Nokia 6710 Navigator og notagildi hans fyrir blint fólk

Á ferð okkar Elínar umhverfis landið um daginn gerði ég nokkrar tilraunir með Nokia 6710 farsíma og GPS-kerfið sem fylgir símanum. Síminn er með spænskum hugbúnaði sem kallast Mobilespeak (Farsímatal) og birtir hann upplýsingar um flest sem birtist á skjá símans og unnt er að þýða með texta. Röddin er Snorri sem Felix Bergsson léði framleiðanda talgervilsins.

Síminn virtist leiðbeina okkur ágætlega þegar við vorum akandi og skipaði okkur skilmerkilega að beygja á réttum stöðum. Hins vegar virtist mér hann ekki staðfesta að við værum komin á áfangastað - á þó eftir að gera fleiri tilraunir.

Þegar merkt er inn leið getur maður valið hvort hún er ekin eða gengin. Þegar akstur er valinn leiðbeinir enskumælandi rödd notandanum, en síminn þegir þunnu hljóði ef síminn er beðinn að velja gönguleið. Hann gefur þó hljóðmerki með vissu millibili, sennilega við gatnamót og á 200 m fresti.

Í tilraun sem ég gerði í kvöld kom í ljós óhagræði þess að hlusta á skilaboð símans í heyrnartólum. Þótt þau séu freur lítil trufla þau umhverfisheyrnina. Augljóst er því að aðrar aðferðir verur að velja, t.d. hátalara símans

Það vekur jafnan athygli hér á Seltjarnarnesi þegar ég fæst við ýmiss konar tæknibrölt, einkum ef ég er einn míns liðs. Þannig var mér boðin aðstoð áðan því að vegfaranda þótti augljóst að ég væri að villast.

Þótt síminn hafi ýmsa annmarka og enn eigi eftir að vinna talsvert aðgengisstarf segir hann þó nöfn þeirra gatna sem gengið er meðfram, ef stutt er á staðfestingarhnappinn og getur það í sjálfu sér komið sér vel. Hins vegar gabbaði ég símann með eftirfarandi tilraun:

Ég gekk frá suðurströnd 3 og skráði inn Tjarnarból 14. Eftir að ég hafði valið að aka þangað tilkynnti röddin mér að ég ætti eftir u.þ.b. 400 metra. Síðan komu einhverjar furðuleiðbeiningar sem ég tók ekki mark á og endurreiknaði þá síminn stefnuna. Þá var mér sagt að 200 metrar væru eftir og var þá sagt að beytja til hægri og síðan enn til hægri. Ég ákvað hins vegar að stytta mér leið af Nesveginum inn á Tjarnarból og fór á milli húsanna Tjarnarbóls 12 og 14. Símaskrattinn sagði ekki eitt einata orð og heldur ekki þegar ég kom í hlaðið.

Ég á eftir að gera nokkrar tilraunir með símann áður en endanleg niðurstaða verður fengin. Þetta liggur þó fyrir:

GPS-leiðsögn er tæplega nógu nákvæm til þess að blint fólk geti nýtt sér hana til fullnustu. Hugsanlega getur hún þó orðið að liði. Þá er skylt að geta þess að síminn gleypir í sig straum á meðan þessi búnaður er notaður.

Ýmis atriði í símanum á eftir að gera aðgengileg. T.d. þarf að gera lista yfir ýmis atriði s.s. veitinga- skemmti- og gististaði aðgengilegri. Nú þarf að kalla á upplýsingar um hvern stað, hlusta á þær, færa sig síðan aftur í meginlistann, færa bendilinn um eitt skref, stiðjá á staðfestingarhnappinn, velja upplýsingar o.s.frv.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í nýlegri úttekt hér vestra á landfræðilegum staðsetningartækjum er það niðurstaða rannsóknarinnar að enn sem komið er eigi farsímar langt í land að verða góð staðsetningartæki.  Rétt sé að hafa í hug að staðsetningartæki GPS séu hönnuð sem slík og símar séu hannaðir til að bera hljóð á milli manna.  Því er þeim sem vilja nota GPS bent á að kaupa sérhæfð tæki.

Margt af því sem þú lýsir eru samskonar vandamál og ég á við með Garminn minn (Garmin nuvi 750).  Hann stynur því þó upp hvenær komið er í áfangastað en hefur ekki fyrir að minna mann á fari maður framhjá.  Þetta er sérhæft leiðsögu og staðsetningartæki. Þess vegna myndi ég bíða enn um sinn með að ætlast til þess að sími náni því stigi.  Nákvæmni tækjanna er enn nokkuð óljós þótt við bestu skilyrði eigi að vera nokkuð víst hvar menn eru staddir innan 10 til 20 metra.

Emil (IP-tala skráð) 29.7.2010 kl. 19:38

2 identicon

Sæll Arnþór,

Ég er með Nokia N82 síma með GPS en keypti mér að auki forritið Wayfinder Access. Með leiðsöguhund og Access hef ég rölt um á ókunnum slóðum, fundið hótelið mitt, matvöruverslun og almenningsgarð þar sem ég gat sleppt hundinum lausum. Þarna get ég lagt inn leiðir og skoðað fyrirfram, komist að því hvar ég er hverju sinni og hvað megi finna áhugavert í næsta nágrenni. Ekki hefur þó alltaf gengið jafn vel með tækið því ég hef einnig gengið um í hálfa aðra klukkustund í leit að hótelinu mínu og þurft að lokum aðstoð vegfaranda. Ekki skal ég þó segja hvort það hafi verið tækið eða notandinn sem klikkaði þar en ég komst að því að ég hafði gengið í "kringum" hótelið allan tímann án þess að hafa hugmynd um það :)

Helena (IP-tala skráð) 31.7.2010 kl. 06:08

3 Smámynd: Arnþór Helgason

Heil og sæl, Helena.

Ég hef gert nokkrar atrennur að Nokia-símanum í viðbot og komist að því að hægt er að setja inn leiðir. Gallinn er sá að Mobilespeak les ekki lista yfir þá staði sem eru í símanum nema slegið sé á enter, og upplýsingar valdar. Þegar hlustað hefur verið á upplýsingarnar um hvern stað þarf að fara eitt skref til baka, færa bendilinn upp eða niður og skoða síðan upplýsingarnar með því að styðja á enter og velja upplýsingar. Þetta hlýtur að standa til bóta.

Í fikti mínu he ég þó komist að því að síminn er ljómandi gott staðsetningartæki og ætti að geta omið að nokkrum notum. Í gær reyndi ég að skrá inn upplýsingar um Tjarnarból 14 en síminn vísar á rangan stað. Þegar sá staður var skoðaður kom í ljós að um Tjarnarbol 9 var að ræða. Sennilega þarf ég að fá hnitin fyrir Tjarnarból 14 til þess að geta ratað heim til mín. Þá sýndi hann einnig í eitt skipti að við værum fyrir utan húsið Hamrahlíð 23 og var það alveg kórrétt.

Þú minntist á Wayfinder Access hugbúnaðinn. Því miður er hætt að þróa hann eftir því sem mé skilst á póstlistanum hjá Code Factory, en þar er afar virkur póstlisti Mobilespeak og Mobilemagnifier notenda.

Bestu kveðjur og þakkir fyirr athugasemdina.

Arnþór Helgason, 31.7.2010 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband