Hvað eru menn að hugsa?

Á undanförnum misserum hefur margoft komið fram að íslenska vegakerfið sé komið að þolmörkum. Leidd hafa verið rök að því að nauðsynlegt sé að leggja á vegatolla til þess að fjármagna umbætur víða um land.

Þá er vitað að innan skamms þarf að ráðast í gerð nýrra Hvalfjarðarganga þar sem umferð um göngin nálgast þolmörk.

Hvað var því til fyrirstöðu að innheimta áfram gjöld a þeim sem aka þessi göng og safna þannig í sarpinn?

Ísland er fámennt land og því eru litlar líkur á að stór og öflug fyrirtæki, sem starfa á heims vísu hafi áhuga á að leggja fé í íslenska vegakerfið. Víða erlendis hafa stórfyrirtæki haslað sér völl á þessu sviði og innheimta kostnað að mestu með vegatollum. Íslendingar, sem sjá ofsjónum yfir vegagjöldum, virðast nógu framtakslitlir til að svæfa slíka umræðu og halda því áfram að vera með ónýtt þjóðvegakerfi.

Ætla menn að halda áfram að tjasla í holu þar og holu hér? Skýrasta dæmið um hægaganginn er Berufjörðurinn og framkvæmdirnar þar.

Nú þurfa samgönguráðherra og Alþingi að taka á honum stóra sínum og láta verkin tala.

 


Af hverju skammast hálaunafólkið sín fyrir ríkidæmið?

Nú hefur enn einusinni gosið upp umræðan um launhelgar vegna launa þeirra sem betur mega sín, eftir að vefsíðan tekjur.is var opnuð.

Það er í raun merkilegt að þeir, sem afla sér hærri tekna en almenningur á kost á, séu ekki stoltir af velgengni sinni. Reynslan sýnir að ýmsir þeirra reyna með öllum ráðum að komast hjá því að greiða sinn skerf til þjóðfélagsins. Það er þess vegna sem skattþrepunum er háttað með þeim hætti sem raun ber vitni. Afleiðingin verður því sú að hin breiðu bökin í samfélaginu, verða aláglaunafólk, örorku- og lífeyrisþegar og Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um þennan hóp.

 

Á ofanverðri síðustu öld vakti athygli þegar útgerðarmaðurinn og fiskverkandinn, Soffanías Cecilsson á Grundarfirði lýsti því að hann nyti þess að greiða skatta til samfélagsins. Hvenær hefur slík yfirlýsing hljómað úr munni núlifandi einstaklinga á Íslandi sem vita ekki aura sinna tal?

 

Ég hef áður greint frá því að á ofanverðum 7. áratug síðustu aldar bar það til tíðinda í Vestmannaeyjum, þegar skattaskráin var lögð fram, að vinkona okkar, sem vann í einni fiskvinnslustöðinni, átti að greiða jafnháa skatta og einn forstjórinn í Vestmannaeyjum. Vorkenndu menn forstjóranum innilega fyrir það sem hann bar úr bítum og óttuðust að hann missti húsið sitt., bláfátækur maðurinn!:)

Um svipað leyti leitaði verkamaður nokkur, sem enn er á lífi, til Helga Benediktssonar, föður míns, og bað hann að hjálpa sér að kæra skattaálögur sínar, en hann hafði að verið að mestu atvinnulaus árið áður. Pabbi gerði það og öllum til mikillar furðu voru álögurnar teknar aftur.

 

Á þessum tíma var hávær umræða í Vestmannaeyjum á meðal almennings um þetta himinhrópandi óréttlæti og nú bregðast tekjuháir einstaklingar og varðmenn þeirra við með því að freista þess að áður nefndri vefsíðu verði lokað.

Gagnsæi er nauðsynlegt og er sennilega skárra en flest annað til að tryggja að heiðarlega verði að verkum staðið utan og innan vinnustaða.

 


Bloggfærslur 20. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband