Þrymskviða vaknar af þyrnirósarsvefni

Í fyrrakvöld var gamanópera Jóns Ásgeirssonar, Þrymskviða, flutt í Norðurljósal Hörpu við mikinn fögnuð áheyrenda. Var hún svo - öðru sinni flutt í gærkvöld og ætlaði allt um koll að keyra í lok sýningar, slík var hrifning áheyrenda.

 

Í föstudagsblaði Morgunblaðsins 26. október, fjallaði Guðrún Erlingsdóttir um sýninguna.

 

    1. Brot úr umfjöllun Guðrúnar

„Ég skil ekki af hverju Þrymskviða hefur ekki verið sett oftar upp. Það eru ekki til margar íslenskar óperur og gamanóperan Þrymskviða var sú fyrsta sem sett var á svið. Þetta er alveg frábær ópera sem sýnd var í fyrsta og eina skiptið á sviði 1974,“ segir Bjarni Thor Kristinsson, bassi sem leikstýrir Þrymskviðu sem flutt verður í Norðurljósasal Hörpu í kvöld og annað kvöld kl. 20.

Bjarni segir að höfundur Þrymskviðu, tónskáldið, Jón Ásgeirsson, hafi fagnað 90 ára afmæli nýverið og það hefði þótt tilhlýðilegt í tilefni þess og 100 ára fullveldis Íslands að setja óperuna á svið aftur.

„Það er mikið lagt í sýninguna sem skartar átta góðum einsöngvurum auk Háskólakórsins sem fer með hlutverk ása og þursa. Í kórnum syngja 70 manns og 40 manna Sinfóníuhljómsveit unga fólksins sér um tónlistina,“ segir Bjarni Thor og bætir við að mikil áhersla hafi verið lögð á að breyta Norðurljósum Hörpu í framúrstefnulegt leikhús og það verði spennandi að sjá hvernig áhorfendur taki þeim breytingum.

Stjórnandi Þrymskviðu er Gunnsteinn Ólafsson, stjórnandi Háskólakórsins. Einsöngvarar í óperunni eru þau Guðmundur Karl Eiríksson baritónn í hlutverki Þórs, Keith Reed bassa-baritónn í hlutverki Þryms, Margrét Hrafnsdóttir sópran í hlutverki Freyju og Agnes Þorsteinsdóttir mezzósópran í hlutverki Grímu. Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór syngur hlutverk Heimdallar, Eyjólfur Eyjólfsson tenór hlutverk Loka, Gunnar Björn Jónsson hlutverk 1. áss og Björn Þór Guðmundsson hlutverki 2. áss.

Óperan Þrymskviða fjallar á gamansaman hátt um það þegar þrumuguðinn Þór uppgötvar að hamar hans, Mjölnir, er horfinn. Þrymur þursadrottinn hefur rænt Mjölni og heimtar Freyju í lausnargjald en hún er ófáanleg til þess að fórna sér fyrir hamarinn. Þór bregður þá á það ráð að fara til Jötunheima í kvenmannsgervi í því skyni að endurheimta vopn sitt í fylgd Loka Laufeyjarsonar.”

 

    1. Upplifun undirritaðs

Undirritaður fór á Þrymskviðu árið 1974 og hreifst svo að hann hefur verið haldinn Þrymskviðuheilkenninu síðan. Þegar óperunni var útvarpað á sumardaginn fyrsta (sennilega 1977) hljóðritaði ég flutninginn og hef hlustað -öðru hverju síðan á valda kafla.

Þegar ljóst varð að óperan yrði sýnd rifjaði ég upp gömul kynni og urðu þau enn kærari. Hver laglínan og arían rifjaðist upp fyrir mér og úr varð nær skefjalaus tilhlökkun.

 

    1. Hvernig tókst svo til?

Ég fór í gærkvöld ásamt sonarsyni og vinkonu okkar að njóta óperunnar – sennilega í 7. skipti, en mér telst til að ég hafi farið 6 sinnum á hana árið 1974. Elín, kona mín, hafði farið kvöldið áður ásamt sonarsyni og naut sýningarinnar – heillaðist af óperunni.

Flutningurinn stóð fyllilega undir væntingum. Ljóst var að tónskáldið hafði gert ýmsar breytingar á verkinu og þóttu mér þær flestar til bóta.

Það var mikill munur á flutningi Þrymskviðu frá því að Jón Ásgeirsson stjórnaði flutningnum í Þjóðleikhúsinu fyrir 44 árum. Þá var gangur verksins nokkru hægari en undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar og kór Þjóðleikhússins hljómaði með allt öðrum hætti en Háskólakórinn, þar sem ungar raddir setja svip sinn á flutninginn. Segja verður hverja sögu eins og er að flutningurinn var á stundum unaðslegur.

 

    1. Áhrifin

Undir eins í hinu magnaða upphafi óperunnar fór hugurinn á flug og undirritaðan langaði mest að syngja með. En þar sem nokkuð skorti á fegurð raddar hans hélt hann aftur af sér til að spilla ekki ánægju sessunauta sinna.

En iðulega sló hann taktinn og bærði varirnar – söng innra með sér.

Hámarki náði sönggleði mín þegar kom að lokaaríunni. Þá gat ég ekki hamið mig en söng áttund lægra en kórinn sjálfur og ekki af miklum raddstyrk, enda hefur hann dvínað nokkuð með aldrinum.

 

    1. Frammistaðan og umgjörðin

Ungviðið í kórnum og hljómsveitinni, sem hafði einnig á að skipa nokkrum atvinnumönnum, stóð sig að flestu leyti frábærlega. Gunnsteinn stýrði óperunni af mikilli röggsemi svo að efni hennar komst vel til skila.

Einsöngvarar áttu góða spretti. Eins og venjulega var fremur erfitt að greina textann á stundum eins og gengur og gerist þegar óperur eru fluttar á íslensku.

Leikstjórn og sviðssetning var til mikillar fyrirmyndar. Ýmislegt var fært til nútímahorfs. Þannig virtust Jötunheimar vera allsherjar eiturlyfjabæli og greinilegt var að Þór og fleiri áttu í talsverðum viðskiptum. Allt jók þetta á ánægju áhorfenda.

 

Gunnsteinn á miklar þakkir skyldar fyrir þetta einstaka framtak sitt. Um hitt má síðan spyrja hvers vegna í ósköpunum Íslenska óperan skyldi ekki taka Þrymskviðu upp að nýju í tilefni af níræðis afmæli Jóns Ásgeirssonar. Í staðinn hljótum við að vænta þess að einhver þeirra ópera, sem eftir hann liggja og hafa ekki verið fluttar, verði tekin til sýningar.

 

    1. Að lokum:

Aðstandendum öllum eru færðar einlægar þakkir fyrir gott menningarafrek og tónskáldinu þakka ég af heilum hug fyrir að hafa gefið þjóðinni menningarverðmætið, óperuna ÞrymskviðuheilkenninuEf nokkuð getur aukið áhuga Íslendinga á menningarsögu sinni eru það verk eins og Þrymskviða.

 

 


Jafnréttisbarátta kvenna

Enn er runninn upp kvennafrídagur á Íslandi. Vonandi verður hann einn liður þess að skila konum áfram í baráttunni gegn ofríki karla.

Árið 1975, 16. október, komum við Páll bróðir ásamt félögum okkar, Lárusi Grétari Ólafssyni og Magnúsi Karel Hannessyni heim úr mikilli Kínaferð.
Daginn eftir fór ég eins og ráð var gert fyrir í tíma í Háskólanum og það fyrsta sem ég frétti var ákvörðunin um kvennafrídag eða kvennaverkfall föstudaginn 24. okt. Mér þótti þetta stórkostleg hugmynd.
Ég minnist þess að sumar rosknar konur voru ekki hrifnar. Þegar ég spurði móður mína hvor hún ætlaði ekki á fundinn brást hún reið við og sagði að sér fyndist lítið gert úr hlutverki húsmæðra með þessu uppátæki. Reyndar hafði það einnig farið á sinnið á henni þegar rauðsokkur fóru að tala um sérstaka kvennamenningu. Hún taldi sína menningu hluta af íslenskri menningu en ekki eitthvert sérfyrirbæri.
Ekki rifja ég þetta upp henni til lasts, enda heyrði ég hana iðulega gera góðlegt gys að karlmönnum.
Eitt sinn sat hún á spjalli við vinkonu sína, en við synir þeirra vorum og erum enn góðir vinir. Töluðu þær m.a. um bjargarlleysi karlmanna og töldu víst að við dæjum frekar úr hungri en að við reyndum að bjarga okkur við matseld, ef þær féllu frá áður en einhverjar konur tækju við okkur.
"Það er það, eins og Andri Ísaksson sagði iðulega."
Ég minnist þess að hún fann til með einstæðum konum í Vestmannaeyjum sem háðu harða baráttu til þess að sjá sér farborða. Sem ung kona þurfti hún að berjast fyrir jafnháu kaupi við verslunarstörf og karlmenn fengu og ekki batnaði ástandið þegar hún ákvað að taka bílpróf. Fundu karlmenn henni það til vansa og héldu sumir því fram að konur gætu það ekki. En hún beitti þeim rökum sem afvopnuðu þá og tók auðvitað bílprófið.
Til hamingju með daginn, allar Íslands konur.


Ótrúlegt miskunnarleysi íslenskra yfirvalda

Það er einatt þyngra en tárum taki að fylgjast með því hvernig íslensk yfirvöld meðhöndla flóttafólk sem er ekki sérstaklega boðið til landsins.
Fólki er vísað úr landi með smábörn og engu skeytt hvað um það verðuur.
Sum þeirra landa sem íslensk stjórnvöld telja örugg eins og Írak og Íran, eru það svo sannarlega ekki. Kúrdar eiga sér ekkert föðurland og hafa þeir barist áratugum saman fyrir sjálfsögðum mannréttindum þeirra. Stórveldin hafa hins vegar ákveðið hvernig Kúrdar eiga að haga sér og láta sér í léttu rúmi liggja þótt sögur um ofsóknir á hendur Kúrdum og öðrum þjóðernum berist manna og milli og fjölmiðlar fjalli um þær.
Heimsmenningin hefur orðið til vegna flutninga fólks landa á milli.
Grikkir eru taldir ein elsta menningarþjóð Evrópu og þar er enn grísk menning þótt landið hafi hundruðum eða þúsundum árum saman verið vettvangur einhverra mestu landflutninga sögunnar.
Nú þegar þjóðir heims horfast í augu við hlýnandi loftslag og afleiðingar þess, hljótum við að spyrja hver sé réttur þjóða til að loka landamærum sínum fyrir fólki á vergangi.
Íslendingar þurfa á erlendu fólki ef hægt á að vera að halda uppi íslensku velferðarkerfi. Þetta veit fólk sem á ættingja á elli- og hjúkrunarheimilum og þetta vita einnig þeir sem þurft hafa á sjúkravist að halda.
Hver hefði ábyrgð Íslendinga orðið ef barn hjónanna, (eða eru þau hjónaleysi) hefði andast á hrakhólum vegna ónógrar hjúkrunar?
Ísleningar ættu einhvern tíma að lesa söguna um miskunnsama Samverjan. Hann var hvorki kristinn né Gyðingur og sennilega allt of skynsamur til að ánetjast trúarbrögðum sem byggja á Guðs lögum sem mennirnir hafa samið og halda áfram að semja í gríð og ergi til þess að bjarga eigin sáluheill.

Hvað eru menn að hugsa?

Á undanförnum misserum hefur margoft komið fram að íslenska vegakerfið sé komið að þolmörkum. Leidd hafa verið rök að því að nauðsynlegt sé að leggja á vegatolla til þess að fjármagna umbætur víða um land.

Þá er vitað að innan skamms þarf að ráðast í gerð nýrra Hvalfjarðarganga þar sem umferð um göngin nálgast þolmörk.

Hvað var því til fyrirstöðu að innheimta áfram gjöld a þeim sem aka þessi göng og safna þannig í sarpinn?

Ísland er fámennt land og því eru litlar líkur á að stór og öflug fyrirtæki, sem starfa á heims vísu hafi áhuga á að leggja fé í íslenska vegakerfið. Víða erlendis hafa stórfyrirtæki haslað sér völl á þessu sviði og innheimta kostnað að mestu með vegatollum. Íslendingar, sem sjá ofsjónum yfir vegagjöldum, virðast nógu framtakslitlir til að svæfa slíka umræðu og halda því áfram að vera með ónýtt þjóðvegakerfi.

Ætla menn að halda áfram að tjasla í holu þar og holu hér? Skýrasta dæmið um hægaganginn er Berufjörðurinn og framkvæmdirnar þar.

Nú þurfa samgönguráðherra og Alþingi að taka á honum stóra sínum og láta verkin tala.

 


Af hverju skammast hálaunafólkið sín fyrir ríkidæmið?

Nú hefur enn einusinni gosið upp umræðan um launhelgar vegna launa þeirra sem betur mega sín, eftir að vefsíðan tekjur.is var opnuð.

Það er í raun merkilegt að þeir, sem afla sér hærri tekna en almenningur á kost á, séu ekki stoltir af velgengni sinni. Reynslan sýnir að ýmsir þeirra reyna með öllum ráðum að komast hjá því að greiða sinn skerf til þjóðfélagsins. Það er þess vegna sem skattþrepunum er háttað með þeim hætti sem raun ber vitni. Afleiðingin verður því sú að hin breiðu bökin í samfélaginu, verða aláglaunafólk, örorku- og lífeyrisþegar og Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um þennan hóp.

 

Á ofanverðri síðustu öld vakti athygli þegar útgerðarmaðurinn og fiskverkandinn, Soffanías Cecilsson á Grundarfirði lýsti því að hann nyti þess að greiða skatta til samfélagsins. Hvenær hefur slík yfirlýsing hljómað úr munni núlifandi einstaklinga á Íslandi sem vita ekki aura sinna tal?

 

Ég hef áður greint frá því að á ofanverðum 7. áratug síðustu aldar bar það til tíðinda í Vestmannaeyjum, þegar skattaskráin var lögð fram, að vinkona okkar, sem vann í einni fiskvinnslustöðinni, átti að greiða jafnháa skatta og einn forstjórinn í Vestmannaeyjum. Vorkenndu menn forstjóranum innilega fyrir það sem hann bar úr bítum og óttuðust að hann missti húsið sitt., bláfátækur maðurinn!:)

Um svipað leyti leitaði verkamaður nokkur, sem enn er á lífi, til Helga Benediktssonar, föður míns, og bað hann að hjálpa sér að kæra skattaálögur sínar, en hann hafði að verið að mestu atvinnulaus árið áður. Pabbi gerði það og öllum til mikillar furðu voru álögurnar teknar aftur.

 

Á þessum tíma var hávær umræða í Vestmannaeyjum á meðal almennings um þetta himinhrópandi óréttlæti og nú bregðast tekjuháir einstaklingar og varðmenn þeirra við með því að freista þess að áður nefndri vefsíðu verði lokað.

Gagnsæi er nauðsynlegt og er sennilega skárra en flest annað til að tryggja að heiðarlega verði að verkum staðið utan og innan vinnustaða.

 


Steinar sem lagðir eru í götu fólks - þiggjendur eða þolendur?

Stundum uppllifi ég sjálfan mig sem fimmta flokks þegn eða úrkast í íslensku samfélagi, en reyni iðulega að hrinda þessari tilfinningu frá mér.
Sannast sagna er eins og ekki sé gert ráð fyrir ákveðnum hópum sem þátttakendum, heldur sem eins konar þiggjendum.
Nýjasta dæmið er Kolviður. Við hjónin höfum áhuga á umhverfismálum og ákváðum að kolefnisjafna flugferðir okkar á milli Krítar og Íslands. Þegar ég fór inn á síðu Kolviðar kom í ljós að útfyllingarvélin var að ýmsu gersamlega óaðgengileg. Meðal annars birtust einhverjir stafir á skjánum sem hvorki talgervill né blindraleturstæki námu.
Slíkar hindranir verða á vegi mínum í hverri viku.
Annað dæmi:
Ég ætla að fá mér snarl á tilteknum veitingastað í kvöld ásamt góðvini mínum. Matseðillinn er ekki aðgengilegur.

Ég hef heyrt að á næsta eða þar næsta ári verði heimsþing blindra haldið hér á landi. Blindrafélagið virðist hvorki hafa getu né áhuga til að ýta við aðgengismálum í netheimum Íslands. Af hverju ætli félagið skipi ekki aðgerðahóp í þessu máli?


Fasbókin nýtti til níðskrifa

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðing og v. hæstaréttardómara. Fjallar hann þar um fasbókarsvæðið „Karlar gera merkilega hluti“.
Samkvæmt greininni virðist helsta markmið svæðisins að ata hann auri.
Ef rétt er að kona hafi stofnað síðuna og að einkum konur tjái sig þar um persónu lögfræðingsins, eins og greinin fjallar um, verður að segjast sem er að síða þessi er aðstandendum ekki til neins sóma. Gífuryrði og niðrandi ummæli ásamt viðeigandi munnsöfnuði eru engum til sóma. Þetta er galli fasbókarinnar. Oft reynist erfitt að halda uppi rökræðum um málefni líðandi stundar þar sem einatt verða einhverjir til þess að spilla þeim með gífuryrðum og málsóðaskap.

Skrumskæling eða skemmtun?

Auglýsingastofum tekst stundum að skemmta fólki með ýmiss konar orðaleikjum. Heldur virðist hafa fjarað undan þessari leikfimi.
Nú er orðið í tísku að breyta nafnorðum í sagnorð:
Hjá hverjum tankarðu bílinn þinn?
Með hverju ætlarðu að dekka bílinn þinn?
Annað afbrigði:
Það borgar sig að dekkja bílinn með ......

Hugsanlegt er að þolfallið bjargi þarna einhverju og að því þurfa þá foreldrar að hyggja?
Ætli menn eigi eftir að heyra spurningar og svör eins og þessi?

Ég þarf að brjósta barnið - barninu!
Viltu ekki drekkja barninu - eða Viltu ekki drekka barnið?

Svona mætti lengi telja en verður hér látið staðar numið.


Hvernig ber að haga sér í nútíma samskiptum?

Þegar ég var við umferlisnám í borginni Torquay í Devonskíri á Englandi fyrir 40 árum gerði ég mér fyrst grein fyrir því að ég væri ekki eins og fólk er flest. Var ég kallaður sagnamaðurinn. Sem betur fer voru fleiri einstaklingar þar slíku marki brenndir.

Þessi tilfinning mín hefur ágerst að undanförnu og niðurstaða mín er sú að ráðast ekki í persónuleikabreytingu úr þessu.
Það er þó eitt sem ég hef orðið var við í ríkari mæli en áður og færist stöðugt í aukana. Fólk hefur ekki lengur úthald í samræður nema þær séu fólgnar í stuttum og hnitmiðuðum skoðanaskiptum.
Ég er alinn upp við ríka sagnahefð og hvað eina varð föður mínu og öðrum skyldmennum og vinum að söguefni. Ég stend sjálfan mig að því að segja ýmsar sögur og það gerist æ oftar að viðmælandi hverfur á brott - jafnvel þótt vart sé liðin mínúta og ætluð saga sé stutt. Þannig var mér bent á það í gær að viðmælandinn væri ekki lengur á staðnum.

Sem betur fer eru þó enn nokkrir sagnamenn í þeim fámenna hópi sem ég umgengst og virðumst við njóta hver annars sagna. En óþol viðmælenda virðist fara vaxandi eftir því sem tímar líða fram.


Þor er allt sem þarf - Hraðinn og græðgin meginorsök loftslagsbreytinga

Allt of oft heyrist að Íslendingar þurfi ekki að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar. Við séum svo fáir og smáir að það muni lítt um þann skepnuskap sem við stundum gagnvart umhverfinu.
Hér eru nokkrar tillögur fólki og stjórnvöldum til umhugsunar:

1. Vilji menn draga úr mengun án þess að skaða hagsmuni sjálfra sín geta þeir hafist handa og dregið úr umferðarhraða.
Hámarkshraða í bæjum mætti færa niður í 30-40 km á klst.

2. Hámarkshraði á þjóðvegum verði ekki meiri en 70 km/klst.

3. Landflutningar með fisk verði aflagðir og siglingum komið á í staðinn.

4. Jarðefnaeldsneyti eins og dísel og bensín verði skattlagt í hlutfalli við eyðslu bifreiða.

5. Hraðað verði sem unnt er fyrirhuguðum orkuskiptum.

6. Dregið verði mjög úr komum skemmtiferðaskipa til landsins.

7. Unnið verði markvisst að því að hamla gegn auknum ferðamannafjölda.

8. Hagvaxtartölur verði endurskoðaðar. Með róttækum aðgerðum eins og þeim se mhér eru lagðar til, hlytist meiri sparnaður en við gerum okkur í fljótu bragði grein fyrir.

9. Farið verði ofan í saumana á því hvernig haga skuli innflutningi vissra tegunda matvæla til landsins.

10. Hafin verði markviss uppbygging vistvæns íbúðahúsnæðis með sjálfbærni í huga.


mbl.is Hafinu stafar hætta af hlýnun jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband