Færsluflokkur: Fjármál

Skyldi kapallinn ganga upp?

Nýjasta kenningin, sem heyrst hefur um þessi mál, er sú, að hagsmunaaðilum, sem tengjast Samfylkingunni og hafa stundað ýmis vipskipti með fjármuni, hafi þótt of hart að sér sótt af Fjármálaeftirlitinu, eftir að Gunnar Andersen tók við forstjórastólnum. Hafi því orðið að ráði að beita hverjum þeim brögðum, sem duga, til þess að koma honum (Gunnari) af sér. Þar sem ólíklegt sé að nokkur finnist, sem talinn sé hæfur til þess að gegna starfi forstjórans, verði brugðið á það ráð að færa stofnunina á ný undir Seðlabankann. Hefur þegar verið nefnt nafn þess manns, sem taki við forráðum eftirlitsins.


mbl.is Ráðherra úrskurði um rétt hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurtollar á tækjum til hljóðritunar

Í dag sendi ég fjármálaráðherra og formanni efnahags- og viðskiptanefndar eftirfarandi bréf. Um árabil hafa þeir, sem stunda hljóðritanir sér til ánægju eða hafa þær að atvinnu, mátt sæta ofurtollum af hljóðritunartækjum.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni tollstjórans í Reykjavík, Bjarna Sverrissyni, bera slík tæki 25,5% virðisaukaskatt, 7,5% toll, 25% vörugjald auk 2,5% stefgjalds (sjá hér að neðan). Eina leiðin, til þess að fá felld niður vörugjöld og tolla, er að sá, sem kaupir hljóðritunartæki, hafi iðnaðarleyfi, þar sem starfsemin er ítarlega skilgreind.

Til samanburðar má geta þess að stafrænar ljósmyndavélar bera einungis virðisaukaskatt. Öll tæki, sem eru sérstaklega gerð til afspilunar og hljóðritunar, sæta þessum ofurtollum. Þar á meðal má nefna sérhönnuð afspilunartæki fyrir svokallaðar Daisy-hljóðbækur, en þær nýtast einkum blindu, sjónskertu og lesblindu fólki. Gera þessir ofurtollar flestum ókleift að eignast tækin vegna þess hve verðið er hátt. Þessi ofurgjöld skerða um leið getu Þekkingarmiðstöðvar blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga að úthluta slíkum tækjum. Jafnvel lítil minnistæki sæta þessum tollum.

Vaxandi hópur hér á landi hefur ánægju af hljóðritunum. Það skýtur því skökku við að hljóðritar skuli sérstaklega skattlagðir á meðan tölvur, sem einnig er hægt að nýta til hljóðritunar, eru undanþegnar slíkum gjöldum.

Undirritaður fær ekki skilið hvað veldur því að gert er með þessum hætti upp á milli þeirra, sem njóta hljóðs og þeirra sem hafa unun af ljósmyndum.

Hér er um alvarlega mismunun að ræða, sem á sér vart stoð í lögum, heldur sýnist sem um sé að ræða reglugerðarákvæði.

Ég leyfi mér hér með að leggja til að vörugjald og tollur af tækjum til hljóðritunar verði felld niður og sæti þau sömu gjöldum og ljósmyndavélar og tölvur. Svo virðist sem stafrænar upptökuvélar, sem eru með innbyggðan hljóðrita, sæti ekki slíkum ofurtollum.

Hér er um brýnt mannréttindamál að ræða. Ríkissjóður verður af litlum tekjum, en einhverjir einstaklingar gætu átt auðveldara um vik að hasla sér völl á sviði hljóðritunar.

Lausleg könnun hefur leitt í ljós að slíkir ofurtollar séu með öllu óþekktir í löndum Evrópu og Norður-Ameríku.

Þetta verk er verðugt verkefni handa nýjum fjármálaráðherra, sem hægt er að afgreiða með skömmum fyrirvara.

Með vinsemd og virðingu,

Arnþór Helgason,

fyrrum formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands

s


Aldrað fólk fórni sér

Einatt hefur verið vitnað í aldraðan fjárfesti á þessum síðum, þegar eitthvað hefur verið á döfinni, sem skiptir máli í fjármálaheimi Íslendinga. Hefur honum einatt ratast satt orð á munn, enda maðurinn spámannlega vaxinn og margreyndur í lífsins ólgusjó.

Í dag háðum við kappræður um niðurskurðinn sem framinn er á Landspítalanum. Vorum við sammála um að viturlegt væri að leggja Sogn niður, enda húsnæðið niðurnítt og mun betri aðstaða á Kleppi, þótt hann sé í Reykjavík. Þykir okkur málflutningur þingmanna sunnlendinga með ólíkindum í því máli og minnum á að Sunnlendingar geta engu síður sótt vinnu suður en Reykvíkingar austur.

Ritstjóri síðunnar taldi að nú væri svo komið að ríkið yrði að skera við nögl framlög til svokallaðra einkarekinna háskóla í stað þess að taka sífellt af þeim, sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, sjúklingum og öldruðu fólki. Fjárfestirinn fullyrti þá að fara mætti sérkennilega leið til þess að forða líknardeildinni á Landakoti frá því að verða lögð niður. Setti hann upp eftirfarandi dæmi:

,,Maður nokkur, sem er rúmlega áttræður, er farinn að heilsu og þykir erfitt að þreyja þorrann. Nafn hans verður ekki nefnt hér, en hann er upphafsmaður tillögunnar. Lyfin, sem hann notar til þess að halda í sér líftórunni, kosta hið opinbera 6 milljónir á ári. Ef leitað yrði til 8-9 slíkra einstaklinga og þeim gefinn kostur á að fórna sér fyrir málstaðinn, er hann þess fullviss, að flestir brygðust vel við."

Að lokum kvaðst hinn aldraði fjárfestir veita samþykki sitt fyrir því að tillaga sjúklingsins yrði birt á þessum síðum.


Jákvæð viðhorf hjá ríkisskattstjóra

Fyrir þremur árum var á þessum síðum greint frá samskiptum mínum við embætti ríkisskattstjóra, en þeim lauk með talssverðum endurbótum á vefnum. Átti ég einkar ánægjulegt samstarf við einn af starfsmönnum embættisins, Einar Val Kristinsson auk ríkisskattstjóra sjálfs, Eggerts Skúla Þórðarsonar.

Eftir að rafræn skilríki komu til sögunnar og voru virkjuð á vef ríkisskattstjóra, varð öll vinnsla auðveldari. Í gær kom í ljós, sem ég hafði reyndar vitað, að svokallaðan alt-texta vantaði við hnapp, sem styðja þarf á til þess að virkja rafræn skilríki. Skjálesarinn las einhverja stafarunu sem í raun sagði fátt um hvað hnappurinn snerist. Því rifjaði ég upp bréfaskipti okkar Einars Vals og sendi honum línu. Viti menn. Svar barst um hæl þar sem mér var þökkuð ábendingin og sagt að textinn væri kominn.

Í dag leit ég inn á heimasíðuna, enda stendur nú til að gera skil á opinberum gujöldum. Hnappurinn var á sínum stað með textanum "Innskráning með rafrænum skilríkjum". Þetta er til hreinnar fyrirmyndar og lýsir vel góðri þjónustulund.

Svona eiga sýslumenn að vera, eins og Skugga-Sveinn mælti hér um árið. og "þjóna alþýðunni" eins og Mao formaður vildi

Gott aðgengi að vefnum sparar bæði fé og fyrirhöfn. Fróðlegt væri að vita hvort einhverjir, sem eru blindir eða svo skjónskertir að þeir þurfa á stækkuðu letri eða blindraletri að halda, nýti sér þær leiðir sem opinberir þjónustuvefir hafa opnað með rafrænum skilríkjum og aðgengilegum vefsíðum.


Myntbreytingin 1980 - þegar seðlarnir skyldu verða jafnlangir

Um þessar mundir eru 30 ár síðan skorin voru 2 núll aftan af krónunni. Væntu menn þess að verðskyn yrði meira en áður og það hjálpaði ríkisstjórninni í baráttunni við verðbólguna. En eins og Jóhannes Nordal benti á í ársbyrjun 1986 var myntbreytingin engin efnahagsaðgerð, enda hafði þá verðlag hækkað tífalt frá því sem það var í ársbyrjun 1981.

Seðlabankinn hófst handa við myntbreytinguna með góðum fyrirvara. Blindrafélagið var þá lítið félag sem hafði verið lítt áberandi í íslensku þjóðlífi. Nýir tímar voru þó að renna upp og ný kynslóð að taka við sem hafði uppi aðrar baráttuaðferðir en fyrrennararnir, enda var aðstaða einstaklinga af þeirri kynslóð öll önnur.

Blindrafélagið hafði byrjað að gefa út fréttabréf árið 1974 og var útgáfunni haldið áfram um nokkurt skeið. Stýrðum við Elínborg Lárusdóttir, blindraráðgjafi, fyrstu bréfunum. Rötuðu þau inn á ritstjórnir fjölmiðla sem tóku iðulega ýmislegt upp úr þeim.

Það mun hafa verið árið 1977, ef ég man rétt, að fjölmiðlar fjölluðu um myntbreytinguna og að ákveðið hefði verið að hanna nýja seðla. Skyldu þeir vera allir jafnlangir og breiðir, en áður fyrr höfðu seðlarnir verið mislangir eftir verðgildi þeirra. Sá þá blint og sjónskert fólk sína sæng útbreidda og þótti vegið að hagsmunum sínum. Ég ritaði um þetta í Fréttabréf Blindrafélagsins og orðaði víst svo að Seðlabankinn hefði hreykt sér af því að þessi aðgerð myndi auðvelda talningarmönnum bankans störf sín.

Svo fór að flestir fjölmiðlar landsins tóku þessa frétt upp og var talsvert saumað að forystumönnum Seðlabankans. Einna helst varð fyrir svörum Stefán Þórarinsson, aðalféhirðir bankans. Hringdi hann til mín og kvartaði undan orðfærinu í greininni. Svaraði ég því til að stundum þyrfti að hella yfir fólk úr fullri fötu af ísködu vatni til þess að það skyildi um hvað málið snerist. "Það er svo sannarlega rétt hjá þér, Arnþór," svaraði hann og fór svo að samtalinu lauk með því að Stefán sagðist mundi athuga málið.

Ýmsir fleiri komu að þessu máli, þar á meðal Halldór Rafnar, lögfræðingur, en þeir Jóhannes Nordal voru skólafélagar og vinir. Lauk málinu með því að ákvörðunin um seðlana var tekin aftur og urðu þeir mislangir eftir verðgildi eins og verið hafði.

Fróðlegt er að rifja upp rök þeirra seðlabankamanna fyrir því að seðlarnir yrðu gerðir jafnlangir. Þau voru m.a. þau að til væru sérstakar seðlatalningavélar sem ynnu eingöngu með þessa tegund seðla. Önnur rökin voru þau að talningarmönnum yrði gert léttara um vik. Þriðju rökin voru þau að Norðurlandaþjóðirnar auk Breta og Þjóðverja værunú þegar með jafnlanga seðla eða til stæði að taka þá upp.

Það vó þungt þegar starfsmanni Seðlabankans var bent á að Bretar og Norðurlandaþjóðirnar hefðu notað misjafnar stærðir seðla og virtist það ekki torvelda bönkunum starfsemi sína, en meginspurningin var sú hvort taka skyldi tillit til örfárra talningarmanna í stað þess að hugsa um hagsmuni fjölda fólks sem ætti í vandræðum með seðlana.

Um það leyti sem nýja krónan tók gildi hittumst við Stefán Þórarinsson og sagðist hann þá ekki botna í því hvernig nokkrum manni hefði dottið í hug að allir seðlar hérlendis skyldu jafnstórir án tillits til verðgildis. Þótt sigur hefði unnist í þessu máli var hann vart nema hálfur. Lengdarmunur seðlanna var einungis og er hálfur sentimetri, en Seðlabankinn brást við því með sérstökum seðlamátum sem afhent voru blindu og sjónskertu fólki. Ég hef að vísu ekki séð slík mát langalengi og síðast þegar ég rpurði um þau voru þau ekki til. Þá lét bankinn útbúa sérstaka seðlalesara sem lásu upp verðgildi þeirra. Þó vildi brenna við að lesararnir gætu ekki lesið seðlana væru þeir farnir að lýjast.

Saga þessi sýnir að hægt er að ná niðurstöðu í ýmsum málum ef sanngirni er gætt og skilningur á misjöfnum aðstæðum er fyrir hendi. Forystumenn Seðlabankans gerbreyttu um stefnu gagnvart blindu og sjónskertu fólki og kynntu Blindrafélaginu ýmislegt sem snerti hönnun myntar og seðla. Minnist ég þessa samstarfs með mikilli ánægju.


Fjölmiðlar þegja um málefni Gildis

Jóhann Páll Símonarson, sem á aðild að lífeyrissjóðnum Gildi, hefur kært stjórnendur sjóðsins til ríkissaksóknara. Í bréfi sínu, sem dagsett var 22. september síðastliðinn, telur hann að tap sjóðsins árið 2008 og 2009 sé langt umfram það sem telja megi eðlilegt. Ríkissaksóknari sendi bréfið áfram til ríkislögreglustjóra, en 30. sept. sl. hafði verið ákveðið að taka skyldi málið til rannsóknar.

Hinn 11. nóvember skrifaði lögfræðingur gildis, Þórarinn V. Þórarinsson, embætti ríkislögreglustjóra bréf þar sem hann krafðist þess að rannsókn málsins yrði hætt og hinn 17. nóvember barst ríkislögreglustjóra bréf frá Fjármálaeftirlitinu þar sem því varr lýst að ekki sé ástæða til þess að hefja rannsóknir á málefnum Gildis. Taldi því ríkislögreglustjóri hvorki tilefni né grundvöll til að aðhafast frekar í málinu. Undir bréfið ritaði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, settur saksóknari efnahagsbrotadeildar.

„Hugsaðu þér. Settur saksóknari spyr fjármálaeftirlitið hvort ekki sé allt í lagi með Gildi,“ sagði Jóhann Páll í samtali við undirritaðan. „Ég spyr því hvernig efnahagsbrotadeildin ætli að verja sjálfstæði sitt eftir þetta.“

Jóhann hefur ákveðið að kæra þá ákvörðun setts saksóknara efnahagsbrota að hætta rannsókn á háttsemi stjórnar og starfsmanna Gildis, „en sjóðurinn hefur tapað gríðarlegum fjármunum undanfarið og kemur við sögu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Það var reyndar helsta ástæða kærunnar.

Sérstök athygli er vakin á því að Fjármálaeftirlitið, sem lögum

samkvæmt á að hafa eftirlit með lífeyrissjóðum landsmanna, virðist líka hafa ráðið mestu um að settur saksóknari efnahagsbrota ákvað að hætta þeirri rannsókn, sem stóð til að gera,“ sagði Jóhann Páll.

Jóhann Páll segir að fjölmiðlar hafi ekkert fjallað um rannsókn þessa máls, en þeim hafi verið send öll málsgögn. Telur hann að þeir þjóni hagsmunum atvinnuveitenda og verkalýðsforystunnar, en hinn almenni sjóðsfélagi hafi lítið að segja um málið.

Á síðu Jóhanns Páls, http://jp.blog.is, kemur fram að lífeyrissjóðurinn Gildi hafi tapað 59,6 milljörðum kr árið og árið 2009 hafi tapið numið um 52 milljörðum kr. Samtals nemi því tapið um 110 milljörðum. Jóhann segir að 52 milljarða skorti til þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

Nokkur málsskjöl eru birt sem fylgigögn þessarar færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvernig þýsk stjórnvöld endurheimta glatað fé

Þessi saga á sér þann formála að ég hef átt í basli með blindraletursskjáinn minn. Vandræðin enduðu þegar tæknimaður Papenmeier-fyrirtækisins tengdi sig inn á vélina hjá mér og áttaði sig á því hvert vandamálið væri. Í framhaldi af því greindi hann mér frá því að viðskiptin gengju nú sem aldrei fyrr en ég svaraði því til að hér mætti ýmislegt ganga betur. Komumst við að þeirri niðurstöðu að útrásarvíkingarnir hefðu verið verri en verstu sjóræningjar.

Hann sagði að Þjóðverjar hefðu fundið lausnina á því hvernig hægt væri að endurheimta glataða fjármuni. Þýska stjórnin eyðir nú milljörðum Evra til þess að aðstoða bankana. Bankarnir brenna hins vegar peningana. Nú hefur verið settur á hár umhverfisskattur í Þýskalandi til þess að hamla gegn gróðurhúsaáhrifum. Því meiri peningum sem bankarnir brenna því meiri umhverfisskattar. Þannig fær ríkið fjármunina aftur.

Þýsk fyndni er óborganleg!


Um heilindi sumra stjórnmálamanna og fleira

Vakið hefur athygli að kínverskir fjárfestar hafa keypt talsverðan hlut í útgerðarfélagi. Eigendur láta að því liggja að þetta sé löglegt því að fjárfestarnir hafi keypt hlut í eignarhaldsfélagi útgerðarfélagsins.

Í gær tjáði sá ágæti Bolvíkingur, Einar K. Guðfinnsson, sig um málið og þótti illt að erlendir fjárfestar seildust til valda í íslenskum sjávarútvegi. Ræddi hann um að óbeinar fjárfestingar væru leyfilegar en ekki beinar (leiðrétti mig einhver, fari ég með rangt mál).

Heimildarmaður bloggsíðunnar, aldraður fjárfestir, sem hefur marga fjöruna sopið í fjárfestingum á undanförnum áratugum, tók þetta mál til umræðu í gær og sýndist sitt hverjum. Spurning hans var þessi: Hvaða munur er á beinni og óbeinni fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi? Þegar menn fjárfesta með beinum hætti í fyrirtækjum kaupa þeir hlut í þeim. Þegar menn fjárfesta með óbeinum hætti í útgerðunum hljóta þeir að fjárfesta í einhverju sem snertir fyrirtækin, til að mynda eignarhaldsfélögum eða fyrirtækjum sem eiga hlut í öðrum fyrirtækjum. Það kann að vera talsverður munur á óbeinum fjárfestingum innbyrðis, en í eðli sínu er munurinn enginn á beinum og óbeinum fjárfestingum. Niðurstaðan hlýtur að verða sú að fyrirtækjum hér á landi hljóti að verða óheimilt að fjárfesta í útgerð eigi útlendingar óeðlilega mikið hlutfall hlutafjárins. Sennilega er nú komið í ljós eins og margsinnis hefur verið bent á hér á þessum síðum að rétt sé að ríkið innkalli til sín allan kvóta útgerðarfyrirtækjanna. Til eru leiðir sem duga til þess að fyrirtækin haldi velli og verður ef til vill skrifað um þær síðar á þessum síðum. Æskilegra væri þó að viðskiptafræðingar eða jafnvel hagfræðingar bentu á þessar leiðir án þess að láta átrúnaðinn á kvótakerfið hlaupa með sig í gönur. Varla gerir formaður sjávarútvegsnefndar það því að hann virðist varla þekkja nein lög.

Þá hefur lagaskýring Seðlabankans frá í maí í fyrra vakið athygli og segist Gylfi Magnússon ekkert hafa vitað um hana. Eygló Harðardóttir rís upp á afturfæturna og slær frá sér með hrömmunum. Hætt er við að um vindhögg sé að ræða því að fleiri voru þeir sem vissu ekkert um þetta álit. Þar á meðal var Jóhanna Sigurðardóttir.

Það hefur áður gerst að embættismenn ráðuneyta hafi haldið leyndum upplýsingum fyrir ráðherrum. Kann það að stafa af ýmsu: gleymsku, kæruleysi, launhyggju, athyglisskorti eða jafnvel því að embættismennirnir hafi ekki tíma til að lesa plöggin sem þeim eru fengin. Þeir sem komnir eru til vits og ára hljóta að muna hvað gerðist eftir fundinn fræga 11. júlí árið 2008, þar sem kynntar voru horfur á allsherjar hruni. Fulltrúi fjármálaráðuneytisins mátti ekki einusinni vera að því að sitja allan fundinn og ekki var talin ástæða til að setja Björgvin Sigrðsson inn í málið og fjármálaráðherra virtist fátt vita. Hvers vegna hefði þá átt að setja Gylfa Magnússon eða Jóhönnu Sigurðardóttur inn í þessa greinargerð Seðlabankans um gengistryggð fjármál? Getur verið að bankarnir hafi leikið þarna eitthvert hlutverk með sama hætti og eignarhaldsbanki 365 miðla skemmtir sér nú við að lúskra á Ríkisútvarpinu


Fjármálahrægammar

Hafi einhver ímyndað sér að Magma Energy ætlaði sér að vinna góðverk á Íslendingum með því að kaupa HS-orku er það misskilningur. Í dag var greint frá því að mikill hluti verðsins, sem greitt verður fyrir fyrirtækið, sé í íslenskum krónum - krónum sem fyrirtækið fékk á útsölu. Það verður því takmarkaður gjaldeyrir sem fæst fyrir orkufyrirtækið.

Á þessum síðum hefur öðru hverju verið ritað um afleiðingar gerða ráðherra framsóknarflokksins í stjórn þeirra Geirs og Davíðs og þá staðreynd að menn lásu ekki heima. Nú eru afleiðingarnar að koma í ljós og enn flýr ríkisstjórnin vandann.

Aldraður fjárfestir, sem hefur haft einstakt lag á að veita höfundi þesara skrifa góðar upplýsingar, segist vera farinn að hneigjast til vinstri í orkumálum og telur að hér sé um stuld að ræða. Tekið skal undir orð öldungsins og því bætt við að samstarfsmenn Magma Energy álíta sumir skylda hræætum.


Hvert renna 400 milljónirnar?

Í gær greindi Ríkisútvarpið frá því að Samkeppnisyfirlitið hefði sektað fyrirtækið Skipti og dótturfélag þess, Tæknivörur, um 400 milljónir króna vegna ólöglegs samráðs við Hátækni, sem er dótturfélag Olíuverslunar Íslands. Forsvarsmenn Skipta höfðu leitað samninga við Samkeppniseftirlitið og fallist á að veita því upplýsingar um ólöglegt samráð fyrirtækjanna.

Í fréttinni segir að forráðamenn fyrirtækjanna skipta og Tæknivara verði ekki sóttir til saka vegna ólöglegs athæfis því að þeir borguðu sig frá sektinni. Ákvæði laga um Samkeppniseftirlitið, þar sem heimilað er samstarf við forsvarsmenn fyrirtækja og sektir í kjölfar niðurstöðu rannsóknar, hefur e.t.v. orðið til þess að fleiri mál hafa verið upplýst en ella og e.t.v. fyrr. Hinn almenni borgari hlýtur þó að spyrja sig hvort siðferðislega sé réttlætanlegt að stjornendur, sem hafa stundað glæpsamlegt athæfi eins og ólöglegt samráð, sleppi. Hvað um eigendurna? Vissu þeir af þessu samráði?

Þegar samráð olíufélaganna komst upp fyrir nokkrum árum höfðuðu fyrirtæki og opinberar stofnanir mál gegn félögunum og kröfðust skaðabóta vegna samráðsins og þess skaða sem það hefði valdið. Nú má ætla að ólöglegt samráð Hátækni og Tæknivara hafi valdið viðskiptamönnum, jafnt fyrirtækjum, opinberum stofnunum sem einstaklingum, talsverðu tjóni. Hver er réttur þessara viðskiptavina? Stafar hátt verð á ýmsum tæknibúnaði hér á landi af ólöglegu samráði og svikum stjórnendanna?

Fyrirtæki á Íslendi eru ekki stærri en svo að þau hlýtur að muna um 400 milljónir. Hvernig ætli stjórnendum sé launað fyrir þá stjórnvisku að hafa í frammi sviksamlegt athæfi sem brýtur gegn almennri siðferðisvitund og skaðar almennint? Verða lágstéttirnar með einhverjum hætti látnar njóta uppljóstrunarinnar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband