Svik Íslandsbanka og blekkingar

Þessi pistill var einnig birtur á vettvangi Blindrafélagsins.

Kæri lesandi.
Ég vona að þú hafir þolinmæði til að lesa þennan pistil.

Ég hef öðru hverju skrifað um sitthvað sem mér þykir hafa farið miður hjá Blindrafélaginu og hefur það fallið í misjafnlega frjóa jörð. Í þessu pistli verður vikið að aðgengismálum frá öðru sjónarhorni.

Fyrir nokkrum árum, sennilega árið 2015, setti Íslandsbanki á markaðinn smáforrit fyrir snjallsíma sem gerði fólki kleift að annast ýmis bankaviðskipti. Þegar forritið var skoðað kom í ljós að ýmsu var ábótavant og forritið í raun ónothæft sjónskertu og blindu fólki.
Ég hafði því samband við Íslandsbanka og var ég boðaður á fund hans. Í kjölfar fundarins var forritið lagfært og mér boðið að halda fyrirlestur um aðgengi á vegum fjármálafyrirtækja. En það gleymdist og var ég aldrei boðaður á fundinn.

Skömmu fyrir jól 2016 var nýtt forrit sett á markaðinn með þeim afleiðingum að aðgengið hvarf.
Eftir talsvert stímabrak fékk ég samband við þá sem önnuðust forritshönnunina og kom þá í ljós að þeir voru alls ókunnandi um aðgengið. Var því heitið að ég fengi að fylgjast með og að lagfæringum yrði lokið eigi síðar en í mars 2017.
Vikurnar liðu og ekkert bólaði á framkvæmdum. Þá var mér tjáð að aðgengistruflunin stafaði af galla í bandarískum hugbúnaði sem hefði verið notaður og yrði ráðin bót á því. Samskiptum var haldið áfram en svo kom að ég áttaði mig á að mér var ævinlega sagt ósatt og hvarf úr viðskiptum við bankann.

Fyrir skömmu hitti ég einn af hönnuðum smáforrits Íslandsbanka árið 2015-16. Sagðist hann nú vinna að endurhönnun vefjar bankans og spurði hvort ég hefði fylgst með gangi smáforritsins.
Ég sagði honum farir mínar ekki sléttar og fékk þá að vita eftirfarandi sannleika:

Í kjölfar atburðanna 2016-17 var hann ásamt öðrum fenginn til að kanna orsakir þess að aðgengið hrundi. Í ljós kom að þar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir aðgenginu í upphafi þurfti að kaupa viðbótarhugbúnað frá fyrirtækinu og því tímdi Íslandsbanki ekki.

Í samfæðum okkar kom fram að í raun væri lítil eða engin kennsla í aðgengismálum á vegum Háskóla Íslands og Reykjavíkur, þar sem þessi mæti maður vinnur. Þá er ekkert í íslenskri löggjöf um aðgengi og væntanleg tilskipun Evrópusambandsins segir hann að gildi fyrst og fremst um opinbera vefi.

Sé þetta rétt hlýtur ályktunin að verða sú að knýja verði á Alþingi um setningu löggjafar um aðgengi að upplýsingum og þar á meðal að vefsíðum. Auðvelt er að leita fyrirmyndar, t.d. í Bandaríkjunum, þar sem öllum fyrirtækjum, sem eiga viðskipti við hið opinbera, er skylt að hafa aðgengið í lagi.

Það var slys að ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur og síðar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, skyldu ekki "druslast" til að láta semja slíka löggjöf. Síðast þegar ég minntist á þetta á fundi í Norræna húsinu sagði fyrrum þingmaður að aðgengislöggjöf yrði að fylgja fjármagn og hlaut hann klapp fyrir.
Þetta er rétt hjá fyrrverandi þingmanninum. Hitt er þó mikilvægara að lög setja ákveðnar leikreglur í samskiptum fólks og á grundvelli laga geta menn leitað réttar síns.
´Ég SKORA á stjórn Blindrafélagsins að taka þesi mál til alvarlegrar athugunar á 80 ára afmæli félagsins. Blindum og sjónskertum tölvunotendum fer stöðugt fjölgandi og þeir eiga rétt á sams konar eða svipuðum aðgangi og þeir höfðu áður.
Hið sama á við á öllum sviðum þjóðfélagsins.
Bestu kveðjur,

Arnþór Helgason


Meiri hraði - meiri orkuþörf

Í þeirri umræðu sem nú er háð um loftslagsbreytingar og útblástur hefur greinilega komið fram að aukinn hraði krefst meiri orku. Ætli menn að ná settu marki hér á landi og víðar þarf að draga úr hraða ökutækja. Í raun ætti að binda hann við 70 km hraða á vegum þar sem akstursstefna er ekki afmörkuð og hámarkshraði ætti hvergi að vera yfir 80 km/klst. Þannig nýtist orkan betur og slysatíðni minnkar.

Með nútímatækni ætti að vera auðvelt að hafa eftirlit með hraðakstri bifreiða. Slíkt þýðir eingöngu dálítinn hugbúnað sem annaðhvort tilkynnir hraðakstur til sérstakrar eftirlitsmiðstöðvar eða kemur í veg fyrir að bíll fari hraðar en leyfilegur hámarkshraði.

Lífshraði nútímamannsins er hans versti óvinur sem býr til óþolinmæði og streitu.

 


Þrælahald og okur á Íslandi - þjóðarskömm

Samtal þeirra Óðins Jónssonar og Arthúrs Björgvins Bollasonar í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í dag var um margt athyglisvert.
Þeir ræddu m.a. um þjóðarímynd og að ljóst væri að ýmislegt hefði ekki breyst hér á landi eftir hrun, eða jafnvel versnað.
Arthúr Björgvin, sem er þaulvanur leiðsögumaður og hefur fylgt fjölmörgum Þjóðverjum hingað til lands, sagði að fjölmargir Íslendingar hefðu fengið glýju í augun þegar uppgangurinn í ferðaþjónustunni hefði hafist árið 2012. Fullyrti hann að Íslendingar okruðu á erlendum ferðamönnum og ýmislegt væri verðlagt um of.
Sjálfsagt geta ýmsir Íslendingar borið vitni um slíkt okur, einkum þegar verð veitinga hér á landi er borið saman við sambærilega þjónustu í Evrópu. Á það einnig við um gistingu.

Á hverjum degi berast nýjar fréttir um okur á útlendingum.
Í ónefndu úthverfi Reykjavíkur leigja 12 manns herbergi. Þar á meðal eru ung hjón sem starfa við iðn sína um nokkurt skeið hér á landi.
Þau búa í litlu herbergi í áður nefndu húsi og ætli þau hafi ekki aðgang að eldhúsi ásamt 10 öðrum. Þau greiða 100.000 kr á mánuði fyrir þessa herbergiskytru.
Samkvæmt því ætti eigandi þessa stóra einbýlishúss hafa um 1,2 milljónir á mánuði í tekjur.

Þetta er einungis eitt af mörgum dæmum sem greint er frá á hverjum degi.
Íslendingar fluttu hingað ánauðugt fólk þegar þeir settust að um 800 eftir krist. Enn eru þeir þrælahaldarar.
Það er þjóðarskömm!


Tvískinnungsháttur landsvirkjunar

Í Morgunútgáfu Rásar eitt var í morgun athyglisvert viðtal við starfsmann Landsvirkjunar um rafmagnsframleiðslu hér á landi. Tilefnið var þriðji orkupakki Evrópusambandsins sem ríkisstjórnin virðist ætla að fá Alþingi til að staðfesta.
Í spjallinu kom fram að Landsvirkjun seldi erlendum fyrirtækjum sérstök skírteini þar sem vottað er að rafmagnsframleiðslan sé vistvæn - græn - þótt hún sé framleidd með kolum eða kjarnorku.
Þegar þeir Óðinn og Björn spurðu nánar kom í ljós að hér er um svo kallaða kvótasölu að ræða. Landsvirkjun selur skírteinin fyrir of fjár og fær því aukið fé til þess að framleiða meiri orku:
Þannig kemur fram í ýmsum heimildum að rabílar á Íslandi séu knúðir orku sem er framleidd með jarðefnaeldsneyti eða jafnvel kjarnorku og undirrituðum skilst að jafnvel hafi áður fyrr verið tekið fram á sundurliðun orkureikninga hversu mikla kjarnorku menn greiddu fyrir.

Þetta kvótaframsal losunarheimilda hefur löngum verið umdeilt og er ír raun aðför gegn vistkerfi heimsins. Með þessu móti geta reykspúandi verksmiðjur haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist vegna þess að þjóðir eins og Íslendingar, sem eiga talsvert af hreinni orku, selja aflátsbréf á okurverði eins og páfarnir, sem þurftu að fjármagna byggingu Péturskirkjunnar í Róm á öldum áður.


Íslendingar eiga að hætta þessum "kjánaskap" og láta aðra standa við þær skuldbindingar sem felast í Parísarsamkomulaginu. Með sölu aflátsbréfanna hreinsa menn kannski samvisku viðskiptamanna um leið og ráðist er gegn þeirri þróun sem aflátssalan hefur í för með sér.


Um þáttagerð í útvarpi

Á un danförnum árum hafa nýir dagskrárgerðarmenn komið til sögunnar hjá Ríkisútvarpinu. Þeir eru misjafnir eins og gengur, en margt ágætt og nýtískulegt hefur komið frá sumum þeirra.
Þegar ég hóf að vinna fyrir útvarpið árið 1973 voru yfirleitt sendir tæknimenn dagskrárgerðarmanninum til halds og trausts. Út úr því kom einatt margt skemmtilegt. Vegna eðlis starfsins fór þó svo að við tvíburarnir fórum að taka viðtöl án afskipta tæknimanna, en þeir sáu síðan um að klippa efnið samkvæmt tilsögn okkar. Þá má geta þess að við urðum fyrstir til að nota snældutæki til slíkra hljóðritana. Þegar við tilkynntum að við vildum nota slík tæki fór allt á annan endann, en að lokum féllst yfirmaður tæknideildarinnar á þetta eftir að tæknimenn höfðu mælt með því.
Því var haldið fram að hvergi á byggðu bóli væru menn svo vitlausir að nota slík tæki fyrir útvarp. Síðar komst ég að því að Nagra-fyrirtækið, sem framleiddi þessi níðþungu og traustu segulbandstæki sem útvarpið notaði, fór að framleiða fréttamannatæki upp úr 1970 og var þar notast við hljóðsnældur.
Nú virðist þetta heyra sögunni til. Dagskrárgerðarmenn fara út um víðan völl einir síns liðs og síðan sjá sumir þeirra um að klippa til efnið sjálfir. Í raun ættum við að tala um snyrtingu, því að skærin eru löngu af lögð.
Mér hefur stundum orðið hugsað til þess að tæknimaður á vettvangi hefði getað aðstoðað óreyndan dagskrárgerðarmann þannig að viðtöl hefðu skilað sér betur og kringumstæðurnar eða umhverfið skilað sér til hlustenda.
Breska ríkisútvarpið, BBC, sendir iðulega tæknimenn með dagskrárgerðarfólki og verður þá einatt til mjög skemmtileg víðóms-hljóðmynd sem hefur þáttargerðina oft á hærra stig, einkum ef hlustað er í víðómi.
Mikill munur er á fjölmennum útvarpsstöðvum og íslenska ríkisútvarpinu og samanburður því hæpinn. En margir nýir dagskrárgerðarmenn standa sig með mestu prýði og eiga hrós skilið.


Hverju á að trúa?

Fjármálasnillingurinn, núverandi forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, sem nokkrum sinnum hefur verið bjargað frá gjaldþroti vegna snilldarleysis síns, er námfús.
Nú hefur hann lært það af vini sínum, forsætisráðherra Ísraels, að láta skjóta á óvopnað fólk, sem hefur að mestu grjót til að kasta í vel varða hermenn.
Mér verður stundum hugsað til föður míns, sem hélt því fram síðustu ár ævi sinnar að Guð hefði farið offari þegar hann bjó mannkynið til.
Skýringin var sú að hann taldi að Guð hefði í raun farið fram úr sér, því að maðurinn væri að flestu leyti hugkvæmari en Guð og ýmsar tiltektir mannsins gengju algerlega í bága við upphaflegt ætlunarverk guðs.
Í þessu samhengi má spyrja nokkurra spurninga:

1. Ef Guð er skapari himins og jarðar, hvers vegna bjó hann þá til Satan, eða var Satan til áður en Guð varð til?

2. Hvers vegna leyfði Guð illskunni að blómstra um alla jörðina?

3. Hvers vegna kom Guð ekki í veg fyrir að hvíti maðurinn afskræmdi mynd hans með því að búa til eitthvað sem kennimenn kölluðu guðs lög eða jafnvel Guðs eigin lög, sem þeir nýttu sjálfum sér til afbötunar og eða styrktar?

4. Verður Guð fær um að snúa þróuninni við svo að mannkynið hætti við að tortíma sjálfu sér?

Það versta við mannskrípi eins og núverandi forseta Bandaríkjanna er að slík fyrirbæri ýta undir mannvonsku og heift í stað hjálpræðis og samstöðu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband