Draumvísur - váboðar Örlygsstaðabardaga

Í morgun þegar ég vaknaði færði Elín mér geislaplötu voces Thules með óskum um gleðilegt afmæli. Í sannleika sagt hafði ég gersamlega steingleymt því að svo væri ástatt fyrir mér.

Ég hef heyrt nokkur tóndæmi af geisladiskinum og ætlaði að kaupa hann við fyrstu hentugleika. Ég setti hann því í geislaspilarann og nutum við þessa merka flutnings.

Tónlistin er valin af einstakri fágun, listfengi og kunnáttu. Flutningur og hljóðritun er með allrabesta móti. Vafalítið telst þessi útgáfa með helstu kennileitum í útgáfu íslenskrar tónlistar fyrr og síðar og eru flytjendum færðar alúðar hamingjuóskir.

Að sögn útgefenda var platan gefin út í 1238 eintökum enda var Örlygsstaðabardagi háður árið 1238. Eintakið mitt er númer 496 og eru því enn 742 eintök eftir.

Hönnun bókarinnar sem fylgir með er jafnvel af höndum leyst og hönnun bókarinnar sem fylgdi Silfurplötum Iðunnar, enda Brynja Baldursdóttir þar á ferð. Letrið er hins vegar ekki læsilegt öllum vegna litasamsetningar - appelsínugulir stafir á svörtum grunni. Gulur litur á svörtum grunni hefur að vísu þótt henta vel ýmsum sem eru sjónskertir. Ef til vill hefur útlitið átt að minna á það hyldýpishatur, græðgi og valdaþorsta sem kynti undir hatursbálinu sem varð undirrót Örlygsstaðabardaga. Skýringarnar eru vel fram settar og hljóta að vekja athygli og áhuga þeirra sem vilja kynna sér efni Sturlungu og það sem ritað hefur verið um íslenska tónlist fyrri tíma.

Það er í raun tímanna tákn að þessi geislaplata skuli koma út á þeim tímum sem mótast af afleiðingum græðgi og valdafíknar. Brátt kunna að verða þeir atburðir að skipti sköpum vegna framtíðar íslenskrar þjóðar. Skyldi þá verða háð önnur Örlygsstaðaorrusta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband