Ómar og Lára stikla um Vopnafjörð - gömul minning

Það er einatt ánægjulegt að fylgjast með stiklum þeirra Ómars Ragnarssonar og láru dóttur hans.
Í kvöld greindi hann frá samskiptum sínum við Stefán Ásbjarnarson á Guðmundarstöðum í Vopnafirði.
Ýmislegt var sagt um Stefán, þar á meðal að hann hefði flutt hey í hlöðu á bróður sínum og sitthvað fleira.

Þann 30. júní 1967, á 59. afmælisdegi móður okkar, sóttum við bræður ásamt mömmu og Magnúsi sigurðssyni, skólastjóra, heim Jón í Möðrudal og spiluðum við Jón hvor fyrir annan á hið sérkennilega falska orgel, sem er í kirkjunni sem Jón byggði til minningar um eiginkonu sína. Þetta hljóðrituðum við og er snældan enn til.
Þegar til Vopnafjarðar kom var farið að undirbúa skemmtun, en við söfnuðum þá fé fyrir Hjálparsjóð æskufólks á vegum Magnúsar.
Að skemmtuninni lokinni hófst dansleikur í félagsheimilinu. Ég kom mér fyrir utan við danssalinn og ræddi þar við ýmsa. Þar kom Stefán Ásbjarnarson og tók mig tali, 15 ára unglinginn. Varð okkur býsna skrafdrjúgt og er mér enn í fersku minni hvað mér þótti maðurinn snjall sagnamaður og lýsingar hans á ýmsu, svo sem skaplyndi Jóns í Möðrudal og lauk hann upp fyrir mér ýmsu úr ævi þessa merka manns.
Fór hann m.a. með kveðskap eftir Jón sem mig minnir að hafi verið í betra lagi og sitthvað fleira sagði hann mér.
Í kvöld rifjaðist þessi stund upp.

Að undanförnu hefur Ríkissjónvarpið sýnt nokkur gömul viðtöl. Þótt myndböndin séu einungis um tveggja áratuga gömul er talið þegar orðið bjagað og svo var um þau fáu brot sem heyrðust úr viðtali Ómars við þau Stefán og konuna sem fóstraði þá bræður megnið af ævi sinni.


Hverjir ógna hverjum?

Nú er talsvert fjaðrafok í fjölmiðlum vegna þess að hin svokallaða 5G-bylting er í nánd, en þessi nýja fjarskiptatækni á eftir að gjörbylta lífi fólks á ýmsum sviðum.
Prófanir á kerfinu hafa staðið yfir víða. Sem dæmi má nefna að Kia Motors létu tilraunabíla aka með 5G leiðsögukerfi um 190 km. leið um það leyti sem vetrarólimtíuleikarnir hófust í fyrra. Reyndist það býsna vel.
Fjaðrafokið stafar að því að kínversk fjarskiptafyrirtæki eins og Huawei hafa nú náð talsverðri forystu í tækninni sem að baki 5Gleynist. Óttast ýmsir að kínversk stjórnvöld geti beitt þessum fjarskiptabúnaði ef til átaka kemur.

Því skal spurt:
Eru bandarísk fjarskiptafyrirtæki eitthvað skárri?
Lét Google ekki bandarískum yfirvöldum í té upplýsingar um kínverska notendur sem notuðu gmail?
Fleiri spurninga mætti spyrja. En niðurstaðan verður ætíð sú að hver og einn hugsar um sinn hag og eigin hagsmuni. Bandaríkin eru þar ekki til neinnar fyrirmyndar.

Fyrst þegar 5G var kynnt til sögunnar sáu menn ýmsar leiðir til að efla margs kyns fjarskipti og horfðu þá m.a. til Afríku. Talið er að kerfið muni m.a. gera ljósleiðaralagnir óþarfar í álfunni og spara þannig mikla fjármuni.
Miklir fjármunir eru í húfi og Bandaríkjamenn ætla sér svo sannarlega að hrifsa sína sneið af kökunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband