Dæmisaga úr nýjatestamentinu sem dásamar gróðafíkn - fyrirmynd útrásarvíkinga?

Í dag var sunnudagsprédikunin sagan um talenturnar úr Mattheasarguðspjalli, 14.-30. vers.

Í stuttu máli fjallar sagan um þrjá þjóna sem fengið var fé til ávöstunar. Tveir juku sjóðinn um helming en hinn þriðji fól í jörðu það sem honum var fengið. Að nokkrum tíma krafðist húsbóndi þeirra fjármuna sinna og fékk hann þá með vöxtum frá tveimur þjónanna, en sá þriðji óttaðist húsbónda sinn og lét hann því hafa það sem honum hafði verið afhent.

Presturinn viðurkenndi fyrir mér að erfitt væri að leggja út af þessari sögu. Ég sagðist ekki trúa því að sagan væri úr smiðju Krists. Hún hlyti að hafa verið samin til þess að samræma skoðanir kristinna manna auðhyggju Rómarveldis svo að trúin yrði auðsættanlegri Konstantínusi mikla. Presturinn, sem er með víðsýnni prestum og skemmtilegri, sem ég þekki. taldi rétt að leggjast í rannsóknir á uppruna sögunnar.

Ég birti dæmisöguna hér fyrir neðan og meti nú hver fyrir sig. Er ekki þarna réttilega lýst gróðahyggju og græðgi kaupahéðnanna sem gerðu Ísland gjaldþrota og er þessi saga e.t.v undirstaða Kalvínismans?

Lýsing þjónsins, sem kastað var út í ystu myrkur, á húsbónda sínum, er svona:

„Ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.“ Þarna er siðlaus líking á því hvernig menn geta aflað sér fjár því að ekki var spurt um aðferðirnar sem þjónarnir notuðu til að ávaxta fé húsbónda síns. Voru þeir e.t.v. okrarar? Þarna er lýst himnaríki hinna ríku.

 

14 Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.

15 Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.

16 Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm.

17 Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær.

18 En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.

19 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.

20 Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.'

21 Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.'

22 Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.'

23 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.'

24 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.

25 Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.'

26 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki.

27 Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim.

28 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar.

29 Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.

30 Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.'


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband