Minning um ofbeldi gegn konu

Á mbl.is birtast um þessar mundir ágrip sagna um kynferðisobeldi karlmanna gagnvart konum.

Það hefur sennilega verið sumarið 1974 sem mér varð ljóst fyrir alvöru hvað þetta þýddi.

 

Ég var sumarstarfsmaður hjá ágætu fyrirtæki. Þar var ung kona, eiginkona og móðir, sem gerði hreint. Kom hún til starfa um kl. hálf fimm á daginn. Settist hún stundum á skrifborðshornið hjá mér og áttum við saman spjall um daginn og veginn.

Um þessar mundir vann maður nokkur á miðjum aldri hjá fyrirtækinu, en hegðan hans var þannig að hann var á eins konar bráðabirgðafresti. Fékk hann ekki að koma inn í söludeildina nema hann ætti við mig sérstakt erindi. Það var yfirleitt fólgið í því að lesa upp vörulista svo að ég gæti skrifað þá hjá mér.

Dag nokkur vorum við að ljúka við vörulistana þegar áður nefnd kona kom í heimsókn. Sá gamli varð hinn glaðasti og spurði hvort ég vissi hvað hún væri brjóstamikil. Konan bað hann að hætta þessu bulli. Í stað þess að hætta tók hann um brjóst hennar og hvað hann gerði meira veit ég ekki en sagði um leið: "Svona á maður að taka á þeim, Arnþór."

Konan veinaði: "Arnþór, hjálpaðu mér!"

Ég varð skelfdur og sagði við manninn að okkar verki væri lokið og hann skyldi hætta þessu."

Ég minnist þess að hafa titrað af skelfingu og andstyggð.

Áttum við konan um þetta stutt spjall og minnir mig að ég hafi stungið upp á að hún ræddi þetta við skrifstofustjórann, sem var kona.

Eitt er víst og frá því hef ég ekki sagt áður.

Skrifstofustýran kom til mín morguninn eftir og krafði mig sagna um það sem gerst hafði. Ég staðfesti það.

Eftir þetta var maðurinn settur í algert samskiptabann og mátti ekki vera annars staðar en í lítilli skrifstofu nærri stjórnendum fyrirtækisins.

Þessi niðurlægingarminning sækir einatt enn á mig eftir rúm 40 ár.


Bloggfærslur 8. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband