Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

María Sveinka?

Íslenskan breytist nú ört. Ein ástæðan er sú að erlend áhrif hrannast upp, enskan glymur í eyrum, fólk les minna en áður og svo mætti lengi telja. Nú er svo komið að jólasveinar og annað fjallahyski hefur smitast af þeirri óværu sem hrjáir íslenska tungu. Jólasveinar segja ókei og eru að sögn Vestfirðinga á dæjett, hvað sem það nú merkir.

Orðið sveinn hefur verið notað um unga karlmenn eða drengi, en meyjar um stúlkur. Að vísu var rætt um að höfðingjar hefðu með sér sveina hér á árum áður og fór yfirleitt annað orð af þeim að þeir væru "hreinir sveinar". Þá hefur einnig verið rætt um lærisveina og lærimeyjar, námsmeyjar og -sveina, iðnsveina o.s.frv.

Í fréttum undanfarið hefur borið á því að systur jólasveinanna, þær Leiðindaskjóða, bóla og hvað þær heita nú allar, séu kallaðar jólasveinkur. Væri ekki réttara að tala um jólastelpur eða jólameyjar? Skyldi fara svo að María mey yrði Maja sveinka í næstu þýðingu Nýja testamentisins?


Davíð var lítill drengur

Í gær hitti ég lítinn dreng sem var í kirkjuskóla. Lærði hann þar m.a. ýmsa trúarsöngva sem honum þóttu leiðinlegir. Einn þeirra heitir víst Davíð var lítill drengur. Þar segir frá baráttu þeirra Davíðs konungs Ísraelsmanna til forna og risans Golíats sem Davíð drap með valslöngu sinni.

Miðað við þá atburði sem eiga sér nú stað í Ísrael og þann skilning sem Ísraelsmenn leggja í fortíð sína er með hreinum ólíkindum að íslenska þjóðkirkjan og aðrir söfnuðir skuli taka Davíð konung sem fyrirmynd sem rétt sé að kenna íslenskum börnum um. Auðvitað var Davíð ekkert annað en harðsvíraður glæpamaður. Hann hremmdi lönd annarra og var ofbeldisseggur er sveifst einskis til þess að ná fram markmiðum sínum. Hann fékk þó stundum samviskubit, bað Guð sinn fyrirgefningar og orti nokkra sálma.

Vitað er að forystumenn Ísraelsmanna hafa tekið hann sér til fyrirmyndar í viðureign sinni við Palestínumenn enda var Davíð snjall herforingi og kunni að deila og drottna.

Foreldrar ættu að velta því alvarlega fyrir sér hvort það samræmist kristnu siðgæði að kenna börnum sínum að taka sér ofbeldissinnaðan hryðjuverkamann til fyrirmyndar.


Hroðvirkir morgunbænaprestar

Fjöldi fólks hlustar á morgunbænir Ríkisútvarpsins. Prestarnir eru misgóðir eins og gengur. Sumir vanda verk sitt en aðrir kasta til þess höndunum.

Sá, sem nú flytur morgunbænirnar, hefur allt í föstum skorðum. Hann biður bæn, fer síðan ævinlega með sama versið og endar svo á faðirvorinu.

Næsti prestur þar á undan rumpaði bæninni af á örskotsstundu og sleppti faðirvorinu.

Nú greiðir Ríkisútvarpið sjálfsagt fyrir þessar vélbænir og læðist að mér sá grunur að prestunum þyki, sumum hverjum, það tæplega borga sig að vanda um of bænirnar, greiðslurnar séu svo lágar.

Fyrir rúmum fjórum áratugum skipuðu morgunbænir Ríkisútvarpsins virðulegri sess og eftir því var tekið hvernig prestunum mæltist. Séra Sigurður Haukur Guðjónsson vandaði svo um við hlustendur að settar voru reglur um það sem prestarnir mættu segja. Eftir það varð allt með mun flatneskjulegri brag enda má svo sem halda því fram að prestar eigi ekki að nota tækifærið og troða skoðunum sínum upp á hlustendur.

Íslenska þjóðkirkjan er ríkiskirkja. Þó hefur prestum kristinna safnaða, sem standa utan Þjóðkirkjunnar, verið leyft að komast að við morgunbænirnar, enda hafi þeir hlotið menntun sína í guðfræðideild Háskóla Íslands. Það eru ýmsir trúarhópar sem ættu erindi við hlustendur, ef morgunbænunum væri á ný breytt í hugvekjur eins og þær voru í árdaga. Slíkar hugvekjur gætu, ef vel tækist til, orðið til þess að brúa bilið á milli trúarhópa hér á landi og gera mönnum ljóst að flest trúarbrögð mannkynsins eru sprottin af sama meiði.

Frammistaða síðustu tveggja presta, sem flutt hafa morgunbænirnar, er með þeim hætti að Ríkisútvarpið og Þjóðkirkjan verða að ræðast við um það hvernig og hvort þessum bænum verði haldið áfram. Hlustendum er vart bjóðandi að doktor í guðfræði kunni aðeins eitt vers og prestur fari með morgunbæn án þess að biðja bænir.

Göngum í Guðs friði.


Eyjastund í Seljakirkju

Við hjónin hittum gamlan nágranna minn, Grétar Guðmundsson Kristjánssonar, í sundi í dag, en Grétar átti heima á Faxastígnum í Vestmannaeyjum fram til 1962. Hann benti okkur á þakkarstund í Seljakirkju, en þar ætluðu Vestmannaeyingar á höfuðborgarsvæðinu að koma saman og þakka giftusamleg goslok fyrir 35 árum. Grétar er í sönghópi ÁTVR (Átthagafélags Vestmannaeyinga á Reykjavíkursvæðinu).

Við hjónin fórum þangað í kvöld. Á dagskrá voru lög eftir Oddgeir Kristjánsson og sálmar. Hlakkaði ég til að heyra fallegar kór- og orgelútsetningar laga Oddgeirs og vissi að þá yrði lagið "Ég veit þú kemur" ef til vill sungið á réttan hátt.

Þegar messan hófst reyndist tónlistarflutningurinn í höndum Þorvalds Halldórssonar. Hann bjó í eyjum um 10 ára skeið og er giftur eyjapæju eins og hann orðar það. Þau hjónin eru heittrúuð og hann fremur tónlistina af miklum innileik.

Þorvaldur hefur komið sér upp óþarflega miklu einkamessusniði og þekktu kirkjugestir ekki þau lög sem hann söng við messusvör o.fl. En í heildina var þetta notaleg stund.

Ég varð þó að gæta þess að hrista ekki höfuðið þegar "Ég veit þú kemur" var sungið. Það var nú meira leiðindaskemmdarverkið sem framið var á því fyrir 40 árum.


Trúin á eilíft líf

Í Morgunblaðinu birtist í dag áhugaverð og jafnframt skemmtileg grein eftir Halldór Þorsteinsson, skólastjóra Málaskóla Halldórs, um trúleysi og hræsni og yfirgang kristinna manna fram á þennan dag.

Meginniðurstaða hans er sú að maðurinn hafi fundið upp Guð og kemur það fáum á óvart. Það er athyglisvert að hvar sem mannkynið hefur skotið rótum virðist vera um einhvers konar dýrkun að ræða. Oft hefur dýrkunin miðað að því að efla vald yfirstéttanna og má nefna kirkju mótmælenda, þá sem vér Íslendingar tilheyrum, sem dæmi. Sú kirkjudeild náði fyrstog fremst yfirráðum á Norðurlöndum og norðanverðu Þýskalandi vegna þess að það þjónaði hagsmunum konungsvaldsins að sölsa undir sig eignir klaustra og kirkna og koma skikki á trúmál almennings enda var þá litið svo á að almenningur skyldi vera sömu trúar og þjóðhöfðinginn.

Þannig hefur þetta jafnan verið hér á landi. Íslendingar gerðust kristnir af pólitískum ástæðujm árið 1000 eða eigum við fremur að kalla það viðskiptahagsmuni? Hér á landi voru efnahagsmunirnir svo ríkulegir að ekki kom til verulegra átaka.

Þótt ég sé Halldóri ekki að öllu leyti sammála um framhaldslíf tek ég þó undir flest sem hann segir. Dauðinn, hvað sem hver segir, finst mér forvitnilegt fyrirbæri sem bæði gefur vonir og veldur ótta, allt eftir því hver á heldur. Þess vegna ímynda ég mér að ég óttist ekki dauðann vegna þess að mér finnst að eitthvað bíði handan við skil hans og lífsins. Samt langar mig að lifa lengur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband