Ofurtollar á tækjum til hljóðritunar

Í dag sendi ég fjármálaráðherra og formanni efnahags- og viðskiptanefndar eftirfarandi bréf. Um árabil hafa þeir, sem stunda hljóðritanir sér til ánægju eða hafa þær að atvinnu, mátt sæta ofurtollum af hljóðritunartækjum.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni tollstjórans í Reykjavík, Bjarna Sverrissyni, bera slík tæki 25,5% virðisaukaskatt, 7,5% toll, 25% vörugjald auk 2,5% stefgjalds (sjá hér að neðan). Eina leiðin, til þess að fá felld niður vörugjöld og tolla, er að sá, sem kaupir hljóðritunartæki, hafi iðnaðarleyfi, þar sem starfsemin er ítarlega skilgreind.

Til samanburðar má geta þess að stafrænar ljósmyndavélar bera einungis virðisaukaskatt. Öll tæki, sem eru sérstaklega gerð til afspilunar og hljóðritunar, sæta þessum ofurtollum. Þar á meðal má nefna sérhönnuð afspilunartæki fyrir svokallaðar Daisy-hljóðbækur, en þær nýtast einkum blindu, sjónskertu og lesblindu fólki. Gera þessir ofurtollar flestum ókleift að eignast tækin vegna þess hve verðið er hátt. Þessi ofurgjöld skerða um leið getu Þekkingarmiðstöðvar blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga að úthluta slíkum tækjum. Jafnvel lítil minnistæki sæta þessum tollum.

Vaxandi hópur hér á landi hefur ánægju af hljóðritunum. Það skýtur því skökku við að hljóðritar skuli sérstaklega skattlagðir á meðan tölvur, sem einnig er hægt að nýta til hljóðritunar, eru undanþegnar slíkum gjöldum.

Undirritaður fær ekki skilið hvað veldur því að gert er með þessum hætti upp á milli þeirra, sem njóta hljóðs og þeirra sem hafa unun af ljósmyndum.

Hér er um alvarlega mismunun að ræða, sem á sér vart stoð í lögum, heldur sýnist sem um sé að ræða reglugerðarákvæði.

Ég leyfi mér hér með að leggja til að vörugjald og tollur af tækjum til hljóðritunar verði felld niður og sæti þau sömu gjöldum og ljósmyndavélar og tölvur. Svo virðist sem stafrænar upptökuvélar, sem eru með innbyggðan hljóðrita, sæti ekki slíkum ofurtollum.

Hér er um brýnt mannréttindamál að ræða. Ríkissjóður verður af litlum tekjum, en einhverjir einstaklingar gætu átt auðveldara um vik að hasla sér völl á sviði hljóðritunar.

Lausleg könnun hefur leitt í ljós að slíkir ofurtollar séu með öllu óþekktir í löndum Evrópu og Norður-Ameríku.

Þetta verk er verðugt verkefni handa nýjum fjármálaráðherra, sem hægt er að afgreiða með skömmum fyrirvara.

Með vinsemd og virðingu,

Arnþór Helgason,

fyrrum formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands

s


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Eina leiðin: að fara í gott frí, kaupa draslið þar, og smygla því til landsins.

Fólk gerir það mest núorðið.

Ásgrímur Hartmannsson, 9.2.2012 kl. 16:57

2 identicon

Gjaldglaður ráðamaður gæti tekið mark á ábendingunni og lagt tolla á myndavélar og tölvur.

Emil (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 16:58

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband