Ætla Íslendingar að ógna Rússum?

Pútín er orðinn valdamesti maður heims,“ sagði rússneskur fréttaskýrandi við breska útvarpið fyrir nokkrum dögum. Hann bætti því við að útilokað væri að koma í veg fyrir að Krím sameinaðist Rússlandi og Vesturlönd gætu ekki komið í veg fyrir það. Þau hefðu ekki fylgt eftir hótunum samanber afstöðu Bandaríkjamanna til stríðsins í Sýrlandi.

Ræða Pútíns í dag var allmerkileg fyrir margra hluta sakir og gerði hann þar m.a. upp sakir við Atlantshafsbandalagið. Rifjaði hann upp, eins og fleiri hafa gert, að árið 1999 brugðust vesturveldin til varnar Albönum í Kosovo sem átti að hrekja úr landi í þjóðernishreinsunum Serba. Miðað við það hvernig nýja stjórnin í Kænugarði hóf störf sín – með því að draga úr réttindum þjóðernisminnihluta, gáfu þau Rússum góðan höggstað á sér.

Það er síðan deginum ljósara að rússnesk stjórnvöld segja hvorki allan sannleikann í þessu erfiða deilumáli né nýju valdhafarnir í Kænugarði. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með frásögnum erlendra fréttamanna á Krím sem hafa rætt við fjölda vopnaðra „gæsluliða“ sem hafa haldið því fram að þeir hafi verið beðnir um aðstoð og hafi því farið í víking til þess að hjálpa meðbræðrum sínum á Krím. Þykjast menn kenna þar ýmiss konar „óþjóðalýð“ sem nærðist á Balkanstríðinu og eru engu síðri fasistar en sumir þeir, sem sagðir eru hafa staðið að baki byltingarmönnum í Kænugarði.

Tatarar eru kvíðnir. Þeirra hagur getur þó vart orðið verri en áþján sú, sem Palestínumenn búa við undir oki Ísraelsmanna. Ekki hefur Obama rekið hnefann í borðið og hótað Ísrael öllu illu – nei, því að hann og stuðningsmenn hans eiga nógu mikilla hagsmuna að gæta til þess að hafast ekki að.

Íslendingar ættu að halda sig utan þessara atburða og láta nægja að lýsa andstyggð sinni á þeirri atburðarás sem farið hefur að stað. Það er í raun hlægilegt að ætla að ógna Rússum með einskis nýtum refsiaðgerðum.

Að lokum skal minnt á þau orð Geirs Hallgrímssonar frá Moskvuheimsókn hans í september 1977, að Ísland færi aldrei með ófriði á hendur öðrum ríkjum. Ísland ætti fremur að bera klæði á vopnin og minnast þess í leiðinni að þótt kosningarnar á Krím þættu skrítnar var hitt ef til vil enn skrítnara að Nató skyldi frelsa Kosovo-Albani með loftárásum og manndrápum. Þar voru þó framdir stríðsglæpir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband