Vandræði stjórnmálahreyfinga

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, hefur ritað athyglisverða pistla í helgarblað Moggans undanfarna mánuði. Hér er birtur pistillinn frá 21. júlí með leyfi höfundar.

 

Ráðstefna Ögmundar Jónassonar gæti orðið upphafið að endurnýjun vinstri hreyfinga

 

Sl. þriðjudag var haldin ráðstefna fyrir fullu húsi í Norræna húsinu um þá spurningu hvort við þyrftum að endurskapa samfélagið. Vegna erlendra fyrirlesara fór ráðstefnan fram á ensku og á þeirri tungu var spurningin sem leitað var svara við þessi: „Do we have to reinvent society?“

Það var Ögmundur Jónasson, fyrrum þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, sem efndi til þessa málþings í tilefni af sjötugs afmæli sínu þann dag. Hann sagði mér að þetta yrði „mjög rauð ráðstefna“, sem vakti áhuga minn á að hlýða á það sem fram mundi fara.

Hvað skyldi vera að gerast á meðal vinstri manna um þessar mundir?

Nú á tímum, þegar lítið er um umræður og skoðanaskipti um meginmál í þjóðfélagsmálum, er slíkt framtak einstaklings til mikillar fyrirmyndar. Á starfsvettvangi stjórnmálaflokkanna er orðið ótrúlega lítið um slíkar umræður.

Á afmælisráðstefnu Ögmundar voru nokkrir erlendir fyrirlesarar og þótt þeir hafi komið víða að má segja að meginþráður í gagnrýni þeirra á það sem liðið er hafi ekki bara snúið að því sem hér er kallað nýfrjálshyggja, heldur líka á þá jafnaðarmenn sem undir merkjum „New Labour“ og Tony Blair, þáverandi leiðtoga brezka Verkamannaflokksins, hafi nánast gengið til liðs við þá sem aðhylltust þá hugmyndafræði.

Allyson Pollock læknir var í hópi fyrirlesara, en hún hefur gengist fyrir lögsókn á hendur brezkum stjórnvöldum vegna einkavæðingar heilbrigðisþjónustunnar. Einn af samstarfsmönnum hennar í því verkefni var hinn heimsþekkti Steven Hawking, sem nú er látinn. Brendan Martin veitir forstöðu hugveitu sem nefnist Public World. Þá var þarna þýzkur járniðnaðarmaður, Jurgen Buxbaum, sem síðar öðlaðist háskólamenntun, og John Holloway, sem er prófessor við háskóla í Mexikó. Kúrdar áttu sinn fulltrúa á ráðstefnu Ögmundar, sem var Havin Guenser, sem kynnti nýjar þjóðfélagshugmyndir í þeirra röðum. Loks var í þessum hópi Vicente Paolo Yu, sem kemur að alþjóðastarfi verkalýðsfélaga.

Eins og sjá má var hér vandað mjög til verka. Í upphafi spilaði Vladimir Stoupel á flygil og jafnframt léku tvær ungar stúlkur, Danielle Angelique og Gabrielle Victoria, á fiðlur.

Á margan hátt má segja að Ögmundur sjálfur hafi flutt athyglisverðustu ræðuna í upphafi. Hann lýsti þeirri skoðun að stjórnmálaheimurinn væri að fjarlægjast grasrótina og jafnvel verkalýðshreyfingin líka. Hann vísaði með skemmtilegum hætti í Sölku Völku og átök hennar við Bogesen, sem átti allt í þorpinu en hann hefði þó vitað hvað þar var að gerast. Bogesenar okkar tíma hafa yfirgefið þorpið, sagði Ögmundur, og vita ekki lengur hvað þar er á ferð.

Getur verið að þetta séu líka örlög stjórnmálamanna okkar tíma, að þeir sjái „þorpið“ ekki lengur og viti þess vegna ekki hvað þar er að gerast?

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var í hópi fyrirlesara og setti fram athyglisverða gagnrýni á viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við Hruninu. Hún lýsti þeirri skoðun að í stað þess að nota tækifærið og beita sér fyrir breytingum hefði verkalýðshreyfingin tekið þátt í því eftir Hrun að endurreisa það samfélag sem var. Það var ljóst af viðbrögðum fundarmanna að þetta sjónarmið náði sterklega til þeirra.

Ekki er ólíklegt að þarna hafi talað einn af framtíðarleiðtogum vinstri manna á Íslandi.

Það er alveg ljóst að stjórnmálahreyfingar vinstri manna hafa verið í djúpri tilvistarkreppu síðustu áratugi og alveg sérstaklega frá fjármálakreppunni 2008. Það á við bæði hér og annars staðar. En það er athyglisvert að sú tilvistarkreppa hefur lítið sem ekkert verið til umræðu meðal vinstri manna hér.

Það er ekki fráleitt að halda því fram að þessi ráðstefna Ögmundar Jónassonar hafi verið eins konar byrjun á því að vinstri menn snúi blaðinu við og reyni að finna sér fótfestu á ný. Fyrsta skrefið í þá átt er að sjálfsögðu að skilgreina rétt hver vandinn er.

Auðvitað eru vinstri menn ekki þeir einu sem þurfa að finna sér nýjan farveg. Það þurfa hægri menn líka að gera, eins og ég leitast við að fjalla um í bók minni Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar – Byltingin, sem aldrei varð, sem út kom fyrir síðustu jól, þar sem m.a. er fjallað um pólitíska vegferð þeirrar nýju kynslóðar sem kom til skjalanna í Sjálfstæðisflokknum fyrir um fjórum áratugum og brunaði fram undir fánum frjálshyggjunnar. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki síður en vinstri menn að endurhugsa og endurnýja sína stefnu.

Og þá má velta því fyrir sér hvort raunverulega beri mikið á milli þessara fylkinga í mati á því hvernig eigi að endurskapa samfélagið.

Í fyrrnefndri bók segir:

„Það er hægt að færa sterk rök fyrir því að skiptingin í stjórnmálum á Íslandi sé ekki lengur á milli hægri og vinstri eða á milli einstakra flokka heldur sé hún á milli þeirra fámennu samfélagshópa, sem eru inni í valdahringnum og samanstanda af stjórnmálamönnum, embættismönnum, sérfræðingum innan háskólasamfélagsins og vissum hópum í viðskipta- og atvinnulífi og jafnvel í fjölmiðlun. Utan við þann hring stendur þorri þjóðarinnar.

Þeir sem eru inn í valdahringnum notfæra sér aðstöðu sína út í yztu æsar.“

Það sem er spennandi við samstarf þeirra flokka sem standa að núverandi ríkisstjórn er einmitt það hvort flokkar til hægri og vinstri geti náð saman um að endurskapa samfélag okkar í ljósi fenginnar reynslu.

Það á eftir að koma í ljós hvort það tekst.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

til baka Til baka


Þing verði hið fyrsta boðað saman

Yfirvinnubanni ljósmæðra hefur verið frestað og á mánudag hefst atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu sáttasemjara.

En ríkisstjórnin er ekki laus allra mála.

Kveðja verður Alþingi hið fyrsta saman og verði metinverk þingsins að vinda ofan af heimskupörum kjararáðs.

Réttast væri að setja sérstök lög um að þeim embættismönnum, sem hygðust höfða mál á hendur ríkinu, verði vikið úr starfi.

Þegar ber að hefjast handa og bæta fyrir heimskupör síðustu ríkisstjórna. Oft var þörf en nú er nauðsyn.


Nokkur orð um ljósmæður

Um nokkurt skeið hefur staðið sú alvarlegasta vinnudeila sem fólk hefur orðið vitni að hér á landi.

Þessi stétt, sem nú berst fyrir réttmætum kjörum sínum, hefur háð hverja deiluna á fætur annarri án þess að tekist hafi að leiðrétta hlut hennar. Þetta eru eingöngu konur.

Árið 2008 stóð enn ein deilan yfir og greinilegt var að hugur almennings var með ljósmæðrum, eingöngu konum.

mér var sem blaðamanni Morgunblaðsins fengið það hlutverk að fjalla um deiluna. Gat ég ekki betur skilið á þáverandi formanni að ljósmæðrum væri í raun haldið niðri vegna kynferðis síns. Þær eru konur!

Eftir að nám ljósmæðra var lengt og þær, sem komið hafa inn í stéttina, hafa orðið að ljúka hjúkrunarnámi áður, hafa kjör þeirra ekki batnað með hliðsjón að aukinni menntun. Er það vegna þess að þær eru konur?

Jafnvel hagsmunasamtök háskólafólks þótt framkvæmdastjórinn sé kona. bregst þeim.

Eftir því sem best verður skilið felast kröfur þeirra í meginatriðum í því að menntun verði metin til launa, þótt þær séu konur.

Yfirlýsingar fjármálaráðherra eru eins og að hann hafi annaðhvort ekki skilið um hvað deilan snýst eða ekki kafað ofan í forsendur hennar, en hann er karl.

Gerðardómur hefur reynst ljósmæðrum og öðru launafólki hættuspil og því eðlilegt að ljósmæður hafni þeirri tillögu. Það má heita í meira lagi undarlegt að þrjár konur, heilbrigðisráðherra, sáttasemjari og forsætisráðherra standi ráðþrota frammi fyrir þeirri eyðileggingu se nú er að verða í íslensku samfélagi.

Launajöfnun á grundvelli reynslu og menntunar eru ekki verðbólgumál, jafnvel þótt konur eigi hlut að máli.

Hver verður ábyrgð ríkisstjórnarinnar verði barns bani af völdum þessarar deilu?

 


Af tveggja manna hjólinu Ormi inum bláa, Stíganda og hnjáskiptaaðgerð

Í dag var mikill gleðidagur hjá okkur Elínu.

Við hjónin höfum gert okkur það til ánægju að hjóla saman á tveggja manna hjóli um 25 ára skeið.
Árið 1994 keyptum við bandarískt Trek tveggja mana hjól, sem til var í Erninum. Stellið var fremur hátt fyrir Elínu en eftir nokkrar breytingar taldist hjólið nothæft.
Þetta hjól áttum við fram til 2002 þegar við létum það af hendi. Höfðum við þá hjólað austur á Stöðvarfjörð og til Akureyrar. Gera þurfti ýmislegt til þess að hjólið teldist almennilega nothæft. Til dæmis var skipt algerlega um hjólabúnað og fengin sérstyrkt afturgjörð. Þessu hjóli hjóluðum við um 11.000 km.
Við létum Orminn langa, eins og það var kallað, til vinar okkar sem afhenti það síðar kunningja mínum. Hann arfleiddi síðan Orminn til endurhæfingarstofnunar á Akureyri þar sem hann dugiar vonandi enn.

Ormur inn langi, Stígandi, Var gjöf Elínar til mín á fimmtugsafmæli mínu. Hann var sérsmíðaður hjá Robin Thorn í Bretlandi, framspöngin aðeins styttri en vant er þar sem Elín stýrimaður er lægri vexti en eiginmaðurinn.
Þessa hjóls höfum við notið í ríkum mæli og hjólað u.þ.b. 12-13.000 km.

Í fyrra haust var Orminum komið fyrir í híði sínu í októberbyrjun þar sem veður tóku að gerast válynd og veikleiki í öðru hné Elínar torveldaði hjólreiðar, þótt henni gengi í raun mun betur að hjóla en ganga. Í híði sínu hýrðist hann þar til í vor að hann var leiddur út til þess að kanna hvort hann léti að stjórn eftir að stýrimaðurinn hafði þraukað þorran og góuna að lokinni hnéskiptum. En hún gat ekki beygt hnéð nægilega mikið.
Fyrir nokkru kom í ljós að hún gat hjólað á einmenningshjóli og við síðustu tilraunir vantaði einungis herslumun að Ormurinn þýddist hana.
Í dag hélt frú Elín á fund starfsmanna bensínstöðvar N1 við Ægisíðu og hækkaði starfsmaður hnakkinn fyrir hana. Og viti menn! Frúin gat hjólað og mætti eiginmanni sínum á gangi meðfram Nesveginum.
Fórum við saman hring á nesinu. Meðalhraðinn var um 11 km en við nutum þess í ríkum mæli að vera saman á blessuðum Orminum inum langa, Stíganda. Verða því aftur teknar upp tvímenningshjólreiðar hjá okkur hjónakornunum.
Til hamingju, EL'ÍN!:)


Hringferð á Kia Soul rafbíl

 

Við hjónin keyptum rafbíl af tegundinni Kia Soul 2017 fyrir rúmu ári. Við höfum ferðast á honum um Suðurland, Snæfellsnes og norðurland, allt norður að Höfða á Höfðaströnd. Hefur hann reynst í hvívetna vel.

Í ljós kom að við höfðum greitt 30.000 kr fyrir rafmagn í heimahleðslu þegar ár var liðið frá því að við keyptum gripinn og telst það vel sloppið fyrir 15.000 km akstur.

 

Drægni o.fl.

Kia Soul 2017 er ekki með langdrægari rafbílum. Meðaldrægni er um 150 km, en við góð skilyrði höfum við séð töluna 171 km. Lengsti samfelldi akstur okkar var um 145 km. Í mestu vetrarhörkum minnkar drægnin í um 120 km.

Eyðsla á hverja 100 km er um 16 kw-stundir, en eftir ferðalag okkar hafði hún vaxið í 16,5. Nánari skýring á því síðar.

 

Ferðin austur í Suðursveit

Við lögðum af stað frá Seltjarnarnesi um kl. 10:40 mánudaginn 2. júlí síðaðstliðinn og ókum í einum áfanga austur á Hvolsvöll, 108 km. Við áttum þá 18 km óekna og var nýtingin ekki sú sem ég ætlaði. Er það væntanlega vegna aksturslags, en ekið var að jafnaði á 90-92 km hraða og stundum tekið fram úr. Á Hvolsvelli hlóðum við í 80%.

 

Í Vík áttum við eftir 40 km óekna og á Kirkjubæjarklaustri 76 km Á báðum stöðum hlóðum við í 94%. Hið sama var um Freysnes og Jökulsárlón, en það var síðasta hleðsla dagsins. Að Hala í Suðursveit komum við um kl. 18:30.

 

Austur á Stöðvarfjörð

Þriðjudaginn 3. júlí Héldum við af stað um kl. 10:15 og var haldið austur á bóginn. Hlaðið var við Hótel Jökul, en þegar þangað kom áttum við um 30% eftir á rafhlöðu eða 40 km. Þar var hlaðið í 94% enda um 100 km kafli framundan. Leiðin þangað liggur á nokkrum stöðum um allbrattar skriður og má því búast við nokkurri umrameyðslu. Þegar við komum á áfangastað voru um 18% eftir á rafhlöðu eða rúmir 20 km.

Á Djúpavogi var enn hlaðið í 94% þótt leiðin þaðan á Stöðvarfjörð sé einungis um 80 km og miðað við að fylgja umferðarhraðanum.

Þar dvöldum við í góðu eftirlæti hjá Hrafni Baldurssyni í Rjóðri. Ekki var farið víða, skroppið á Fáskrúðsfjörð og franska sýningin skoðuð. Þá var skotist suður í Berufjörð og einu sinni á Breiðdalsvík og í Berufjörð. Yfirleitt var hlaðið heima.

 

Að Egilsstöðum

Mánudaginn 9. júlí héldum við að Egilsstöðum og hlóðum þar í 94%. Skýringin var sú að okkur grunaði að hleðslan gengi hægt á Skjöldólfsstöðum og vildum við því hafa eins mikið rafmagn og unnt var.

Við þurftum að bíða í 10 mínútur eftir að komast að og var það í fyrsta sinn í ferðinni sem hleðslustöð var upptekin. Sá sem hlóð var kanadískur og voru þau hjónin á ferð á Renault Zoe sem hann lét mikið af. Þau áttu Nissan Leaf 24 KW vestur í Kanada sem hafði drægni upp á 125 km en hann fullyrti að hann kæmist um 250 km á Renault-bílnum sem hann hafði tekið á leigu. Hafði hann hlaðið hann á um tveimur klst þá um morguninn og hugðist komast yfir Möðrudalsöræfin og skoða Dettifoss.

Rétt er að geta þess að við hittum þau heiðurshjónin síðar á Blönduósi, við Staðarskála og í Borgarnesi. Virtist hann dreypa á bílinn rafmagni eftir þörfum.:)

 

Yfir möðrudalsfjallgarðinn

Þegar að Skjöldólfsstöðum kom, en þangað eru um 50 km frá Egilsstöðum, kom í ljós það sem ég hélt mig vita þrátt fyrir það sem ritað var á heimasíðu Orku náttúrunnar, að tvenns konar hleðsla var í boði og sú sem við gátum notað var hægheðsla. Stungum við í samband kl. 12:10

Við komumst fljótlega að því að bíllinn fengi 7% á hálftíma, en það er svipað því sem 15 ampera heimahleðslustöð afkastar.

Kl. 15:30 reyndist hann hafa fengið 97% og veðrið fór óðum versnandi – vestan stynningskaldi og miklar rokur. Töldum við því rétt að leggja í hann og höfðum þá beðið í rúma þrjá tíma á Skjöldólfsstöðum.

Við hjónin höfðum sammælst um að fara rólega og höfðum fyrir okkur m.a. dæmi Hjartar Grétarssonar, þegar hann fór til Akureyrar í fyrrahaust. Voru því 70 km meðalhraðinn á þessari leið eða jafnvel minna, því að vindurinn var í fangið og stundum riðu yfir þvílíkar hviður að bíllinn hægði verulega á sér.

Eftir því sem við færðumst ofar versnaði veðrið og fannst mér það einna líkast fárviðri á tímabili. Samkvæmt hæðarmæli farsímans fórum við hæst í 673 m hæð.

Við komum að Fosshótelinu við Mývatn kl. 17:05 og höfðum verið á ferðinni í rúman hálfan annan tíma. Höfðum við þá ekið 117 km. Áttum við þá eftir 18% af hleðslu og rúmlega 20 km samkvæmt giskaranum. Sýnir það og sannar hvað vindmótstaðan og hraðinn hafa mikil áhrif.

Við hótelið var svo hvasst að varla var stætt.

Við stönsuðum þar í um 40 mínútur á meðan við hlóðum í 94%.

Til Akureyrar komum við um kl. 19:30, en þangað eru rúmlega 100 km og fór ekki að lygna að ráði fyrr en við áttum u.þ.b. 40 km ófarna.

 

Eftir góða dvöl hjá vinahjónum okkar, Herði Geirssyni og Björgu Einarsdóttur, héldum við heim á leið upp úf hádegi daginn eftir. Var enn tekið mið af leiðbeiningum Hjartar og hraða stillt í hóf á Öxnadalsheiðinni sem nær 551 m. hæð, enda var framan af stífur mótvindur.

Við hlóðum bílinn í Varmahlíð, Blönduósi og í Staðarskála. Áttin var vestanstæð og allhvass vindur sem tók talsvert í og á Holtavörðuheiðinni voru samkv. Veðurlýsingu um 15 m/sek.

Enn var hlaðið í Borgarnesi eftir dálitla bið og hittum við Kanamanninn sem var hinn ánægðasti þar sem hann gat skvett á Renaultinn þótt Nissan hlæði um leið. Hann sagðist hafa sloppið yfir Mörðudalsöræfin áður en hvassviðrið skall á.

Á Seltjarnarnes komum við um kl. 22:00 eftir viðkomu í verslun.

 

Niðurstöður

Það virðist vissulega hægt að fara hringinn á flestum ef rafbílum sem eru með 27 kw rafhlöðu. Þó er næstum því hæpið að fullyrða að hringurinn sé opinn á meðan ástandið á Skjöldólfsstöðum er eins og raun ber vitni. Þeir sem eru hvað jákvæðastir geta þó glaðst yfir kyrrðinni á Skjöldólfsstöðum, náttúrunni og góðri kjötsúpu sem þar er framreidd.

Við vorum heppinn að mörgu leyti. Við þurftum einungis þrisvar að bíða eftir hleðslu og í tvö skipti innan við 10 mínútur.

Allar 14 hleðslustöðvarnar voru í góðu lagi. Þegar við höfðum samband við Orku náttúrunnar fengum við góða úrlausn mála og á starfsfólkið þakkir skyldar.

Við eyddum um 9 klst við hleðslustöðvar og ókum 1.551 km.

Þegar við lögðum af stað í ferðina var meðaleyðslan um 16,1 kwst á 100 km. Í ferðalok var hún orðin 16,5 km. Er það talsvert ef miðað er við suma aðra bíla sem eru með svipaðar rafhlöður, en það segir þó sína sögu um veðurskilyrðin og landslagið.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband