hafa verið fram tillögur um vegatolla næst ekki samstaða. Sunnlendingar þykjast hlunnfarnir. Akurnesingar segjast geta sætt sig við vegagjöld enda séu þeir vanir að hlíta slíkum gjöldum vegna Hvalfjarðargangnanna, en taka þó fram að þeir gleðjist yfir því að hætt verði að innheimta þau innan skamms.
Í raun ættu öll göng á landinu að vera gjaldskyld. Það er t.d. með ólíkindum að menn skuli fara um Héðinsfjarðargöng án þess að greiða gjald fyrir. Og hámark heimskunnar verður að hætta gjaldtöku um Hvalfjarðargöngin þar sem ráðast þarf í gerð annarra gangna innan skamms.
Hvenær skyldu Vestmannaeyingar krefjast þess að fargjöld með Herjólfi heyri sögunni til.


Borðdúkurinn sem breytti lífi mínu

Stundum valda smáhlutir straumhvörfum í lífi fólks. Í dag eru 50 ár síðan alger straumhvörf urðu í lífi mínu.

Frá því um miðjan ágúst og fram í september 1967 vann ég við að skrifa námsefni á blindraletur handa okkur tvíburunum. Lauk því starfi rétt fyrir miðjan septembermánuð.
Föstudaginn fórum við mæðgin að heimsækja þau heiðurshjónin, Andreu Oddsteinsdóttur og Halldór Þorsteinsson, en þau bjuggu þá í virðulegu húsi við Miðstræti í Reykjavík. Á eldhúsborðinu var útsaumaður dúkur sem móðir mín varð mjög hrifin af og vildi vita hvar Andrea hefði fengið hann. Hún vísaði á verslunina Ístorg á Hallveigarstíg.
Ég vissi að þar fengjust hljómplötur frá Asíu en um þetta leyti var ég hugfanginn af arabískri tónlist og héldum við mæðgin þangað.
Þar fengust þá eingöngu hljómplötur frá Kína og olli það mér nokkrum vonbrigðum. En ég keypti tvær.
Annarri plötunni brá ég á plötuspilarann hjá Sigtryggi bróður og Halldóru, konu hans og kom þá í ljós að um kantötu var að ræða fyrir sinfóníuhljómsveit, kór og tenorsöngvara. Í upphafi 3. þáttar hljómaði stef sem ég kannaðist við sem einkennisstef kínverska alþjóðaútvarpsins.
Frómt frá að segja varð ég hugfanginn af tónlistinni og það svo að ég keypti á næstu mánuðum og árum allar þær hljómplötur sem Ístorg átti.
Hvað leiddi af öðru.
Stefán Jónsson, fréttamaður hafði farið í leiðangur til Kína árið áður og sendi hann okkur bræðrum segulbandsspólu með kínverskri byltingartónlist.
Ég hófst handa og hafði bæði samband við kínverska alþjóðaútvarpið sem sendi mér árum saman segulbönd og hljómplötur með kínverskri tónlist og kínverska verslun sem seldi hljómplötur og næsta hálfan annan áratuginn keypti ég tugi titla frá Kína og á sjálfsagt eitthvert mesta safn byltingartónlistar þaðan á Norðurlöndum.
Þá hófst ég handa við dreifingu kínverskra tímarita og bóka hér á landi og hélt því áfram til ársins 1989.
Ég gekk í Kínversk-íslenska menningarfélagið haustið 1969 og hef verið viðloðandi stjórn þess frá árinu 1974, þar af formaður í 30 ár í þremur lotum. Nú verður væntanlega endir á því á næsta aðalfundi félagsins.
Ég hef stundum sagt að Kína sé eilífðarunnusta mín og verður sjálfsagt svo á meðan ég er lífs.
Lagið Austrið er rautt, sem var kynningarstef útvarpsins í Beijing, varð mér svo hjartfólgið að það var leikið sem forspil að brúðarmarsinum í brúðkaupi okkar Elínar og hljómar m.a. sem hringitónn farsímans. Síðar vitnaðist að upphaflega var þetta ástarsöngur sem varð svo að lofsöng um Mao formann.

Ævi mín hefði orðið mun fábreyttari hefðum við mæðginin ekki rekist inn í kaffi til þeirra Andreu og Halldórs.


Er upphlaup réttmæt aðferðafræði?

Stjórnarslitin eru ekki óeðlileg miðað við það sem á undan er gengið og sýna í raun hvert vald almennings getur orðið.
Þó hefði verið eðlilegra að tekist hefði verið á um þessi mál á ríkisstjórnarfundi og Björt framtíð hefði í kjölfarið tekið sína ákvörðun.
Hvernig sem á það er litið og án þess að afsaka nokkurn ráðherra er sem Björt framtíð hafi forðað sér til þess að bjarga eigin skinni. En ætli það dugi til?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband