Þarf að stofna nýtt blindrafélag?

Það sækir nú stöðugt að mér að stofna nýtt blindrafélag, félag fólks með svo litla sjón að hún nýtist engan veginn.
Mér hefur fundist að Blindrafélagið fjarlægist nú æ meira raunverulega hagsmunagæslu þeirra sem eru um eða alveg alblindir.
Þetta yrði væntanlega ekki fjölmennt félag, enda eru alblindir Íslendingar lítill minnihlutahópur sem á stöðugt undir högg að sækja í samfélaginu.
Mér skilst t.d. að nú liggi fyrir Alþingi að staðfesta tilskipun Evrópusambandsins um aðgengi að öllum vefsíðum. En lítið kvað bóla á áhuga stjórnvalda í þeim efnum.
Aðgengi að íslenskum fréttasíðum hefur farið versnandi nema Morgunblaðsins sem heldur enn sínu góða striki.
Tökum Kjarnann sem dæmi.
Ómarkviss notkun hausa "headers" gerir lestur Kjarnans mun erfiðari þeim sem nota talgervil eða blindraletur og ristjórar og eigendur Dagblaðsins hafa lítið gert til þess að áður nefndur hópur geti lesið blaðið án vandræða.
Nýtt blindrafélag, jafnvel þótt lítið væri, gæti orðið harður hagsmunahópur sem þyrði að taka til óspilltra málanna til þess að vekja athygli á margs kyns málum sem til úrbóta horfðu. Kjarnyrt umræða hreyfði e.t.v. við einhverjum.
Íslensk stjórnvöld láta víða reka á reiðanum í mörgum efnum. Lítill skilningur virðist vera á þeirri staðreynd að með aldrinum eykst hlutfall blindra jafnt og þétt og þessi hópur vill fá aðgang að lífsgæðum eins og lestri dagblaða og bóka auk tölvubúnaðar sem hefur verið undirstaða starfs og tómstunda síðustu áratugi.
Þegar Gunnar Thoroddsen tók að missa sjón dreymdi mig um að hann lifði nægilega lengi til þess að verða öflugur talsmaður þessa hóps. En skaparinn bauð honum til sín áður en til þess kom.
Ef einhver les þennan pistil óska ég honum gleði og gæfu á nýju ári. Athugasemdir og tillögur eru vel þegnar.


Enn er ráðist að þeim sem eiga undir högg að sækja - lögbann sýslumannsins í Reykjavík

Mér er skapi næst að halda að sýslumaðurinn í Reykjavík láti stjórnast af öðru hvoru - annarlegum hvötum eða af hræðslu við þá sem hann telur meiri máttar. Síðustu dæmin eru lögbannið á Stundina og Kjarnan vegna birtingar gagna sem hefðu hugsanlega komið sér illa fyrir bjarna Benediktsson og hið síðasta lögbann á vistheimili barna í einu af hverfum Reykjavíkur.
Árið 1990 urðu heiftarlegar deilur á Seltjarnarnesi vegna ofstopa fárra íbúa gegn stofnun vistheimilis einhverfra við Sæbraut og gekk héraðslæknirinn í lið með þessu fólki.
Ég var þá formaður Öryrkjabandalagsins og flæktist í málið. Fékk ég Tómas Helgason, lækni, í lið með mér og hittum við héraðslækninn. Var það afar merkilegt viðtal, þar sem Tómas greindi honum frá stofnun heimilis fyrir geðsjúklinga (orðið geðfatlaður hafði ekki verið fundið upp) í Laugaráshverfinu. Greindi Tómas m.a. frá því hvernig tókst að ná sátt um það heimili, en sagði jafnframt að veita hefði þurft nokkrum fjölskyldum aðstoð við að sætta sig við orðinn hlut.
Hvers vegna reyndir sýslumaðurinn í Reykjavík ekki að leita sátta í þessu máli? Kann han ekki að leita sér aðstoðar fagfólks til að sætta málin eða þarf hann sjálfur á aðstoð að halda? Hugsanlega getur Öryrkjabandalagið orðið karlgarminum að liði.


Í minningu föður míns, Helga Benediktssonar

Í dag er 119. afmælisdagur föður míns, Helga Benediktssonar, athafnamanns, sem bjó mestan hlut ævi sinnar í Vestmannaeyjum, en þangað fluttist hann 1921. Þar stofnaði hann fyrirtæki sitt, sem var starfandi þar til hann lést 8. apríl 1971 og þar hitti hann móður mína, Guðrúnu Stefánsdóttur og gengu þau í hjónaband árið 1928.

Ævi hans var býsna stormasöm á köflum enda sagði hann einatt kost og löst á ýmsum hliðum mannlífsins.
Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum hjá Jónasi frá Hriflu og urðu þeir nánir vinir. Miðað við tíðarandann þurfti því ekki að koma á óvart að í odda skærist með honum og "íhaldinu" enda var hann einn af stuðningsmönnum Jónasar innan Framsóknarflokksins.

Þennan dag árið 1949, þegar hann varð fimmtugur, létu stjórnvöld undir forystu Sjálfstæðismanna gera tryggingasjóð Skaftfellings og Helga VE 333 upptækan auk þess sem heimili fjölskyldunnar að Heiðarvegi 20, var sett á uppboð. Honum tókst að leysa húsið út, en tryggingasjóðinn fékk hann ekki. Sá sjóður var stofnaður þegar Helgi var smíðaður, en smíðinni lauk 1939. Hann var 119 tonn, stærsta tréskip sem þá hafði verið smíðað hérlendis, en Bátaábyrgðafélag Vestmannaeyja trygði einungis skip og báta upp að 100 smálestum.

Eftir að sjóðurinn var gerður upptækur  samdi pabbi við Samvinnutryggingar um að tryggja þá Helga og Skaftfelling og skyldi tryggingin taka gildi mánudaginn 9. janúar 1950.
Helgi fórst við Faxasker þann 7. janúar og með honum 10 menn. Kom því skaðinn af fullum þunga á hann.
Foreldrar mínir buguðust þó ekki heldur gerðu það sem þau gátu til þess að létta eftirlifandi ættingjum lífsbaráttuna.

Barátta föður míns lá stundum á mér eins og mara eftir að hann dó og ég hafði fengið í hendur ýmsar heimildir eins og t.d. bæklinginn "Ég ákæri", sem hann gaf út skömmu eftir fæðingu okkar tvíburanna.
Árið 1999 var 100 ára afmælis hans minnst og bað ég þá Matthías Jóhannessen að birta grein um föður minn, sem Sævar Jóhannesson hafði skrifað. Brást Matthías vel við og var greinin birt í Morgunblaðinu.
Við Matthías höfðum nokkrum sinnum talast við í síma vegna ýmissa mála, en ég hitti hann fyrst augliti til auglits nokkru eftir að greinin birtist. Þakkaði ég honum fyrir hversu vel hann hefði brugðist við. Matthías svaraði: "Afstaða Morgunnblaðsins til föður þíns er og verður ævarandi smánarblettur á blaðinu. En Arnþór, við erum menn framtíðarinnar og lifum ekki í fortíðinni."
Þannig lauk Matthías aftur dyrunum að fortíðinni sem einungis er lokið upp endrum og eins til þess að minnast ákveðinna atburða.
Síðar átti ég eftir að starfa sem sumarmaður á blaðinu og er það besti vinnustaður sem ég hef unnið á.

Saga Helga Benediktssonar er þess virði að hún verði einhvern tíma skráð. Nægar heimildir eru fyrir hendi í skjalasafni hans.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband