Skemmtilegur orgelleikur í Dómkirkjunni

við hjónin brugðum okur í messu í Dómkirkjunni í Reykjavík á sautjándanum eins og stundum áður. Nú er svo komið að oss óæðri gestum er boðið upp á loft og þar þarf að klöngrast yfir palla og þrep áður en fundin verði sæti. Við létum okkur hafa það að venju og settumst við hlið Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur, söngkonu, sem söng alla sálmana með sinni prýðilegu rödd. Ekki lagði ég í sálmasöng enda kann ég fáa sálma og Lofsöngur Matthíasar, sem getið er í bók Helga Ingólfssonar, Þegar kóngur kom, reyndist of erfiður til söngs nú eins og fyrir 136 árum.

Örn Magnússon, eiginmaður Mörtu Guðrúnar, lék á orgel Dómkirkjunnar og stjórnaði Dómkórnum. Sem forspil notaði hann "Gefðu Guð faðir, faðir minn" eftir Jón Leifs og átti það vel við. Sem eftirspil lék hann úr Rímnadönsum eftir Jón Leifs og fór þá allt á ið innra með mér og ýmsum kirkjugestum öðrum. Ég klappaði tvisvar en Dómkórinn klappaði á táknmáli. Mikið var það vel viðeigandi og skemmtilegt að nota rímnadansana sem eftirspil.

Síðar um daginn sóttum við heim Árbæjarsafn ásamt móður Elínar og vinkonu hennar. Um kvöldið röltum við um í miðborginni að hlusta á ýmsar hljómsveitir. Þótti mér þar Varsjárbandalagið skemmtilegt. Gleðin og kímnin smitaði svo út frá sér að allir, jafnt hægri- sem vinstrisinnaðir - urðu glaðir. Þar var m.a. leikin Þjóðrembusyrpa sem hófst á balkneskri stælingu lagsins Ísland Farsældarfrón. Þá heyrðust vel fjölmenningarleg áhrif sem orðið hafa hér á landi og eiga fátt skylt við þá ensku eða amerísku menningu sem tröllríður þjóðtungunni og öðrum þáttum þjóðlífsins um þessar mundir svo að Sautjándinn hefði vel getað verið amerísk útihátíð í Texas.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband