Færsluflokkur: Bækur

Bætt aðgengi að lesefni

Að undanförnu hafa verið gerðar talsverðar tilraunir til þess að gera Pdf skjöl aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Er nú svo komið að þetta skjalasnið er orðið harla ákjósanlegt til aflestrar.

Gallinn við Pdf-skjölin hefur hingað til verið sá að erfitt hefur verið fyrir þá, sem nota skjálesara, að hitta á fyrirsagnir, millifyrirsagnir o.s.frv. Adobe forritin og önnur forrit sem breyta skjölum í pdf-skjöl, gefa færi á að setja inn fyrirsagnir og ýmislegt sem getur auðveldað lesendum að blaða í skjölunum. Íslensku prentmiðlarnir, Morgunblaðið, Fréttablaðið, DV og Viðskiptablaðið, gefa lesendum sínum kost á Pdf-útgáfum blaðanna. Sá hængur er á að ekki eru settar fyrirsagnir eða aðrar slíkar tilvísanir í skjölin. Nú eru væntanlega allir þessir fjölmiðlar með fullkomin ritvinnslukerfi eða blaðavinnslukerfi. Ég velti því nú fyrir mér hvort ekki sé hægt að smíða hugbúnað sem auðveldi útgefendum að ganga þannig frá Pdf-skjölunum að þau verði auðlæsilegri. Morgunblaðið er þegar með slíkt kerfi fyrir textaútgáfu blaðsins og er það til mikillar fyrirmyndar. Þó ber nokkuð á því að sumar greinar skili sér ekki þangað.

Vissulega er einfaldast að fletta dagblöðunum á netinu með kerfi Morgunblaðsins enda er það með aðgengilegustu blaðalestrarkerfum heims. En Pdf-lausnin hentar ýmsum og eykur notagildi tölvuútgáfunnar að mun.

Hvernig væri að Þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands beittu sér fyrir úrbótum í þessum efnum? Kæmi ekki til greina að styrkja gerð hugbúnaðar sem auðveldaði blaða- og bókaútgefendum að ganga þannig frá Pdf-skjölum að þau yrðu auðlæsilegri? Það er fleira aðgengi en aðgengi hreyfihamlaðra.


Þegar kóngur kom

Helgi Ingólfsson, sagnfræðingur og kennari við Menntaskólann í Reykjavík, hefur á undanförnum árum sent frá sér nokkrar skáldsögur. Þar á meðal eru gamankenndar spennusögur sem hafa vakið gleði og áhuga margra. Má þar nefna bókina Lúin bein, en þar gerir Helgi að gamni sínu og fjallar um meintan fund helgs dóms hins sæla Þorláks Skálholtsbiskups. Ýmislegt fer úrskeiðis hjá fornleifafræðingum. Hundur þjóðminjavarðarins gleypir hinn helga dóm og sitthvað fer öðruvísi en ætlað er.

Um síðustu jól sendi Helgi frá sér nýja bók, „Kóngur kemur“. Sögusviðið er Reykjavík sumarið 1874 þegar Kristján konungur IX kom hingað til lands að heilsa upp á þegna sína í tilefni 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Stúlka finnst myrt og síðar kemur í ljós að nýfæddu barni hennar hefur einnig verið fyrirkomið. Stúlkan reynist hafa veriðsýkt af sárasótt og hverfist talsverður hluti frásagnarinnar um þann þátt.

Fljótlega finnst morðingi feðginanna, en faðerni barnsins er haldið leyndu þar til 15 árum síðar að sögumaður, sem höfundur lætur segja söguna frá upphafi til enda, fær að vita hið sanna í málinu.

Helgi virðist hafa rannsakað ítarlega heimildir um bæjarbraginn í Reykjavík á þessum árum og fléttar lýsingum á atburðum, sem urðu við konungskomuna, listilega saman við skáldskap sinn. Ýmsar persónur úr bæjarlífinu birtast mönnum ljóslifandi og ýjað er að ýmsum orðrómi sem gekk manna á milli um sitthvað sem ekki var haft hátt um.

Höfundur hefur jafna leyfi til þess að skálda í eyðurnar og búa jafnvel til nýjan raunveruleika fjarri því sem hefur sennilega nokkru sinni gerst þótt nafnkenndir einstaklingar eigi í hlut. Í lokin bólar þó á því að höfundur skjóti yfir markið og skáldfákurinn hlaupi með hann í gönur. Þannig ýjar heimildarmaður sögumannsins að því að aðrar ástæður hafi legið að baki því að Jón Sigurðsson lét ekki sjá sig hér á landi árið 1874 og gengur sá söguburður þvert á kenningar flestra fræðimanna um þetta atriði.

Það skal ítrekað að bók þessi er skemmtileg og vel samin. Málfarið er blendingur nútíma íslensku og þess máls sem talað var á meðal almúga og menntafólks í Reykjavík. Lærðir menn sletta þýsku, dönsku, frönsku og latínu og Jón Sigurðsson jafnvel grísku. Höfundur gætir þess þó að þýða sletturnar því að íslenskur almúgi skilur ekki latínu nú á dögum fremur en árið 1874. Einna helst skortir á að Helgi láti lærða menn gera mun á tvítölu og fleirtölu, en það mætti endurskoða, verði bókin gefin út öðru sinni.

Endir bókarinnar þykir mér þó í ógeðfelldara lagi. Að vísu reynir Helgi að draga úr broddinum með því að gera þann, sem þá er fjallað um, mannlegri með því að láta lesendur skynja samúð hans og sorg vegna þess sem varð.

Engin ástæða er til að ýta undir persónudýrkun og sennilega eru Íslendingar flestir yfir það hafnir að líta á Jón Sigurðsson og Fjölnismenn gagnrýnislaust. Höfundi til afsökunar verður sjálfsagt að telja fram þær staðreyndir að fjöldi gagna styður sumt af því sem hefði getað gerst þótt raunveruleikinn hafi sjálfsagt verið annar.

Niðurstaða mín er sú að þrátt fyrir fremur ógeðfelldan endi hvet ég fólk til að lesa bókina og njóta hennar. Dæmi svo hver og einn. Skáldskapurinn lýtur sínum eigin lögmálum.

Gagnrýni um bókina „Kóngur kemur“ birtist fyrst á þessari síðu 14. þessa mánaðar. Ég kaus að endurskoða pistilinn eftir ábendingar sem ég fékk í tölvupósti. Þá hafa höfundar þeirra tveggja athugasemda, sem birtust um þessa færslu, orðið sammála um að þær verði einnig fjarlægðar.

arnthor.helgason@simnet.is


Skemmtilegar tækniframfarir

Um daginn fékk ég tölvupóst frá fyrirtækinu Nuance Solutions sem selur m.a. talgervla, þar á meðal hinn misheppnaða talgervil Röggu sem íslenskt fyrirtæki bjó til án samráðs við notendur. Í tölvupóstinum er m.a. greint frá Dragon hugbúnaðinum sem hefur verið á markaðinum í nokkur ár og gerir fólki kleift að tala texta inn á tölvur. Unnið hefur verið að því að gera búnaðinn nákvæmari og er sagt að villum, sem búnaðurinn gerði í ensku, hafi nú fækkað. Menn geta því skráð inn á tölvur hugsanir sínar með allt að 120 orða hraða á mínútu.

Fyrir 20 árum eða svo gerði lítið tölvufyrirtæki hér á landi tilraunir með íslenskt tal sem hægt væri að skrá beint inn á tölvur. Ekki er vitað til að þær tilraunir hafi verið styrkta með einum eða öðrum hætti. Það gefur auga leið að tölvunotkun yrði fjölda fólks mun einfaldari ef það gæti hreinlega talað inn það efni sem það langar til að skrifa. Ýmsir eiga óhægt um vik með að skrifa á lyklaborð tölvunnar og er þetta því kjörin lausn.

Blindrabókasafn Íslands hefur nú heimilað notendum í einhverjum mæli að hala niður hljóðbækur af heimasíðu safnsins. Geta notendur nú sótt sér hljóðbækur á einfaldan hátt. Þetta hlýtur að spara stórfé þar sem ekki þarf lengur að fjölfalda geisladiska með efni bókanna.

Þá gladdi það mig að lesa á heimasíðu Þekkingar- og þjónustumiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga að íslenskt blindraletur sé nú komið inn í danska RoboBraille-kerfið. Hugmyndin að baki þessu kerfi er að einfalda framleiðslu skjala með blindraletri. Kennarar blinds fólks og samstarfsmenn geta nú framleitt skjöl með blindraletri svo fremi sem blindraletursprentari er á staðnum. Sá, sem ætlar að þýða texta á blindraletur, sendir tölvupóst á tiltekið netfang og setur í efnislínuna ákveðnar skipanir um blaðsíðustærð o.fl. Að vörmu spori kemur skjal til baka sem er sérsniðið að þörfum þeim sem skilgreindar voru. Ekki áttaði ég mig á hvort textinn yrði að vera hreinn texti eða sniðinn í word eða öðrum forritum. Í fljótu bragði fann ég ekki upplýsingar um þetta á heimasíðu fyrirtækisins sem stendur á bak við þessa þjónustu, www.robobraille.org. Ég geri þó ráð fyrir að setja þurfi í textann einhverjar pretskipanir svo sem um fyrirsagnir, breytt letur o.s.frv., nema þetta sé allt saman þýtt beint úr ritvinnslukerfi sem væri auðvitað það besta. Þessi þjónusta léttir vonandi ýmsum að færa skjöl á blindraletur og eykur vonandi lestur efnis á þessu lífsnauðsynlega letri.

Ég hef oft velt fyrir mér þeirri sorglegu staðreynd að lesendur blindraleturs á Íslandi eru helmingi eða þrisvar sinnum færri en gengur og gerist í Vestur-Evrópu. Þetta á sér ýmsar skýringar sem ekkiverða raktar hér.

RoboBraille-forritið gerir einnig ráð fyrir að hægt sé að senda tölvutækan texta sem viðhengi og fá hann lesinn á því tungumáli sem beðið er um. Þessi þjónusta er enn ekki fyrir hendi á íslensku enda talgervlarnir íslensku vart færir um slíkt með ´goðu móti.

Þótt tölvutalið sé vissulega til mikils hagræðis eru þó ýmis störf í upplýsingasamfélaginu þar sem vart verður hjá því komist að lesa annaðhvort með augum eða fingrum. Þá verður aðgengi að tölvuforritum mun fjölþættara sé jöfnum höndum notað tal og blindraletur. Þetta fékk ég að reyna í störfum mínum sem blaðamaður á Morgunblaðinu og í núverandi verkefnum á vegum Viðskiptablaðsins. Þá hefði ég vart getað innt af hendi ýmis félagsmálastörf án blessaðs blindraletursins.

Það er ánægjulegt þegar starfsmenn opinberra stofnana eins og blindrabókasafnsins og Þekkingarmiðstöðvarinnar hafa metnað til þess að hrinda í framkvæmd jafnsjálfsögðum úrbótum og niðurhali bóka og sjálfvirkri prentun með blindraletri. Nú þyrftu þessar stofnanir og fleiri aðilar að sameinast um að endurbæta þá talgervla sem fyrir eru á íslensku eða búa til nyjan talgervil. Þá tel ég ekki úr vegi að reynt verði til hlítar að fá afnot af elsta talgervlinum sem sennilega hefur verið einna best heppnaður þeirra þriggja sem gerðir hafa verið fyrir íslenska tungu.


Jón Leifs - líf í tónum

Í nótt lauk ég við að lesa ævisögu Jóns Leifs, tónskálds, sem Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur, ritaði. Bókin byggir á umfangsmiklum rannsóknum höfundarinis á ævi tónskáldsins og hefur verið leitað víða fanga.

Ævisagan er hlutlæg úttekt á ævi og athöfnum Jóns, skaphöfn hans, samskiptum við ættingja sína, samstarfsmenn og yfiröld á Íslandi, Þýskalandi, Norðurlöndum og jafnvel víðar. Fátt virðist dregið undan og Jóni lítt hlíft.

Þótt Árni Heimir dragi upp allóvægna mynd af tónskáldinu leitast hann við að kynna hinar mýkri hliðar hans. Niðurstaðan er margbreytileg og flókin persóna sem hefur sennilega átt við geðræn vandamál að stríða. Vitnar Árni þar til umsagnar Helga Tómassonar, geðlæknis, en getur þess um leið að dómar Helga hafi stundum þótt orka tvímælis. Jón virðist sjálfur hafa tekið mark á niðurstöðum geðlæknisins og fer Jón ofan í saumana á skilgreiningu hans, en hann hafði haft áhyggjur af geðheilsu sinni á ungaaldri.

Þótt ævisagan sé harmræn stendur Jón þó uppi sem sigurvegari í lokin, sigurvegari er sá aldrei drauma sína rætast, mikils metið tónskáld víða um lönd.

Tvær ævisögur þykist ég hafa lesið að undanförnu sem skara fram úr - ævisögu Lárusar Pálssonar og Jóns Leifs. Bækurnar eru ólíkar enda mennirnir gjörólíkir. Árna Heimi hefur tekist svo vel ritun þessarar ævisögu að hún hlýtur um langan aldur að teljast á meðal hins besta sem ritað hefur verið á íslenska tungu á þessu sviði. Málfarið er vandað, stíllinn ljós og þekking höfundarins með ágætum. Samfélagssýnin er skörp og gagnrýnin á stundum hárbeitt.

Árni Heimir hefur orðið þekktur fyrir skrif sín um tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann ritstýrir tónleikaskrá hennar. Lýsingar hans á uppbyggingu tónverkanna er markviss og bætir ævinlega skilning fólks á viðfangsefni hljómsveitarinnar. Hið sama er upp á teningnum í ævisögu Jóns. Hann brýtur tónverkin til mergjar svo að fáir hafa gert það betur.

Ég þekki mörg verka Jóns og sum þeirra finnast mér á meðal hins besta sem samið hefur verið hérá landi. Kantatan Þjóðhvöt, Minni Íslands og hlutar Sögusinfóníunnar eru þar á meðal auk orgelkonsertsins se er magnaður. Ég hlustaði á Minni Íslands eftir að hafa lesið ríflega helming ævisögunnar. Þótt ég nyti tónverksins gat ég ekki annað en varist hlátri þegar ég gerði mér grein fyrir þjóðrembu Jóns og skyldleika hennar við ýmislegt sem aðhafst hefur verið á þessu sviði víða um lönd. Jón tróð alls staðar lögunum Ísland farsældarfrón og Hani, krummi, hundur svín, inn í verk sín þar sem hann kom því við og stíllin leyfði Urðu því sum tónverkin dálítið sérvitringsleg. Þetta gerðu kínversk tónskáld fyrst eftir byltingunna og allt til þess að menningarbyltingunni lauk. Austrið er rautt var hvarvetna ásamt nokkrum byltingarsöngvum öðrum. Lék ég mér stundum að því að leita að stefinu Austrið er rautt í einstökum tónverkum frá þessum tíma og oftast leyndist stefið einhvers staðar.

Þá er með ólíkindum að Jóni skyldi láta sér fljúga í hug að lag sitt við Rís þú unga Íslands merki gæti orðið þjóðsöngur Íslendinga. Hann virðist ekki hafa skynjað að tilranir hans til þess að skapa þjóðlegan stíl voru að mörgu leyti víðs fjærri íslenskum þjóðlögum og þeirri tónlist sem var í hávegum höfð framan af 20. öldinni. Þetta kom gleggst fram í viðtali Þorkels Sigurbjörnssonar, sem útvarpað var í febrúar 1968. Ég minnist þess enn hversu hissa ég varð þegar ég heyrði viðtalið og skynjaði um leið að Ríkisútvarpið væri svo víðsýn stofnun að menn gætu látið skömmunum rigna yfir andstæðinga sína ef þeim byði svo við að horfa.

Ævisaga Jóns Leifs hefði væntanlega orðið öðruvísi hefði hún verð rituð á meðan hann lifði. Ekki verður annað séð en dómur Árna Heimis sé sanngjarn, bæði um Jón sjálfan, tónlistina og samferðamenn hans. fáir hafa fetað í fótspor Jóns og ekkert íslenskt tónskáld hefur samið jafnsérviskuleg tónverk. Jón Ásgeirsson nýtir sér ýmislegt úr stefnu nafna síns en fer allt aðrar brautir. Honum og Jóni Leifs er þó sameiginleg að sömu stefjabrotin birtast í fleira en einu tónverki.

Til hamingju með vel unnið verk, Árni Heimir.


Kínverjinn eftir Henning Mankell

Ég hef gaman af bókum Hennings Mankells. Sumar þeirra eru vel upp byggðar og höfundurinn virðist hafa lagt sig fram við að kynna sér aðstæður á þeim svæðum sem söguhetjurnar fara um.

vigfús Geirdal hefur þýtt flestar sögur Hennings, en söguna Kínverjann þýddi Þórdís Gísladóttir. Þýðingin er um margt allgóð, en þó eru afleitir sprettir í henni.

 

Henning Mankell boðar í þessari sögu ákveðna pólitíska skoðun sem ég hirði ekki um að skilgreina. Í þeim kafla sem fjallar um mikilvægan fund sem haldinn var á sumardvalarstað ráðamanna við Gula hafið, er öðru hverju minnst á "Gule keisarann". Ég hef ekki skoðað sænska frumtextann en getur verið að Þórdís hafi haldið að keisari þessi hafi verið af einhverri ætt sem nefndist Gule?

Hér er átt við goðsögulegan einstakling, sem kallaður er Huang-Di, Guli keisarinn, og sagður er hafa ríkt á árinum 2697 til 2597 eftir krist. Hann er talinn forfaðir allra Han-Kínverja og upphafsmaður margra hluta svo sem kínverskrar lækningalistar. Hann er enn tilbeðinn víða í Kína. Víða eru af honum líkneski og hof hafa verið reist honum til heiðurs.

Þórdís gerir margt vel og hefur m.a. tekið þátt í að gera ágæta útvarpsþætti. En heldur hefur hún kastað höndunum til þýðingarinnar og í raun eyðilagt hana með hroðvirkni sinni. Þórdísi hefði verið í lófa lagið að kanna betur ýmis atriði sem fjallað er um í sögunni í stað þess að treysta dómgreind sinnni í algerri blindni.

Þá eru ýmis nöfn í sögunni ranglega stafsett og kann að vera að Henning Mankell eigi þar nokkra sök. Þótt Kínverjinn sé um margt athyglisverð bók er ýmislegt sem orkar tvímælis hjá höfundinum og ekki bætir þýðingin úr skák.


Leiftrandi ritþing til heiðurs Kristínu Marju

Í dag var haldið í Gerðubergi ritþing til heiðurs Kristínu Marju Baldursdóttur og var salurinn fullsetinn. Þinginu stýrði Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur og voru spyrjendur auk hans Ármann Jakobsson og Þórhildur Þorleifsdóttir.

Lesendur Kristínar Marju urðu ekki fyrir vonbrigðum. Svör hennar leiftruðu af greind og snarpri hugsun og sum verða lengi í minnum höfð.

Þórhildur varpaði m.a. fram spurningu um sársaukann sem Karítas Jónsdóttir þjáðist af. Hennar helsti sársauki voru samskiptin við eiginmanninn og e.t.v. börnin. Hún spurði höfundinn hvort ekki hefði verið eðlilegra að Karítas flytti með Sigmari til Akureyrar og settist þar í húsi þar sem hún gæti málað að vild.

Kristín Marja svaraði því til að þá hefði hún orðið að sjá um heimilið eins og hefur verið hlutskipti flestra íslenskra kvenna fram á vora daga. Hún hefði væntanlega farið með Sigmari suður til Reykjavíkur öðru hverju, litið inn í Listamannaskálann og séð þar málverk sem aðrir höfðu málað. Þá hefði hún fundið til sársauka þar sem hún hefði svikið listina.

Karítas Jónsdóttir þykir ýmsum lesendum hafa verið sjálfhverf og eigingjörn. Verður hið sama ekki sagt um alla þá sem helga sig köllun sinni? Ætli karlmenn sem hafa látið eiginkonur sínar axla ábyrgð og skyldur vegna heimilishaldsins teljist ekki sjálfhverfir, eigingjarnir og tilætlunarsamir?


Hljóðmynd um Karítas Jónsdóttur

Í morgun útvarpaði ég hljóðmyndinni "Síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur".

Öldugjálfrið var hljóðritað vestur í Skálavík 2. júlí 2009. Notaður var Nagra Ares BB+ stafrænn hljóðriti og tveir Sennheiser ME62 hljóðnemar sem eru mjög víðir. Þeir vísuðu í u.þ.b. 100 gráður og um 1,3 m voru á milli þeirra.

Hljóðmyndin sjálf var unnin í Soundforge 9 og Goldwave 5,54. Það kostaði talsvert föndur að hægja á hljóðinu. Æskilegt væri að hljóðritunarforritum fylgdi eins konar hjól sem hægt væri að nota til að renna hljóðinu hreinlega niður þar til þögnin tekur við.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur

Við hjónin lásum bækur Kristínar Maríu Baldursdóttur, Karítas án titils og Óreiða á striga. Þótt Karítas Jónsdóttir sé skáldsagnapersóna varð hún svo ljóslifandi í hugskoti mínu að ég saknaði hennar þegar hún hvarf í fjörunni vestur í Skálavík.

Næsta hljóðmynd sem ég útvarpa í þættinum Vítt og breitt um kl. 07:15 á fimmtudagsmorgun verður hugleiðing um síðustu augnablik Karítasar. Reynt er að líkja eftir síðustu skynjun hennar á þessari jörð þar til vitundin hvarf og þögnin umlukti hana.

Þeim sem hyggjast hlusta er eindregið ráðlagt að setja upp heyrnartól og njóta þannig hljóðverksins.


Íslenskar reifarastælingar og þýddir reifarar

Fyrir rúmum áratug vakti athygli mína auglýsingin um fyrstu Harry Potter bókina. Um svipað leyti og hún kom út var mér falið að skima hana inn og breyta í blindraletur. Þótti mér bókin svo skemmtileg að ég vann þetta verk á fjórum dögum ef ég man rétt.

Ég vann einnig þá næstu, en eftir það hætti ég hjá Blindrabókasafni Íslands. Lásum við hjónin næstu bækur saman. Síðustu tvær bækurnar las ég þó einn en þær fékk ég hjá Blindrabókasafni Íslands. Ég réðst á þá síðustu um daginn og hafði vissa skemmtan af. Þó verð ég að viðurkenna að á köflum þótti mér bókin fulllangdregin og að skaðlausu hefði mátt sleppa sumum köflunum sem voru í raun endursögn á því sem áður hafði verið greint frá.

Þýðingar Helgu Haraldsdóttur hafa farið batnandi með hverri bók. Þegar hugurinn er látinn reika um þetta þýðingarverk hennar er ástæða til að harma að ýmis heiti svo sem heiti menntaskólans, sem galdrar voru kenndir við, skyldi ekki þýtt ásamt nöfnum deildanna. Það hefði gefið bókunum margfalt meira gildi á íslensku. Finnsk vinkona mín hefur sagt mér að ýmis heiti sem koma fyrir í sagnabálkinum hafi finnski þyðandinn þýtt. Ég vona að við endurútgáfu bókanna verði þýðingarnar lagfærðar og staðfærðar auk þess sem meinlegar þýðingarvillur verði leiðréttar. Til dæmis er ótækt að tala um prófessora sem kenna krökkum á gagnfræða- eða menntaskólastigi..

Ég læt einatt glepjast af auglýsingum og trúi einkum því sem auglýst er í Ríkisútvarpi allra landsmanna, einkum ef auglýst er á rás eitt. Þannig lét ég glepjast af bókinni Sólkrossinum eftir Óttar M. Norðfjörð. Bókinn fjallar um hálfbrjálaðan bónda austur í Rangárvallasýslu sem stofnar sólkrossreglu á grundvelli kenninga Einars Pálssonar, en Baldur Skarphéðinsson, sem reynt er að drepa í bókinni, hlýtur að hafa verið lærisveinn hans. Bróðir Baldurs, Grímur, lögregluþjónn, tekur að sér að rannsaka morðið og starfsmaður Þjóðminjasafnsins, Embla, flækist inn í málið ásamt kærastanum sínum. Í lok bókarinnar kemur í ljós að hálfbrjálaði bóndinn, sem flestir grunuðu um græsku, er saklaus, en tengdafaðir hans hafði nauðgað dóttur sinni og var faðir barnsins sem bóndinn taldi dóttur sína.

Óttar byggir persónusköpun og framvindu sögunnar á þeirri formúlu sem Dan Brown notar í sögum eins og Englum og djöflum og Davinci-lyklinum svo að einungis tvær bækur séu nefndar. Þótt Óttar hafri nokkra þekkingu á kenningum Einars Pálssonar og menningu íslenska þjóðveldisins skortir hann ýmislegt sem þarf til að skapa sennilegan söguþráð og sannfærandi persónur. Atburðarásin er svo illa gerð að spennufall verður einhvern veginn þegar frásögnin ætti í raun að rísa sem hæst. Því verður að telja það hástemmda lof, sem bókin hefur hlotið, hreint auglýsingaskrum.

Vonandi eru þetta einungis byrjendaörðugleikar hjá Óttari og vænti ég þess að honum takist betur upp næst.


Draumvísur - váboðar Örlygsstaðabardaga

Í morgun þegar ég vaknaði færði Elín mér geislaplötu voces Thules með óskum um gleðilegt afmæli. Í sannleika sagt hafði ég gersamlega steingleymt því að svo væri ástatt fyrir mér.

Ég hef heyrt nokkur tóndæmi af geisladiskinum og ætlaði að kaupa hann við fyrstu hentugleika. Ég setti hann því í geislaspilarann og nutum við þessa merka flutnings.

Tónlistin er valin af einstakri fágun, listfengi og kunnáttu. Flutningur og hljóðritun er með allrabesta móti. Vafalítið telst þessi útgáfa með helstu kennileitum í útgáfu íslenskrar tónlistar fyrr og síðar og eru flytjendum færðar alúðar hamingjuóskir.

Að sögn útgefenda var platan gefin út í 1238 eintökum enda var Örlygsstaðabardagi háður árið 1238. Eintakið mitt er númer 496 og eru því enn 742 eintök eftir.

Hönnun bókarinnar sem fylgir með er jafnvel af höndum leyst og hönnun bókarinnar sem fylgdi Silfurplötum Iðunnar, enda Brynja Baldursdóttir þar á ferð. Letrið er hins vegar ekki læsilegt öllum vegna litasamsetningar - appelsínugulir stafir á svörtum grunni. Gulur litur á svörtum grunni hefur að vísu þótt henta vel ýmsum sem eru sjónskertir. Ef til vill hefur útlitið átt að minna á það hyldýpishatur, græðgi og valdaþorsta sem kynti undir hatursbálinu sem varð undirrót Örlygsstaðabardaga. Skýringarnar eru vel fram settar og hljóta að vekja athygli og áhuga þeirra sem vilja kynna sér efni Sturlungu og það sem ritað hefur verið um íslenska tónlist fyrri tíma.

Það er í raun tímanna tákn að þessi geislaplata skuli koma út á þeim tímum sem mótast af afleiðingum græðgi og valdafíknar. Brátt kunna að verða þeir atburðir að skipti sköpum vegna framtíðar íslenskrar þjóðar. Skyldi þá verða háð önnur Örlygsstaðaorrusta?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband