Heimsókn áhafnarinnar af Sinetu aðfaranótt annars í jólum 1986

Ég er að ljúka við að lesa síðasta bindi bókaflokksins, Þrautgóðir á raunastund. Þar er m.a. sagt frá því þegar tankskipið Sineta fórst við Skrúð aðfaranótt annars í jólum árið 1986.

Ég var þá austur á Stöðvarfirði hjá vinafólki mínu, Hrafni Baldurssyni og Önnu Maríu Sveinsdóttur.
Að kvöldi jóladags tók ég á mig náðir um kl. 10 og sofnaði fljótt.
Um nóttina vaknaði ég og gáði á klukkuna. Hana vantaði þá 11 mínútur í 4.
Svo undarlega brá við að ég fann að herbergið sem ég svaf í var þétt skipað fólki. Það rann vatn úr fötum þess og fannst mér að ég gæti snert það ef ég rétti hægri höndina út fyrir rúmstokkinn.
Það hvarflaði að mér að þetta væri skylt atviki sem er sagt hafa gerst á prestssetrinu Ofanleiti í Vestmannaeyjum árið 1836. Þegar vinnukonu varð gengið fram í bæjargöngin sá hún þar standa 12 skinnklædda menn og vissi þá að skip staðarins hefði farist (þannig er sagan í minni mínu).
Um svipað leyti heyrði ég að María var komin á stjá. Gekk hún að herbergisdyrum mínum og knúði dyra. Ég hugsaði sem svo að hún hefði fengið einhverja aðsókn og ætlaði að bjóða mér að bergja með sér á kaffibolla.
um leið og hún opnaði dyrnar hvarf mér þessi tilfinning um fólkið í herberginu.
María tjáði mér að skip hefði farist við Skrúð og væri Hrafn kominn niður í bækistöð björgunarsveitarinnar á Stöðvarfirði. Hefði hann hringt og stungið upp á að ég kæmi þangað.
Greindi ég henni undir eins frá því sem borið hafði fyrir mig.
Enga skýringu kann ég á þessu en ýmsa þekki ég sem orðið hafa fyrir svipaðri reynslu.
Fyrir vikið og vegna þess sem ég varð áskynja við að hlusta á samskipti björgunarmanna hefur þessi atburður grópast í minni mér.


Bloggfærslur 8. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband