I minningu Dóru Pálsdóttur - birt í Morgunblaðinu 30.09.2016

Dóra Pálsdóttir var firna skemmtileg kona, orkurík og alúðleg í fasi. Hún var hvers manns hugljúfi og laðaði fólk að sér.
Dóra hóf kennslu við Starfsþjálfun fatlaðra skömmu eftir stofnun hennar. Árið 1990 hittumst við við erfidrykkju í fjölskyldunni og sagði hún mér þá frá ráðstefnu um þróun hjálpartækja, sem halda skyldi í Baltemore í Bandaríkjunum þá um haustið. Ákváðum við að reyna að komast. Fór svo að Öryrkjabandalagið sendi okkur bæði.
Skemmtilegri ferðafélaga hef ég vart haft. Dóra kynntist held ég öllum rúmlega 600 þátttakendunum og hefur áreiðanlega kysst þá alla oftar en tvisvar. Í lokaathöfninni var hún einhvers staðar á flandri, en ég komst fljótlega að því hvar hún hélt sig. Þegar nafn Íslands var nefnt sem þáttökulands brast á mikið fárviðri gleðihrópa úr einu horninu, en þar var auðvitað Dóra með sinn orkuríka hóp sem hrópaði og klappaði fyrir Íslandi. Fékk engin þjóð viðlíka viðbrögð.
Við komum hlaðin bæklingum til Íslands og haldinn var fjölsóttur kynningarfundur sem fjöldi fagfólks sótti.
Eftir að fundum lauk síðdegis þá viku sem þingið stóð, upphófst mikil skemmtan. Sögur fóru af samkvæmum á efstu hæð hótelsins og töldum við víst að þar væri mikið sumblað. En annað kom á daginn.
Eitt kvöldið var okkur Dóru boðið og kom þá í ljós að léttöl var það sterkasta sem drukkið var. Á meðal þátttakenda voru Rússar sem misst höfðu útlimi í Afganistan og talaði Dóra við þá með alls konar táknmáli og hljóðum. Einn kunningi hennar á ráðstefnunni var fótalaus. Sveiflaði hann sér upp á flygil og greip í hendur Dóru þegar hún átti leið framhjá. Dönsuðu þau af lífi og sál.
Allt í einu heyrðist gríðarlegur dynkur. Dóra kom til mín í öngum sínum og tjáði mér að hún hefði sleppt höndum piltsins þegar dansinum lauk. En flygillinn var svo háll að pilturinn rann út af honum og  steyptist aftur fyrir sig á gólfið. Taldi Dóra víst að hann væri hálsbrotinn.
Héldum við til herbergja okkar miður okkar bæði. En hvern hittum við alhressan kl. 8 morguninn eftir? Þennan pilt fjöðrum fenginn við að hitta Dóru vinkonu sína á ný.
Skömmu síðar var haldin ráðstefna á vegum Öryrkjabandalagsins um þróun tölvutengdra hjálpartækja og sótti Dóra um að hingað yrði boðið Norðmanni nokkrum sem hafði unnið að þróun forrita fyrir fatlað fólk og hún kynntist í Noregi. Varð stjórnin við því, en seinna skömmuðu menn formanninn fyrir að ástir tókust með Dóru og fyrirlesaranum. Hefur hann búið hér síðan. Vegir Guðs eru órannsakanlegir.
Það var ævinlega gott og gaman að hitta Dóru. Þótt eitt sinn skærist í odda með okkur þegar Öryrkjabandalag Íslands bannaði starfsfólki að eiga nokkur samskipti við stjórnvöld, var það aldrei erft, enda "kröfðust aðstæður þess að þú fylgdir eftir samþykkt stjórnarinnar", sagði Dóra."
Nú, þegar að kveðjustund er komið, þakka ég af alhug gjöfult samstarf við þessa frjóu og lífsglöðu konu. Um leið votta ég Jens og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.
Arnþór Helgason


Bloggfærslur 1. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband