Færsluflokkur: Trúmál

Bilið vex millum alþýðu og yfirvalda

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, er mikill ræðuskörungur og hefur einwstakt lag á að finna réttum orðum stað á réttum tíma. Við hjónin ætluðum að hlýða prédíkun hans í morgun, en svo varð ekki.

Undanfarin ár höfum við verið viðstödd athöfn á Austurvelli þann 17. júní og haldið þaðan í Dómkirkjuna í Reykjavík að hlýða messu. Í morgun brá svo við, að lögregluþjónar stöðvuðu okkur og greindu frá því að kirkjan væri einungis opin öðrum en almenningi.

Þegar svo er komið að höfuðkirkja landsins er einungis opin boðsgestum á þjóðhátíðardegi landsins, er hæpið að hægt sé að tala um þjóðkirkju. Skiptir þá engu hvort þeir, sem ætla sér að hlýða messu séu utan eður innan þjóðkirkjunnar. Kirkja, sem hýsir einungis valda boðsgesti, er ekki framar kirkja almennings heldur yfirvaldanna.


mbl.is Biður þjóðina að horfa fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert hefur breyst- Þjóðkirkjan í ógöngum

Fyrir viku spurðist að rannsóknarskýrsla Þjóðkirkjunnar yrði birt föstudaginn 10. júní. Var sagt að séð yrði til þess að lítið yrði fjallað um skýrsluna næstu daga enda færi hvítasunnan í hönd og fáir fylgdust með fjölmiðlum.

Þá var því haldið fram að niðurstaða aukakirkjuþings, sem haldið yrði 14. þessa mánaðar, yrði væntanlega sú að konurnar yrðu beðnar fyrirgefningar og enginn kirkjunnar manna axlaði ábyrgð.

Úrslit dagsins virðast því hafa verið ráðin. Nú hljóta menn að spyrja, hvenær menn hafi lokið hlutverki sínu og hvernig þeir, sem eru sannir að því, sem jafnvel mætti kalla verra en meinsæri, geti sætt ólík sjónarmið innan kirkjunnar og í þjóðfélaginu?

Ekki kæmi á óvart þótt nú þyrptist fólk úr Þjóðkirkjunni sem aldrei fyrr. Ekkert hefur breyst. Viðhöfð eru alger vettlingatök.

Enginn skal þó dæmdur í þessum pistli. Sjálfir sjá menn um sig.


Streymir fólk úr þjóðkirkjunni?

Um daginn hitti ég mætan klerk sem er góðkunningi minn. Sagðist hann nú fá nokkrar hringingar á degi hverjum þar sem fólk leitaði ráða um hvernig það geti sagt sig úr þjóðkirkjunni.

Af þessu má ætla að nú sé fjölda fólks ofboðið vegna ýmissa atvika sem æðstu stjórnendur kirkjunnar geta ekki tekið á. Prestur sparkar í konu, ekki er tekið á eineltismálum eða kynferðisafbrot þögguð niður, kirkjan missti úr höndum sér umfjöllun um málefni samkynhneigðra, og svona mætti lengi telja. Syndaregistur kirkjunnar manna er svo langt að þyngra er en tárum taki.

Um daginn spurði ég annan kunningja minn í hópi presta, hvar ég gæti fundið lista yfir starfandi presta á landinu. Ekki stóð á svari frá kunningja hans sem er væntanlega prestur einnig. "Þessar upplýsingar eru eingöngu ætlaðar þeim sem eru í þjóðkirkjunni." Ég sagðist vera skráður í þjóðkirkjuna og tók eiginkona vinar míns undir það.

Nú leikur greinilega það orð á að ég standi utan þjóðkirkjunnar, enda hef ég ekki sparað að halda því fram að ég geti ekki farið með trúarjátninguna, því að ég geti einungis fallist á fyrstu setningu hennar. Þá hef ég haldið því fram að Kristur sé ekki Messías því að fátt í fari Krists bendi til þess að hann samsvari hugmyndum Gyðinga um hinn nýja konung sem þeir þráðu og hafa þráð.

Það bendir því flest til þess að ég ákveðið að standa utan trúarsafnaða og láti hina dauðu grafa hina dauðu.


Davíð konungur, hryðjuverkamaður og sálmaskáld

Ég hlusta á rás eitt á morgnana. Um það leyti sem morgunbænin hefst byrjum við hjónin morgunverð.

Um þessar mundir fer prestur nokkur með bænina. Byggir hann textann á sálmum Davíðs konungs og vangaveltum um speki hans.

Þegar Biblían er lesin og sett í samhengi við þá tíma sem lýst er, lýkst ýmislegt upp fyrir mönnum. Þannig er augljóst að Davíð konungur hefði verið flokkaður með hryðjuverkamönnum á vorum dögum. Hann átti það sameiginlegt mð Ísraelsmönnum nútímans að hann var landtökumaður. Hann beitti öllum brögðum til að sölsa undir sig lönd annarra og hlífði þá engum, enda skákaði hann í skjóli meints vilja Guðs.

Í raun var Davíð samviskulaus óþokki sem iðraðist sjaldan. Það er umhugsunarvert að velta því fyrir sér á hvaða grunni kristin trú er talin standa. Í raun væri boðskapur Krists nægur lærdómur sannkristnum sálum þótt ekki sé bætt við frásögnum og vangaveltum um þann óþjóðalýð sem stýrði Ísraelsmönnum, meintri útvalinni þjóð Guðs.

Kemur þá að merg málsins. Voru spádómarnir um fæðingu Messíasar þess eðlis að kristnir menn geti ímyndað sér að Jesús hafi verið Messías? Voru ekki spádómarnir settir fram þegar Ísraelsmenn voru í mikilli neyð og þurftu á hughreystingu að halda? Var þeim ekki lífsnauðsyn að eignast friðarhöfðingja og mann sem allar þjóðir lytu?

Því betur sem ég kynni mér sögu þeirra feðga, Davíðs og Salómons kviknar meiri andúð á þeim og frændgarðinum öllum. Það er víst þekkt í mannkynssögunni að ýmsir hrottar hafi ort fögur kvæði sem hafa haldið nafni þeirra á lofti. Ætli Davíð konungur sé ekki einn þeirra, sjálfselskur og eigingjarn hrotti sem afsakaði gerðir sínar með orði Guðs

Ætli sé þá ekki best að enda þennan pistil á þeirri bæn að guð verði sálu hans náðugur. Einnig bið ég þess að íslenskir prestar vandi betur val sitt á orðum þeim er þeir veita yfir landslýð á morgnana.


Í sumu fólki búa margir menn

Það er eins og stífla hafi brostið innan þjóðkirkjunnar. Óvíst er hverju þessi stífla skolar með sér. Ef til vill væri betra að sumir vikju úr vegi áður en straumur tímans skolar þeim á brott. Þannig kæmust þeir heilli á húfi úr hildarleiknum.

Ólafur Skúlason reyndist mörgum vel. Hann gekk í lið með geðfötluðu fólki í upphafi 10. áratugarins og helgaði málefnum þess jólaguðsþjónustu ríkissjónvarpsins. Það var á þeim tíma þegar Öryrkjabandalag Íslands voru baráttusamtök. Þá þegar lék það orð á að biskup væri kvensamur og hvíslað var um meinta kvensemi hans á meðan hann var prestur í Bústaðakirkju. Þótt einhverjir leiddu þetta hjá sér var hitt þó verra að þeim, sem urðu fyrir barðinu á þessari sjúklegu áráttu skyldi ekki vera trúað og framganga biskupsins sjálfs var með þeim hætti að hann gekk ótrauður fram í krafti embættis síns og skoraði skjólstæing sinn á hólm. En biskup hvarf úr embætti og kirkjan lét málið niður falla. Það voru mistök.

Íslendingar hafa lengi vitað að prestar eru hvorki né hafa verið betri en aðrar stéttir fólks í siðferðisefnum. Amma mín, Jóhanna Jónsdóttir, var t.d. dóttir séra Páls á Völlum í Svarvaðardal og var maður nokkur fenginn til þess að gangast við henni svo að prestur missti ekki hempuna. Þannig er nú sú saga og því er ættfærrsla mín ekki allskostar rétt í föðurætt. Jafnvel æskulýðsleiðtoginn mikli, séra Friðrik Friðriksson, var grunaður um að láta vel að ungum drengjum. Kristmann Guðmundsson sagði frá því í endurminningum að hann hefði hrakist úr K.F.U.M fyrr þessar sakir og haft var eftir þekktum einstaklingi, sem var víðkunnur útarpsmaður og hafði afskipti af barnaverndarmálum á 5. og 6. áratugnum að hann hefði aldrei getað á heilum sér tekið ef hann vissi unga drengi í einrúmi með prestinum. Þessi orðrómur fór svo hátt að í æsku minni var mér greint frá þessu. Enginn kærði klerkinn. Lögreglan mun hafa haft einhver afskipti af málum hans og tekið þátt í að þagga niður. Þó var séra Friðrik mikill æskulýðsleiðtogi en með þennan löst.

Þjóðkirkjan er viðkvæmari fyrir slíkum málum en flestar aðrar stofnanir og það eru þjónar hennar einnig. Æðstu þjónar kirkjunar eru þar ekki undanskildir og í raun riðar nú kirkjusamfélagið til falls vegna þess að almenningi er misboðið. Ekkert varð úr því að sér Geir Waage yrði áminntur vegna skrifa sinna í Morgunblaðið en þeir biskupinn urðu sammála um að orð hans hefðu verið slitin úr sahengi. Ég velti því fyrir mér, þegar ég las þessa niðurstöðu, að réttast hefði verið að birta greinar klerksins á bloggsíðu þessari og láta lesendum eftir hvort orð klerksins hefðu verið slitin úr samhengi. Í stað þess kaus ég að fjarlægja pistil minn um afdalaklerk nokkurn af síðunni enda væri málinu lokið.

 

Ég hef þá reynslu af herra Karli Sigurbjörnssyni að hann taki þá afstöðu sem heildinni verður fyrir bestu.


Skemmtilegur orgelleikur í Dómkirkjunni

við hjónin brugðum okur í messu í Dómkirkjunni í Reykjavík á sautjándanum eins og stundum áður. Nú er svo komið að oss óæðri gestum er boðið upp á loft og þar þarf að klöngrast yfir palla og þrep áður en fundin verði sæti. Við létum okkur hafa það að venju og settumst við hlið Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur, söngkonu, sem söng alla sálmana með sinni prýðilegu rödd. Ekki lagði ég í sálmasöng enda kann ég fáa sálma og Lofsöngur Matthíasar, sem getið er í bók Helga Ingólfssonar, Þegar kóngur kom, reyndist of erfiður til söngs nú eins og fyrir 136 árum.

Örn Magnússon, eiginmaður Mörtu Guðrúnar, lék á orgel Dómkirkjunnar og stjórnaði Dómkórnum. Sem forspil notaði hann "Gefðu Guð faðir, faðir minn" eftir Jón Leifs og átti það vel við. Sem eftirspil lék hann úr Rímnadönsum eftir Jón Leifs og fór þá allt á ið innra með mér og ýmsum kirkjugestum öðrum. Ég klappaði tvisvar en Dómkórinn klappaði á táknmáli. Mikið var það vel viðeigandi og skemmtilegt að nota rímnadansana sem eftirspil.

Síðar um daginn sóttum við heim Árbæjarsafn ásamt móður Elínar og vinkonu hennar. Um kvöldið röltum við um í miðborginni að hlusta á ýmsar hljómsveitir. Þótti mér þar Varsjárbandalagið skemmtilegt. Gleðin og kímnin smitaði svo út frá sér að allir, jafnt hægri- sem vinstrisinnaðir - urðu glaðir. Þar var m.a. leikin Þjóðrembusyrpa sem hófst á balkneskri stælingu lagsins Ísland Farsældarfrón. Þá heyrðust vel fjölmenningarleg áhrif sem orðið hafa hér á landi og eiga fátt skylt við þá ensku eða amerísku menningu sem tröllríður þjóðtungunni og öðrum þáttum þjóðlífsins um þessar mundir svo að Sautjándinn hefði vel getað verið amerísk útihátíð í Texas.


"Seint fyllist sálin prestanna"

DV greinir frá því í dag að prestur nokkur á Suðurnesjum fái rúma milljón í aksturspeninga á ári. Samkvæmt kjarasamningum ætti hann að fá rúm 300 þúsund.

Áður hefur verið vikið að því á þessum síðum hversu viðkvæmt starf presta sé og hversu auðvelt sé að gera þá að skotspónum. Ókostir eins og græðgi og sérgæska mega helst ekki einkenna þá sem gerast sálusorgarar.

Presturinn gæti nú farið að dæmi mannsins í þjóðsögunni og skipt þessum ofgreiddu aksturspeningum með einhverjum þeim hætti að gögnuðust fleira fólki en honum sjálfum. Hætt er við að sú ágirnd, sem þessar greiðslur fela í sér, verði seint til þess að hann verði auðmaður og skorti aldrei fé.

SEINT FYLLIST SÁLIN PRESTANNA

Einu sinni var ungur maður og efnilegur; hann lagði ástarhug á stúlku eina og bað hennar; en hún aftók um ráðahag við hann. Af því varð maðurinn mjög angraður og fór oft einförum.

Einu sinni var hann einn úti á víðavangi að rölta eitthvað; veit hann þá ekki af því, fyrr en maður kemur til hans og heilsar honum. Biðillinn tekur kveðju hans dauflega, enda þykist hann ekki þekkja manninn. Komumaðurinn er altillegur við hann og segist vita, að það liggi illa á honum og út af hverju það sé, og segist skuli sjá svo um, að stúlkan, sem ekki hafi viljað taka honum, sæki ekki minna eftir honum en hann eftir henni, ef hann vilji heita sér því að verða vinnumaður sinn að ári liðnu. Maðurinn tekur þessu boði þakksamlega, og ráða þeir nú þetta með sér. Eftir það skilja þeir, og fer biðillinn heim.

Litlu seinna finnur hann stúlkuna við kirkju, og er hún þá orðin öll önnur við hann en áður og sækir mjög eftir honum. Maðurinn fer þá heldur undan og hugsar, að þetta sér hrekkur af henni. En bráðum kemst hann að því, að henni er full alvara. Verður það nú úr, að hann fær stúlkunnar og á hana, og voru samfarir þeirra góðar.

Nú fer að líða á árið, frá því hann hitti þann, sem hafði stutt hann til konumálanna, og fer nú bóndi að fá hugsýki af því, hver þetta hafi verið. Þegar mánuður var eftir til krossmessu, fer hann á fund prestsins síns og segir honum upp alla sögu og biður hann ráða. Prestur segir, að hann hafi of seint sagt sér þetta, því þar hafi hann átt kaup við kölska sjálfan, er hann átti við þenna ókunnuga mann.

Fer þá algjörlega að fara um bónda og biður prest því ákafar ásjár.

Prestur varð vel við því og safnar þegar að sér múg og margmenni, lætur þá alla taka til starfa og grafa innan stóran hól og bera alla moldina burtu; síðast lætur hann gjöra kringlótt gat lítið upp úr miðjunni á hólnum. Þegar því var lokið, er komið að krossmessu. Tekur prestur þá sál og úr henni báða botna, en setur krossmark í annan endann og festir sálina í gatinu á hólinn, svo hún stendur þar upp sem strompur, en krossmarkið er í neðri enda sálarinnar. Síðan segir hann við bónda, að hann skuli bíða kaupanauts síns uppi á hólnum og setja honum þá kosti, að hann fylli sálina með peninga, öllum að meinfangalausu, áður en hann fari að þjóna honum; ella sé hann af kaupinu.

Síðan skilur prestur við bónda, og fer hann að öllu sem prestur hafði fyrir mælt.

Nokkru síðar kemur kaupanautur hans, og er hann nokkuð úfnari en í fyrra skiptið. Bóndi segir við hann, að sér hafi láðst eftir seinast að biðja hann bónar, sem sé lítilsverð fyrir hann, en sér ríði á svo miklu, að hann geti ekki farið til hans ellegar. Kölski spyr, hvað það sé, og segir hann, að það sé að fylla sálina þá arna með silfurpeninga, öllum að meinfangalausu.

Kölski lítur til hennar og segir, að það sé ekki meira en mannsverk, fer burtu og kemur aftur eftir litla stund með mikla drögu og lekur úr sjávarselta. Síðan lætur hann úr drögunni í sálina, en hún er jafntóm eftir sem áður. Fer hann þá í annað sinn og kemur aftur með aðra drögu miklu stærri og steypir í sálina; en hún fyllist ekki að heldur. Svo fer hann í þriðja sinn og kemur upp með drögu, og er hún mest þeirra; þeim peningum hellir hann í sálina, og fer það allt á sömu leið. Þá fer hann hið fjórða skipti og sækir enn drögu; sú var meiri en allar hinar; steypir hann þeim peningum einnig í sálina, en ekkert hækkar í henni. Verður kölski þá hvumsa við og segir, í því hann yfirgefur manninn: "Seint fyllist sálin prestanna".

Maðurinn varð, sem von var, alls hugar feginn lausn sinni frá vistráðunum hjá kölska, og af því hann þóttist eiga þar presti best upp að unna, skipti hann jafnt á milli þeirra peningunum, og vitjaði kölski hvorki þeirra né mannsins eftir það, en maðurinn varð auðmaður alla ævi og skorti aldrei fé né heldur prestinn.

Netútgáfan - mars 1997


skemmtileg Kvennakirkjumessa handa höfðingjasleikjum

Dagurinn var skemmtilegur. Við fórum í leiðangur með Hring okkar og á meðan Elín mátaði skó bjó Hringur til handa mér hringitóninn "Austrið er rautt" svo að nú er þessi gamli, kínverski ástarsöngur og lofsöngur um Mao kominn á ný í farsímann minn.

Í kvöld brugðum við Elín undir okkur Orminum bláa og hjóluðum austur að gömlu þvottalaugunum að hlýða messu hjá Kvennakirkjunni. Prédíkaði séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og var bæði skemmtileg og greind að vanda. Sagðist hún hafa komist að því að Íslendinga mesti vandi væri sá að þeir væru höfðingasleikjur.

Í ræðunni fjallaði hún einnig um flóttann frá Egyptalandi hér um árið þegar Móses leiddi Ísraelslýð um eyðimerkur Sínaí-skaga eða þar til þeir gátu hremmt Ísrael úr höndum þeirra sem ráðu því. Hún taldi að vísu að guð hefði gefið þeim landið en mér finnst ævinlega sem Gyðingar hafi stolið því.

Hún Auður rakti síðan skemmtilega hvernig skiptingin væri milli gamla testamentisins og hins nýja: Guð talaði fyrst við höfðingjana sem hefðu verið boðberar hans lýðnum. Síðar hefði guð gengið um á meðal manna sem Jesús og talað við almenning.

Enn hafði Auður Guð í kvenkyni. Þó fór hún með föðurvorið en ekki móðurvorið og var vissulega nokkur ósamkvæmni í því. Hún gleymdi samt ekki að ávarpa okkur hina fáu karlmenn sem hlýddum messunni.

Ég hef einu sinni áður hlýtt messu hjá Kvennakirkjunni. Niðurstað mín er sú að messur þeirra kvennanna vinni gegn ýmsum fordómum. Auður er hrífandi ræðumaður enda fékk hún gott hljóð.

Unnur vinkona okkar kom til móts við okkur í messuna og þar hittum við einnig Fanneyju Proppé sem bauð okkur þremur í kaffi og konfekt. Voru því andi og líkami vel nærðir eftir þennan dag.


Óbótamaðurinn og heiðursmennirnir

Í gær flutti maður nokkur, sem var eitt sinn stjórnmálamaður, ræðu á fundi flokksins síns. Fjallaði hann þar um félaga sína sem hann úthúðaði og sjálfan sig sem hann líkti við Jesúm krist. Sitthvað sagði hann fleira.

Það vakti athygli að hann kaus einungis að fjalla um síðustu ár sín sem framkvæmdastjóra opinbers fyrirtækis og þá staðreynd að lögum var breytt til þess að koma honum úr embætti, eins og hann taldi. Greindi hann frá því að Jesús hefði verið krossfestur og hafður á milli tveggja óbótamanna.

Sjálfur taldi hann sig hafa verið krossfestan á milli tveggja heiðursmanna.

Hefði nú þessi aldni stjórnmálamaður, sem er skáldmæltur eins og nafni hans, sálmaskáld í Biblíunni, hefði hann fremur átt að sækja líkinguna til Lúsífers (ljósberans) sem Guð rak úr Himnaríki. Þar með hefði hann ef til vill komist að kjarna málsins. Þá hefði núverandi forsætisráðherra verið Guð. En sem kunnugt er hefur Lúsífer dregið marga niður í svaðið með sér.

Ef leitað er á Gúgglinu að orðinu Lúsífer kemur upp athyglisverð bloggsíða sem lýsir eðli hans. Þar er m.a. minnst á kænsku, lævísi og jafnvel hefnigirni. En hætt er við að hefndin snúist gegn þeim sem efnir til hennar eins og sendingum galdramana var snúið gegn þeim sjálfum.


Beint frá Alþingi á mbl.is

Á kosningavef mbl.is er nú beinn hlekkur á útsendingar frá Alþingi. Í frétt mbl.is er fólki bent á að smella á borða hægra megin á síðunni. Þeim sem nota skjálesarann Supernova eða HAL frá Dolphin er bent á að fara þannig að:

1. Leitið að orðinu kosning með því að fara inn á mbl.is, styðja á f3 og lykla það inn. Síðan er stutt á færslulykilinn (enter).

2. Virkið undirsíðuna með því að styðja á færsluhnappinn við kosningavefinn.

3. Leitið nú að orðunum "Beint frá Alþingi" eða hreinlega beint og þá finnið þið krækjuna á beinu útsendinguna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband