Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Heimsókn áhafnarinnar af Sinetu aðfaranótt annars í jólum 1986

Ég er að ljúka við að lesa síðasta bindi bókaflokksins, Þrautgóðir á raunastund. Þar er m.a. sagt frá því þegar tankskipið Sineta fórst við Skrúð aðfaranótt annars í jólum árið 1986.

Ég var þá austur á Stöðvarfirði hjá vinafólki mínu, Hrafni Baldurssyni og Önnu Maríu Sveinsdóttur.
Að kvöldi jóladags tók ég á mig náðir um kl. 10 og sofnaði fljótt.
Um nóttina vaknaði ég og gáði á klukkuna. Hana vantaði þá 11 mínútur í 4.
Svo undarlega brá við að ég fann að herbergið sem ég svaf í var þétt skipað fólki. Það rann vatn úr fötum þess og fannst mér að ég gæti snert það ef ég rétti hægri höndina út fyrir rúmstokkinn.
Það hvarflaði að mér að þetta væri skylt atviki sem er sagt hafa gerst á prestssetrinu Ofanleiti í Vestmannaeyjum árið 1836. Þegar vinnukonu varð gengið fram í bæjargöngin sá hún þar standa 12 skinnklædda menn og vissi þá að skip staðarins hefði farist (þannig er sagan í minni mínu).
Um svipað leyti heyrði ég að María var komin á stjá. Gekk hún að herbergisdyrum mínum og knúði dyra. Ég hugsaði sem svo að hún hefði fengið einhverja aðsókn og ætlaði að bjóða mér að bergja með sér á kaffibolla.
um leið og hún opnaði dyrnar hvarf mér þessi tilfinning um fólkið í herberginu.
María tjáði mér að skip hefði farist við Skrúð og væri Hrafn kominn niður í bækistöð björgunarsveitarinnar á Stöðvarfirði. Hefði hann hringt og stungið upp á að ég kæmi þangað.
Greindi ég henni undir eins frá því sem borið hafði fyrir mig.
Enga skýringu kann ég á þessu en ýmsa þekki ég sem orðið hafa fyrir svipaðri reynslu.
Fyrir vikið og vegna þess sem ég varð áskynja við að hlusta á samskipti björgunarmanna hefur þessi atburður grópast í minni mér.


Blekkingin um gjafir Guðs

Guðsgjöf kallar Tyrklandsforseti herforingjauppreisnina.
Margt kringum Erdogan er dæmalaust og sumir myndu halda því fram að hann gengi vart heill til skógar.
Þó er hitt víst að ýmsir, sem stefna að ákveðnu marki, fara krókaleiðir og nema víða staðar. Stundum láta þeir eins og þeir hrekist undan andstæðingum og sópi um leið með sér ýmsu sem verður á leið þeirra. Dæmin eru þekkt hér á landi þegar stjórnmálamenn ætla sér að eyðileggja stofnanir eða breyta þeim en halda um leið uppi vörnum fyrir þær.

Af því, sem skrifað hefur verið á netinu um Erdogan og byltingartilraunina, má ráða að ýmislegt sé gruggugt við hana. Orð Erdogans um Guðs gjöf bera því vitni að hverju hann hefur stefnt og áætlunin virðist hafa verið tilbúin.

1. Einungis lítill hluti hersins virðist hafa staðið að valdaránstilrauninni og henni var hrint af stokkunum þegar forsetinn var víðs fjarri öllu fjölmiðlasambandi.

2. Á undraskömmum tíma er hreinsað út úr hinum ýmsu dómstólum landsins og vafalítið þægir menn settir í staðinn. Hverjir skyldu velja þá?

3. Guðsgjöfin er sú að Erdogan notfærir sér manngerðan guð til þess að réttlæta framferði sitt. Það er þannig og hefur ævinlega verið svo, að menn hafa notað hugtakið Guð, sem er manngert í ýmsum myndum á öllum tímum, til að réttlæta gjörðir sínar.

Lokaspurningin er því sú hvort munur sé á hinum manngerðu guðum og almættinu? Hefur maðurinn ekki frá örófi alda búið sér til ímyndir til þess að beita þegar hann þarf að efla sig með einum eða öðrum hætti, biðjast afsökunar eða fremja ódæði, allt í nafni einhvers ímyndaðs valds sem hann hefur sjálfur búið til?

Í raun og veru er guðfræðin byggð á blekkingum sem kunna einatt að styrkja sjálfsmynd manna. Þar er Erdogan gott dæmi og slíkir einstaklingar finnast í öllum trúarbragðahópum.


Hatursáróður fríkirkjuprests í útvarpsmessu

Þessi pistill var skrifaður á meðan á útvarpsprédíkun stóð.

Um þessar mundir flytur séra Hjörtur Magni Jóhannsson útvarpsprédíkun úr Fríkirkjunni við Tjörnina. Hún er full af stóryrðum í garð Þjóðkirkjunnar og flokkast í raun undir hatursáróður eins og dunið hefur á eyrum hlustenda þegar presturinn tekur til máls í útvarpi.
Þótt Þjóðkirkjan sé ekki til fyrirmyndar að öllu leyti er þó engin ástæða til að ausa hana auri og svívirða starfsmenn hennar eins og séra Hjörtur Magni gerir í prédíkun sinni með því að líkja kirkjunni við levíta eða presta Gyðinga á dögum krists.
Vafalaust er það fjárskorturinn sem rekur hann til þessarar ókristilegu prédíkunar. Úr því að söfnuðurinn, sem klauf sig úr Þjóðkirkjunni, hefur ekki lengur áhuga á að leggja tíund a af eigum sínum til stofnunarinnar, er þá nokkuð annað en að leggja söfnuðinn niður? Þá gæti séra Hjörtur Magni stofnað sinn einkasöfnuð þar sem hann gæti prédíkað í friði um hatur sitt og andstyggð á Þjóðkirkjunni.
Í raun fer það að verða tímaskekkja að útvarpsmessur séu á dagskrá ríkisfjölmiðils. Í tæknivæddu samfélagi nútímans ætti hverri kirkju að vera í lófa lagið að senda út messur sínar á netinu. Þá gætu hlustendur valið messu til að hlusta á í stað þess að njóta eða þurfa að þola ræður eins og þá sem prestur Fríkirkjunnar við Tjörnina hefur flutt í dag.
Séra Hjörtur Magni ætti að breyta um stíl og hætta að ofsækja fjendur sína. Ræður hann skyldu vera lausnamiðaðar í stað þess að byggja á andstyggð og hatri eins og halda mætti að byggi innra með honum.


Illa undirbúnir þáttastjórnendur - varasöm dægurmálaumræða

Dægurmálaumræða útvarpsstöðvanna í beinni útsendingu tekur á sig ýmsar myndir og mótar skoðanir sumrahlustenda. Þar skiptir miklu að stjórnendur séu vel undirbúnir. Talsvert þótti skorta á að stjórnandi umræðunnar í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gær réði við hlutverk sitt. Hið sama má segja um talsmann múslíma í þættinum. af vörum beggja féllu ýmis ummæli sem betur hefðu verið ósögð.
Í gær átti ég tal við Íslending nokkurn. Skiptumst við á skoðunum um reynslu okkar af samstarfi við múslíma. Vorum við sammála um að þar leyndist margur gimsteinninn eins og meðal allra trúarhópa, þar sem margur gimsteinn glóir í mannsorpinu eins og Bólu-Hjálmar orðaði það.
Viðmælandi minn sagðist þó vera á sömu skoðun og hlustandi nokkur, sem fannst að Múslímar ættu ekki a fá að reisa hér mosku á meðan aðrir trúarhópar mættu ekki reisa kirkjur í múslímalöndum.
Hér er um mikla fáfræði og alhæfingu að ræða. Víða hafa múslímar og ýmsir trúarhópar búið í sátt og samlyndi og gera sem betur fer enn. Þar eru bæði moskur og kirkjur. Má þar nefna lönd eins og Palestínu, Egyptaland, Tyrkland og Sýrland, en þar eru Assiríngar kristnir. Nú er að vísu þrengt að þeim. Hið sama gildir um Írak.
Múslímar á Íslandi eru ekki íbúar landa eins og Saudi-Arabíu þar sem önnur lögmál kunna að gilda. Þess vegna hlýtur að fara um trúarbyggingar þeirra eins og kristinna söfnuða sem vilja koma sér upp kirkju.


Maðurinn sem stal sjálfum sér - sérstætt meistaraverk

Gísli Pálsson, mannfræðingur og prófessor, hefur ritað ævisöguna Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér. Fjallar hann þar um ævi þessa manns, sem fæddist árið 1882 á karabískri eyju sem Danir höfðu keypt af Frökkum og notuðu til sykurframleiðslu. Sykurinn framleiddu ánauðugir menn og var Hans Jónatan ambáttarsonur, en faðir hans var ritari húsbónda hans.

Ævi Hans Jónatans er með ólíkindum. Hann barst til Kaupmannahafnar, tók þátt í orrustunni á skipalaginu við Kaupmannahöfn árið 1801, hinum svonefnda skírdagsslag og gat sér gott orð. Þar sem hann hafði strokið frá úsmóður sinni (stolið sjálfum sér eins og verjandi hans orðaði það) var hann dæmdur eign hennar. En hann gaf sig ekki fram heldur fór til Íslands.

Í bókinni eru raktar þær heimildir sem til eru um Hans Jónatan og seilst víða til fanga. Gísli hefur grafið upp ýmislegt með þrautseigju sinni og eljusemi og er með ólíkindum hvernig honum tekst að tengja efnið saman.

Bókin er nokkuð mörkuð af störfum hans sem kennara á sviði mannfræði. Iðulega varpar hann fram spurningum sem hann svarar iðulega fljótt og vel, en sumar hanga í loftinu og birtast svörin síðar. Lengir þetta að vísu frásögnina en gefur bókinni þokkafullan blæ og einkar persónulegan.

Bókin er ádrepa á hið tvöfalda siðferði sem þrælahaldarar allra tíma iðka og jafnvel vér nútímamenn sem skirrumst ekki við að kaupa varning sem vitað er að framleiddur sé af þrælum.

Gísli miðlar óspart af yfirburða þekkingu sinni á efninu, enda hefur honum verið hugleikið efni, sem snertir þrælahald og þróun þess.

Bókin er jöfnum höndum ævisaga, margofin samtímasaga, hugleiðingar um tengsl, þróun, samskipti og örlög, margs konar tilfinningar og hugrenningar sem lesandanum virðist sem beri höfundinn næstum ofurliði á stundum. Gísli skirrist ekki við að taka afstöðu til efnisins um leið og hann leggur hlutlægt mat á ýmislegt sem varðar þá sögu sem greind er í bókinni.

Ævisaga Hans Jónatans er einkar lipurlega skrifuð, málfarið fallegt, en fyrst og fremst eðlilegt. Virðing Gísla fyrir viðfangsefninu er mikil. Hann hefur unnið bókina í samvinnu við fjölda ættingja Hans Jónatans, fræðimenn á ýmsum sviðum og í nokkrum löndum.

Ævisaga Hans Jónatans er verðugur minnisvarði um manninn frá Vestur-Indíum sem Íslendingar tóku vel og báru virðingu fyrir, manninn sem setti mark sitt á heilt þorp og mikinn ættboga, þótt þrælborinn væri, mann sem samtíðarmenn hans á Íslandi lögðu ekki mat kynþáttahyggju á.

Pistilshöfundi er enn minnisstætt þegar ungur piltur frá Bandaríkjunum, dökkur á hörund, gerðist sjálfboðaliði á Blindrabókasafni Íslands. Ég hafði orð á því við hann að mér væri tjáð að hann væri þeldökkur. „Það var leitt,“ sagði hann á sinni góðu íslensku. „Þá finnst þér sjálfsagt lítið til mín koma.“ Mér varð hverft við og vildi vita hvers vegna hann segði þetta. „Vegna þess að Íslendingar amast sumir við mér,“ svaraði hann. Þegar ég innti hann nánar eftir þessu svaraði hann því að flestir tækju sér vel og vildu allt fyrir sig gera. En aðrir sendu sé tóninn á götum úti „og gelta jafnvel á eftir mér“.

Þá sagði ég honum að ástæða þess að ég spyrði væri Hans Jónatan, en mig fýsti að vita hvort hann vissi eitthvað um forfeður sína. Upp frá þessu ræddum við talsvert um þær áskoranir sem bíða þeirra sem eru ekki steyptir í sama mót og hin svokallaða heild.

Gísli Pálsson man ef til vill atburð sem varð á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum einhvern tíma upp úr 1960. Um það leyti var afrískur maður í bænum einhverra erinda. Vestmannaeyingur nokkur, sem ekki skal nefndur hér, sá ástæðu til að veitast að honum og veita honum áverka. Varð sá atburður illa þokkaður í bænum.

 

Gísla Pálssyni og afkomendum Hans Jónatans er óskað til hamingju með þennan merka minnisvarða sem Hans Jónatan hefur verið gerður.

 


Dásemdarverkið Ragnheiður

Eftir hádegið í dag fann ég slóðina að Ragnheiði, óperu þeirra Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar, en henni var útvarpað á skírdag og krækja á hana er enn á vef Íslensku óperunnar. Ég hlustaði á hina ágætu samantekt og kynningar Margrétar Sigurðardóttur ásamt óperunni sjálfri. Öllum sem unna óperutónlist og íslenskri menningu er bent á að þeim þremur tímum, sem varið er til að njóta þessa listaverks, er vel varið. Þetta er í þriðja sinn sem ég hlusta á verkið, fyrst í Skálholti, þá í Eldborg og nú af vefnum. Enn fór svo að hinn átakanlegi lokaþáttur verksins hreyfði við tilfinningunum. Orðaskil heyrðust betur en á sýningunni sjálfri og tóngæðin ásættanleg miðað við það sem gengur og gerist á vefnum. Slóðin er hér: http://ruv.is/sarpurinn/ragnheidur/17042014

Meistaraverk Áskels Mássonar

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn svissneska hljómsveitarstjórans Baldurs Brönnimanns í kvöld, 20. febrúar, voru ógleymanlegir, áhrifaríkir og skemmtilegir.

Þeir hófust með einu stórfenglegasta tónverki, sem íslenskt tónskáld hefur samið að undanförnu, Slagverkskonsert eftir Áskel Másson. Flutningurinn var fumlaus hjá hljómsveit og einleikaranum, Colin Currie. Konsertinn hófst með ástríðuþrunginni tónaflækju en síðan skiptust á skin og skúrir, gleði, íhugun, fyndni og tröllsháttur auk blíðlyndis og einurðar - allt þetta orkaði á hugann eins og fjölbreytt landslag. Fögnuður áheyrenda var enda mikill.

Eftir hlé var flutt tónverkið First Essay eftir Samuel Barber, samið árið 1938 og í beinu framhaldi án klapps Doctor Atomic Symphony eftir John Adams. Nokkuð fannst mér upphaf ritgerðar Samuels ástríðuþrungið en þessi stutta hugleiðing er áhrifamikil og leiðir hugann að ýmsu sem varð á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Verk Johns Adams er í raun svíta úr samnefndri óperu sem fjallar um sálarstríð þeirra sem stóðu að smíði fyrstu kjarnorkusprengjunnar. Dýpt þessa smáskammtaverks er svo mikil að það verður vart flutt við annað er bestu hljómburðaraðstæður. John Adams hefur samið nokkrar athyglisverðar óperur um atburði 20. aldar. Einna þekktust er óperan "Nixon í Kína", en Sinfóníuhljómsveitin hefur flutt stuttan þátt úr henni, "Formaðurinn dansar".

Hjalti Rögnvaldsson hafði eftir Halldóri Blöndal að hann hefði vart heyrt glæsilegra íslenskt verk að undanförnu. Þessi orð Halldórs og hrifning okkar hjónanna og Hjalta ásamt almennu lofi áheyrenda leiða hugann að þeirri staðreynd að fá íslensk tónskáld virðast eiga upp á pallborðið hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Í raun ætti hljómsveitin að flytja eitt verk eigi sjaldnar en á einna tónleika fresti. Nú má telja þau tónskáld á fingrum annarrar handar sem flutt eru eftir tónverk á vegum hljómsveitarinnar á hverjum vetri.

Undirritaður spurði Misti Þorkelsdóttur hvernig henni hefði þótt konsert Áskels Mássonar. Lauk hún miklu lofsorði á verkið og urðum við sammála um að konsertinn væri hinn áskelskasti og langt umfram það.

Öllum aðstandendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þá ekki síst Áskatli Mássyni sem hefur enn einu sinni sannað að hann er á meðal fremstu slagverkstónskálda heims.

Þeim sem hafa hug á að lesa nánar um tónleikana skal bent á síðu Sinfóníuhljómsveitarinnar

http://www.sinfonia.is/tonleikar/nr/2163


Agalítil orðræða

Orðræðan á Íslandi er með ólíkindum og hún virðist lítið skána.

Í umræðuþætti Gísla Marteins Baldurssonar í morgun var rætt við framsóknarráðherran Sigurð Inga Jóhannsson, sem gegnir stöðu umhverfisráðherra. Sitthvað var fróðlegt í viðtalinu. En þegar kom að umfjöllun um rammaáætlun og stækkun eða breytingar á friðlandinu í Þjórsárverum þyrmdi yfir suma hlustendur.

Ráðherra fullyrti í viðtalinu að hann hygðist fara að ráðum fagfólks. En þegar þáttarstjórnandi þjarmaði að honum kom í ljós að með því að tjá sig á opinberum vettvangi um hugmyndir ráðherrans um svokallaða stækkun á friðlandinu væru fagmenn farnir að taka þátt í stjórnmálum og á honum mátti skilja að þar með væru fagmenn orðnir ómarktækir. Með öðrum orðum: þeir sem hafa grundvallað álit sitt á staðreyndum mega ekki verja skoðanir sínar og útskýra hvers vegna þær eru eins og þær eru. Þetta er hin frjálsa umræða á Íslandi árið 2014!

Mönnum er misjafnlega lagið að tjá skoðanir sínar og þeir sem hafa vafasaman málstað að verja, hrekjast einatt undan spyrlum án þess að svara nokkru. Þannig fór fyrir ráðherranum. Þetta er því miður einkenni margra Íslendinga og í hópi Framsóknar- og Sjálfstæðismanna þykir höfundi þessa pistils hafa borið of oft á þessu heilkenni. Vera má að þar sé um fordóma að ræða, en dæmin eru því miður of mörg.

Fyrr í þættinum var rætt við nokkra einstaklinga um hugmyndir umhverfisráðherra og einn viðmælenda Gísla Marteins, Róbert Marshall, benti m.a. á hvaða afleiðingar breytingar á friðlandi Þjórsárvera gætu haft - ósnortnar víðáttur hálendisins yrðu truflaðar af svokallaðri sjónmeingun.

Ég get rétt ímyndað mér hvernig sjónmeingun verki á þá sem vilja njóta ósnortins landslags með sama hætti og hljóðmeingun nútímans truflar einatt þá sem vilja hlusta á hjartslátt náttúrunnar. Annar viðmælandinn minntist á að nú þyrftu menn að huga fremur að því til hvers ætti að nota rafurmagnið, en ekki að breyta vegna breytinganna.

Flest á þetta rætur að rekja til þess agaleysis sem ríkir í umræðum og við ákvarðanir. Hér á landi er einum of algengt að rifið sé niður það sem aðrir telja sig hafa byggt upp og þegar völdum þeirra sleppit slæst kólfurinn í hina áttina. Ef ekki verður horfið af þessari braut og jafnan lamið í gagnstæðar áttir, fer fyrir Íslendingum eins og Líkaböng á Hólum sem sprakk þegar lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt að Hólum árið 1551. Hún sprakk og einnig önnur klukkan í Landakirkju fjórum og hálfri öld síðar, vegna þess að jafnan hefur verið lamið kólfinum á sömu svæði. Þannig monar samfélagið undan Íslendingum vegna sundurlyndis misviturra stjórnmálamanna.


Bíðviðrisbrúðkaup í Hafnarfirði

Hamingjustund í Fríkirkjunni í HafnarfirðiVið Elín erum nýkomin úr dýrðlegum brúðkaupsfagnaði heiðurshjónanna doktor frú Svövu Pétursdóttur og Gunnars Halldórs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra og stýrimanns. Þar var fjöldi manns í blíðviðri sem best getur orðið í Hafnarfirði. Að gömlum sið var þeim hjónum flutt lítið brúðarvers undir laginu Austrið er rautt. Þar sem föðurbróðir brúðarinnar, Jón Skaptason, var viðstaddur, hneigðist ljóðskáldið til að hafa ljóðið í hefðbundnu fari:

Austrið er rautt,
upp rennur sól.
Austur í Kína fæddist Mao Tsetung.
Ykkur sendum við hjónum hól,
því með sanni þið ákváðuð
að sameinast í dag.

Myndina tók Elín í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, en þangað leiddi brúðgaumi gesti í ratleik úr garðveislunni, "veislunni okkar".
 

Hefnd valdhafanna

Áheyrnaraðild Palestínumanna að Sameinuðu þjóðunum hefur verið samþykkt þrátt fyrir harða andstöðu Ísraelsmanna og verndara þeirra, Bandaríkjamanna.

 

Hefnd kúgaranna lét ekki á sér standa. Forsætisráðherra Ísraels burstaði rykið af gömlum tillögum um nýja byggð á Vesturbakkanum, sem verður til þess að byggðir Palestínumanna verði klofnar í tvennt. Bandaríkjamenn mótmæla en forðast að gera nokkuð til þess að afstýra verðandi framkvæmdum.

 

Það er hættulegt að eiga sér volduga andstæðinga. Það þekkist hér á landi sem annars staðar. Þann 19. desember árið 2000 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm þar sem tengingar örorkubóta við tekjur maka voru dæmdar óheimilar. Þáverandi forsætisráðherra Íslands stóð þá fyrir lagasetningu sem skerti áhrif þessa dóms - hefndaraðgerð í garð öryrjka og andstæðinga þeirra.

 

Baráttan er hörð þegar sumir fara sínu vald í skjóli voldugra valdhafa.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband