Ísland er landið mitt

Ég hef nýlokið við að lesa einhverja áhrifamestu frásögn sem rekið hefur á fjörur mínar um langt skeið. Ég heyrði af bók þessari í fjölmiðlum og hlýddi á einn viðmælandann flytja ræðu sem snart hjörtu þeirra sem á hlýddu.

Bókin Ríkisfang: ekkert, sem Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur skrifað og byggð er á viðtölum við konur af palestínsku þjóðerni, sem settust að á Akranesi árið 2009, lýkur upp fyrir lesendum glöggri mynd af þeim hryllingi, sem íbúar Íraks urðu að þola, eftir að Bandaríkjamenn réðust inn i landið í mars 2003 í leit að gereyðingarvopnum, sem aldrei fundust. Konurnar greina frá miskunnarleysinu, ofbeldinu og grimmdinni, sem losnaði úr læðingi þegar innviðir samfélagsins brustu. Jafnframt er brugðið ljósi á stöðu palestínskra flóttamanna, sem margir eru án ríkisfangs. Áhrifarík er frásögn Sigríðar af því þegar hún leitaði uppi eydd þorp, sem Ísraelsmenn (gyðingar, Síonistar) eyðilögðu og lögðu undir sig við stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þá þegar virtu þeir enga samninga og hafa haldið því áfram undir öruggri vernd Bandaríkjamanna.

Framan af var fréttaflutningur frá Palestínu mjög litaður af hagsmunum Gyðinga og verndara þeirra, Bandaríkjamanna og Breta, en smám saman snerust vopnin í höndum þeirra. Til þess þurfti að vísu hermdarverk, sem öfluðu Palestínumönnum hatursmanna á meðal Gyðinga og Vesturlandabúa. en þessi hryðjuverk voru þó smámunir einir hjá því sem íbúar Palestínu þurftu að þola af hálfu innrásarafla, sem studd voru af Vesturveldunum.

Íslendingar hafa ekki staðið saklausir hjá í þessum hildarleik. Þeir studdu stofnun Ísraelsríkis og tveir valinkunnir Íslendingar settu þjóðina á lista yfir hinar staðföstu þjóðir, sem studdu innrásina í Írak. En gert er gert og sumt er hægt að bæta, annað ekki. Sú ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að veita palestínsku flóttafólki móttöku og landvist, er einungis örlítill plástur á það holundarsár, sem Vesturveldin hafa í raun veitt Palestínumönnum.

Í bókinni lýsa konurnar sambúð ólíkra trúarhópa, sem sundraðist við innrásina í Írak. Þær lýsa einnig afstöðu sinni til annarra trúarhópa en þeirra, sem játa islam, en múslimar hafa jafnan þótt umburðarlyndir þrátt fyrir öfgahópa sem þrífast innan trúarbragðanna eins og á meðal kristinna manna. Bókin birtir mynd af harðduglegum og þrautseigum mæðrum, sem sigrast hafa á erfiðleikum, sem hefðu bugað flesta þá, sem orðið hefðu að þola annað eins og þær hafa reynt. Það fer vart hjá því að lesandinn fái öðru hverju kökk í hálsinn og tárist, þegar lesnar eru látlausar og einlægar frásagnir kvennanna af sorgum þeirra og gleði.

Á meðan ég las bókina samþykkti Alþingi að viðurkenna ríki Palestínumanna. Þótt ef til vill sé nokkuð í land að eiginlegt ríki þeirra verði að veruleika, er þó samþykkt alþingis mikilvægt skref í þá átt að Palestínumenn nái rétti sínum. Vonandi verða hin illu öfl, sem ráða mestu innan Ísraelsríkis, brotin á bak aftur.

Sigríði Víðis Jónsdóttur og viðmælendum hennar eru fluttar einlægar þakkir og árnað heilla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband