Listsigur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins

Í kvöld var svo sannarlega boðið til tónlistarveislu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói. Hljómsveitin lék kvikmyndatónlist eftir Erich Korngold, Nino Rota, Bernard Herrmann, Jonny Greenwood og fleiri, m.a. úr Guðföðurnum, Cinema Paradiso, Psycho og Planet of the Apes, ásamt syrpu með vinsælustu James Bond-lögunum.

Hljómsveitarstjóri var Benjamin Shwartz. Hljómsveitarstjóra og hljóðfæraleikurum var innilega fagnað að tónleikum loknum og lék hljómsveitin eitt aukalag.

Útsending Ríkisútvarpsins, sem þeir stjórnuðu, Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon, var með þeirri prýði að vart getur betra hand- eða á ég að segja hljóðbragð. Hafi leikur hljómsveitarinnar verið óaðfinnanlegur var útsendingin og hljóðdreifing á heims mælikvarða.

Efnisvalið á tónleikunum var afar fjölbreytt og gaf ágæta mynd af því besta sem samið hefur verið fyrir kvikmyndir.

Tónleikarnir hófust á tveimur verkum eftir austurríska tónskáldið Erich Wolfgang Korngold (29. maí 1897 -29 nóvember 1957), en hann helgaði kvikmyndatónlist ævistarf sitt að mestu leyti. Er merkilegt að hugsa til þess að áhrifa hans gætir enn á meðal kvikmyndatónskálda ríflega hálfri öld eftir andlát hans, samanber verk Veigars Margeirssonar.

Ekki verður hér fjallað um einstök verk tónleikanna. Þau voru hvert með sínu sniði og spegluðu vel það sem margir vita að kvikmyndatónlist er ekki óæðra listform eins og sumir hafa haldið fram. Margt af því, sem flutt var í kvöld, verður að teljast á meðal hins besta sem samið hefur verið síðasliðna öld.

Hljómsveitarstjórinn kynnti flest verk tónleikanna sjálfur og komst Arndís Björk Ásgeirsdóttir því sjaldan að. Þess ber að geta að kynningar hennar á sinfóníutónleikum eru einstaklega fágaðar og vel unnar svo að unun er á að hlýða. Undirritaður gat ekki varist hlátri þegar hljómsveitarstjórinn tilkynnti eftir að svítunni um Hróa hött lauk, að Íslendingar hefðu unnið Norðmenn í handbolta.

Tónlistarunnendur eru eindregið hvattir til þess að fara inn á vef Ríkisútvarpsins, www.ruv.is og hlusta á þessa einstæðu tónleika.

Aðstandendum öllum er óskað til hamingju með kvöldið.

Úr því að hljómsveitin nær að hljóma svona vel úr Háskólabíói fyrir tilstilli meistara Ríkisútvarpsins, hvernig skyldi hún þá hljóma úr Hörpu? Væntanlega betur í salnum, en vart verður lengra komist í útvarpi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband