Að níðast á náunga sínum - kveðja til einhverra Akurnesinga

 

Fyrir nokkrum árum sótti daufblind kona á Akranesi um leiðsöguhund. Hún fékk samþykki allra eigenda fjölbýlishússins þar sem hún býr og má ætla að stjórn húsfélagsins hafi bókað það í fundargerðabækur sínar.

Konan fékk ekki úthlutað hundi í það skipti en fyrir skömmu fékk hún leiðsöguhund. Voru þau þjálfuð til að vinna saman og virtist flest ganga að óskum.

En þá kom babb í bátinn. Einhver eða einhverjir settu sig upp á móti því að leiðsöguhundur kæmi í húsið, nauðsynlegt hjálpartæki til þess að létta mjög sjóndapurri konu og heyrnarskertri lífsbaráttuna. Stjórn húsfélagsins neitar að standa við gerða samninga og konunni hefur verið tjáð að hún hefði átt að þinglýsa samningnum. Henni er jafnframt gert að flytja úr húsinu fyrir 1. nóvember.

Það einkennilegasta í málinu er þó að enginn vill tjá sig um hvers vegna konan fái ekki að hafa hundinn í húsinu. Hvort er réttur hennar meiri en þeirra sem neita að samþykkja tilvist hundsins í þessu húsi? Hvers vegna greinir fólk ekki frá ástæðum þess að það vilji ekki leiðsöguhund í húsinu, skepnu sem er betur tamin en flestir íbúra hér á landi?

Og miskunnarleysið er enn meira. Fyrir skömmu var þessari sömu konu boðið út að borða og hafði hún hundinn með sér. Henni var vísað á dyr. Hvarvetna í Evrópu er blindu fólki heimilt að hafa með sér leiðsöguhunda á veitingastaði og í opinber samgöngutæki. Íslendingar eru mörgum áratugum á eftir í þessu sem ýmsu öðru sem snertir almenn mannréttindi. Hér gildir að hver traðki á öðrum svo fremi sem það sé ekki bannað. Réttur hins sterka ræður ríkjum.

Er þetta samfélagið á Akranesi í raun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er skelfilegt mál, en ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á að samfélaginu á Akranesi sé um að kenna. Flestir íbúar Akraness eru steini lostnir yfir þessu rugli.

Samkvæmt lögum um dýrahald er konunni heimilt að koma með hund sinn á alla veitingastaði og opinberar stofnanir. Hafi henni verið vísað út af veitingastað, hefur sá staður gerst brotlegur við lög og réttast að nafn hanns sé gefið upp, svo hægt sé að forðast hann. Leiðsöguhundar eru undanþegnir lögum hvað varðar þessa staði. Hvað varðar fjölbýlishús virðast þau ekki hlýta sömu lögum. Úr því þarf að bæta.

Konan var komin með leyfi hússtjórnar fyrir hundi, það er hart ef fólki er ekki treystandi betur en svo að þinglýsa þurfi slíkum leyfum. Sökin er fyrst og fremst íbúa fjölbýlishússins. Þeir eiga að vera menn til að standa við sínar samþykktir. Varðandi nýinnfluttu íbúana er það helst að segja að þeim átti að gera grein fyrir þessu samkomulagi áður en þau kauptu íbúðina. Þá gátu þau valið.

Vonandi verður þetta mál þó til að lögum verði breytt, hellst fyrir þann tíma sem konan þarf að flytja úr íbúð sinni.

Deilt hefur verið á sveitastjórn í þessu máli, því miður er ekki í hennar valdi að taka á því. Þetta er alfarið sök og aumingjadómur íbúa hússins.

Í raun ætti hún ekki að þurfa leyfi frá einum né neinum, lög ættu að tryggja henni þann rétt að geta notið allra þeirra úrræða sem hugsast getur til að létta sér lífið!!

Fötlun er ekki einkamál þess fatlaða!!

Gunnar Heiðarsson, 14.7.2010 kl. 21:42

2 identicon

Liðsöguhundur er hjálpartæki og þar með eiga lög um dýrahald í fjöleignarhúsm ekki við í þessu efni. Þar með var óþarfi að sækja um leyfi fyrir þessu hjálpartæki hjá ibúum þessa húss á Skaga. Hafi þeir veitt leyfi sitt stendur það.  Slíkt er ekki hægt að afturkalla eftir undarlegum fábjánaskap einhvers sem ætla má að sé vanheill á geði. Þarf leyfi til að hafa geðsjúkling í fjöleignarhúsi?

Emil (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband