Íslenskir ráðherrar kunna ekki að segja af sér

Skoðanaskipti þeirra Bjarna Benediktssonar og Eyglóar Harðardóttur hafa verið um margt athyglisvert. Ég hygg að orð hins fyrr nefnda um að ráðherrar geti ekki hagað sér eins og fólk í leikskóla og barið í borðið til þess að fá sínu framgengt, hljóti að hafa fallið í grýtta jörð. Uppeldisstarf leikskólakennara felst í öðru en að venja börnin á að fá sínu framgengt með frekju.
Eftirfarandi pistill birtist í Kjarnanum í gær, 20. ágúst.

Í máli Eyglóar Harðardóttur opinberast tvíþættur vandi íslenskra ríkisstjórna.
Ríkisstjórnin er fjölskipað stjórnvald sem merkir í raun að forsætisráðherra er einungis verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Hann hefur því væntanlega vald yfir ráðherrum úr eigin þingflokki en getur ekki sagt öðrum fyrir verkum. Þetta kom glögglega í ljós þegar Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp háðu miklar deilur við félagsmálaráðherra fyrir rúmum aldarfjórðungi, en þá sat Jóhanna Sigurðardóttir á þeim stóli. Leikar fóru svo að bandalagið og þroskahjálp buðu Steingrími Hermannssyni í hollan hádegisverð og fengu hann til að bera klæði á vopnin. Honum tókst það svo vel að síðan gekk vart hnífurinn á milli hagsmunasamtakanna og ráðherrans. Rök undirritaðs í orðræðunum við Steingrím voru þau að hann væri verkstjóri ríkisstjórnarinnar og yrði að skakka leikinn þegar einn ráðherrann sýndi af sér meiri ófyrirleitni en ásættanleg væri.

Nú er málum þannig háttað að forsætisráðherra er úr hópi framsóknarmanna en Eygló er framsóknarmaður og því á hans ábyrgð. Ólíklegt verður að telja að Sigurður Ingi vilji rugga bátnum með því að láta vísa Eygló úr ríkisstjórninni.
Þá er á hitt að líta að Eygló virðist eini ráðherra framsóknarmanna sem studdi ekki áætlun þá sem leiddi til hjásetu hennar og því hlýtur hún að hafa einangrast nokkuð í ríkisstjórninni og jafnvel í þinglokknu. Hún bregst við með því að sitja sem fastast og heldur að hún geri eitthvert gagn með því.
Eytló virðist skorta burði til þess að sýna af sér það siðferðisþrek að segja af sér. Hún er greinilega ósátt við niðurstöðu þá sem aðrir ráðherra samþykktu og snertir hennar málaflokk. Í öðrum lýðræðisríkjum en Íslandi segir slíkur ráðherra af sér og reynir síðan að höfða til stuðningsmanna sinna í næstu kosningum.
Það er leitt að svona sé komið fyrir jafnvænni stjórnmálakonu og Eygló. Hún hefur hingað til viljað vel og verið skynsöm. En þarna ætlar hún fram úr sjálfri sér.
Eygló, sýndu hugrekki, segðu af þér og veldu þér annan vetvang til umsvifa.

Arnþór Helgason

Greinarhöfundur var formaður Öryrkjabandalags Íslands 1986-1993 og í Framsóknarflokknum 1981-1998 þegar hann sagði sig úr flokknum og fór í pólitískt þrifabað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband