Farsímar geta bætt heilsu fólks

Í þættinum Digital Planet sem er á dagskrá BBC, var greint frá því í gær að japanskur vísindamaður notaði farsímann sinn til þess að fylgjast með mataræðinu. Vísindamaðurinn ber auðvitað á sér farsíma eins og flestir Japanar. Þegar hann fær sér eitthvað að borða tekur hann mynd af því sem er á borðum. Hann sendir síðan myndina til tölvu þar sem hugbúnaður greinir hvað hann hafi borðað og setur upplýsingarnar fram í línuritum sem auðvelt er að lesa úr.

Japanski vísindamaðurinn getur því gert ráðstafanir til þess að breyta mataræði sínu ef í ljós kemur að hann hafi etið of mikið af kjöti, óæskilegum kolvetnum og sykri og aukið grænmetisneyslu sína.

Þetta er einungis eitt af því sem menn hafa látið sér detta í hug til þess að nýta farsímana. Nú er þegar á markaðinum hugbúnaður handa blindu fólki sem les skjöl og annar hugbúnaður gerir fólki kleift að skoða liti á hlutum eða fatnaði, þótt það sé blint. Í Bandaríkjunum er búist við að á næsta ári komi á markaðinn búnaður sem þekki andlit fólks. Þá þarf blint fólk væntanlega ekki lengur að taka þátt í gátuleiknum sem margt sjáandi fólk hefur svo gaman af og kallast "Manstu hvað ég heiti?". Ég svara þessari spurningu yfirleitt þannig: "Kynntu þig" og gildir þá einu hvort ég kannast við málróminn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband