Jón Leifs - líf í tónum

Í nótt lauk ég við að lesa ævisögu Jóns Leifs, tónskálds, sem Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur, ritaði. Bókin byggir á umfangsmiklum rannsóknum höfundarinis á ævi tónskáldsins og hefur verið leitað víða fanga.

Ævisagan er hlutlæg úttekt á ævi og athöfnum Jóns, skaphöfn hans, samskiptum við ættingja sína, samstarfsmenn og yfiröld á Íslandi, Þýskalandi, Norðurlöndum og jafnvel víðar. Fátt virðist dregið undan og Jóni lítt hlíft.

Þótt Árni Heimir dragi upp allóvægna mynd af tónskáldinu leitast hann við að kynna hinar mýkri hliðar hans. Niðurstaðan er margbreytileg og flókin persóna sem hefur sennilega átt við geðræn vandamál að stríða. Vitnar Árni þar til umsagnar Helga Tómassonar, geðlæknis, en getur þess um leið að dómar Helga hafi stundum þótt orka tvímælis. Jón virðist sjálfur hafa tekið mark á niðurstöðum geðlæknisins og fer Jón ofan í saumana á skilgreiningu hans, en hann hafði haft áhyggjur af geðheilsu sinni á ungaaldri.

Þótt ævisagan sé harmræn stendur Jón þó uppi sem sigurvegari í lokin, sigurvegari er sá aldrei drauma sína rætast, mikils metið tónskáld víða um lönd.

Tvær ævisögur þykist ég hafa lesið að undanförnu sem skara fram úr - ævisögu Lárusar Pálssonar og Jóns Leifs. Bækurnar eru ólíkar enda mennirnir gjörólíkir. Árna Heimi hefur tekist svo vel ritun þessarar ævisögu að hún hlýtur um langan aldur að teljast á meðal hins besta sem ritað hefur verið á íslenska tungu á þessu sviði. Málfarið er vandað, stíllinn ljós og þekking höfundarins með ágætum. Samfélagssýnin er skörp og gagnrýnin á stundum hárbeitt.

Árni Heimir hefur orðið þekktur fyrir skrif sín um tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann ritstýrir tónleikaskrá hennar. Lýsingar hans á uppbyggingu tónverkanna er markviss og bætir ævinlega skilning fólks á viðfangsefni hljómsveitarinnar. Hið sama er upp á teningnum í ævisögu Jóns. Hann brýtur tónverkin til mergjar svo að fáir hafa gert það betur.

Ég þekki mörg verka Jóns og sum þeirra finnast mér á meðal hins besta sem samið hefur verið hérá landi. Kantatan Þjóðhvöt, Minni Íslands og hlutar Sögusinfóníunnar eru þar á meðal auk orgelkonsertsins se er magnaður. Ég hlustaði á Minni Íslands eftir að hafa lesið ríflega helming ævisögunnar. Þótt ég nyti tónverksins gat ég ekki annað en varist hlátri þegar ég gerði mér grein fyrir þjóðrembu Jóns og skyldleika hennar við ýmislegt sem aðhafst hefur verið á þessu sviði víða um lönd. Jón tróð alls staðar lögunum Ísland farsældarfrón og Hani, krummi, hundur svín, inn í verk sín þar sem hann kom því við og stíllin leyfði Urðu því sum tónverkin dálítið sérvitringsleg. Þetta gerðu kínversk tónskáld fyrst eftir byltingunna og allt til þess að menningarbyltingunni lauk. Austrið er rautt var hvarvetna ásamt nokkrum byltingarsöngvum öðrum. Lék ég mér stundum að því að leita að stefinu Austrið er rautt í einstökum tónverkum frá þessum tíma og oftast leyndist stefið einhvers staðar.

Þá er með ólíkindum að Jóni skyldi láta sér fljúga í hug að lag sitt við Rís þú unga Íslands merki gæti orðið þjóðsöngur Íslendinga. Hann virðist ekki hafa skynjað að tilranir hans til þess að skapa þjóðlegan stíl voru að mörgu leyti víðs fjærri íslenskum þjóðlögum og þeirri tónlist sem var í hávegum höfð framan af 20. öldinni. Þetta kom gleggst fram í viðtali Þorkels Sigurbjörnssonar, sem útvarpað var í febrúar 1968. Ég minnist þess enn hversu hissa ég varð þegar ég heyrði viðtalið og skynjaði um leið að Ríkisútvarpið væri svo víðsýn stofnun að menn gætu látið skömmunum rigna yfir andstæðinga sína ef þeim byði svo við að horfa.

Ævisaga Jóns Leifs hefði væntanlega orðið öðruvísi hefði hún verð rituð á meðan hann lifði. Ekki verður annað séð en dómur Árna Heimis sé sanngjarn, bæði um Jón sjálfan, tónlistina og samferðamenn hans. fáir hafa fetað í fótspor Jóns og ekkert íslenskt tónskáld hefur samið jafnsérviskuleg tónverk. Jón Ásgeirsson nýtir sér ýmislegt úr stefnu nafna síns en fer allt aðrar brautir. Honum og Jóni Leifs er þó sameiginleg að sömu stefjabrotin birtast í fleira en einu tónverki.

Til hamingju með vel unnið verk, Árni Heimir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband