Aðdragandi upplýsingabyltingarinnar í málefnum blindra

Um daginn tók Elín til í geymslunni. Ég var henni innan handar og vald úr sumt sem mátti henda og annað sem skyldi geyma. Þá varð á vegi okkar kassi með gögnum sem ég hafði haft með mér úr Öryrkjabandalagi Íslands þegar ég fékk leyfi til að sækja eigur mínar þangað. Þar á meðal var lestrartækið Optacon (Optical Converter) sem Þórsteinn Bjarnason gaf nafnið ritsjá á íslensku.

Í dag tók ég tækið upp úr pokanum sem það var geymt í. Ragnar R. Magnússon hafði fengið það einhvern tíma á 9. áratugnum en notaði það sáralítið. Sjálfur fékk ég slíkt tæki til afnota haustið 1973 og entist það í 11 ár. Seinna tækið notaði ég frá árunum 1984-2004, en þá var það dæmt ónýtt. Í staðinn fékk ég þýst tæki sem kallast Videotim sem byggir á svipaðri tækni og gunnar nokkur Matschulat hannaði. Verður nú gerð nokkur grein fyrir þessum tækjum.

Jon Linwille hannaði optakon-tækið eða ritsjána handa dóttur sinni árið 1969 og stofnaði um framleiðsluna fyrirtækið Telesensory Systems í Bandaríkjunum. Fyrir tilstilli Blindravinafélags Íslands voru tvö tæki fengin hingað til lands og kom dönsk kona, Linda Kampf, hingað til lands að kenna okkur tvíburunum notkun þeirra. Tókust undir eins ástir með mér og þessu tæki.

Optacon - ritsjáin er fremur lítil um sig og u.þ.b. e eitt kg á þyngd. Í ritsjánni er íhvolf plata með 144 örsmáum nálum eða punktum Þegar straumi er hleypt á tækið titra nálarnar.

Við tækið er tengd myndavél sem notandinn heldur á í hægri hendi. Þegar vélinni er rennt yfir síðu með prentletri birtist mynd af því sem linsan nemur undir vísifingri vinstri handar sem látinn er hvíla á nálaplötunni. Það ermeð öðrum orðum upphleypt mynd af stöfum og táknum sem birtist.

Tveimur sögum fór af ágæti þessa tækis. Nokkur hópur fólks náði allgóðum árangri og las flest sem það langaði til. Dagblöðin voru nokkuð erfið en bækur aðgengilegar auk margra tímarita. Sjálfur mældist ég á meðal 10 hraðlæsustu notenda ritsjárinnar árið 1977 og las hvað eina sem mér flaug í hug - skáldsögur, ljóð, námsefni, kínversk tímarit o.s.frv. Ekki var verra að þegar ég varð ástfanginn af Elínu og hún var fyrir norðan í sumardvöl með fötluðum börnum skrifaði hún mér bréf. Hún skrifaði blokkskrift og gat ég lesið bréfin hennar í næði. Eitt sinn fann ég bréf frá vini mínum sem hann hafði skilið eftir á skrifborði mínu. Hann var á leið úr landi og í lok bréfsins var þessi setning: "Þetta er einungis handa fingrum þínum."

Leshungur mitt var óseðjandi á þessum árum. Þegar ég fór að vinna að námsbókaútgáfu í þágu blindra varð tækið mér ómetanleg hjálp við að skoða uppsetningu efnis o.s.frv. Sem framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins skoaði ég þá reikninga sem skiminn las ekki nógu vel og ýmis önnur gögn athugaði ég með hjálp þessa ómetanlega tækis.

Þegar skimarnir urðu algengir og skimunarhugbúnaður réð við stöðugt fleiri tungumál var þróun ritsjárinnar hætt og nú er hún ekki framleidd lengur.

Í dag tók ég tækið sem Ragnar Magnússon fékk til afnota upp úr töskunni og tengdi það. Þá hafði ég ekki snert ritsjá í 6 ár eða frá því að tækið mitt geispaði golunni. Ég kveikti á tækinu og viti menn! Tækið var í lagi! Suð barst frá nálunum. Ég naði undir eins í bók sem var nærri, ævisögu Kristins á Berg sem Magnús Kristinsson sendi mér og las formála bókarinnar með tækinu. Það var yndisleg tilfinning að skynja aftur kitlandi ertingu nálanna við fingurgóminn og rifja upp að mér gekk jafnan heldur seint að lesa skáletur. Auðvitað er leshraðinn ekki sá sami og áður en tækið er í lagi.:)

Þýska tækið Videotim byggir á sambærilegri tækni og Optacon-tækin. Munurinn er sá að punktarnir eru 250 og flöturinn sem táknin birtast á mun stærri og táknin því nokkru grófari. Nota þarf þrjá miðfingur vinstri handar til þess að lesa það sem myndavélin nemur og krefst það talsverðrar þjálfunar. Þótt videotim-tækið nýhttist mér sæmilega hjá Öryrkjabandalaginu náði ég aldrei jafnmiklum lestrarhraða með því og með gamla optacon-tækinu.

Optacon-tækin opnuðu blindu fólki áður óþekktar leiðir í náms- og atvinnumálum. Framleiddar voru alls kyns linsur fyrir tækið. sumar var hægt að festa við ýmsar tegundir ritvéla og gat þá ritsjárnotandinn lesið yfir það sem hann hafði skrifað og jafnvel leiðrétt. Geta menn ýmyndað sér þá byltingu sem þetta hafði í för með sér í háskólanámi mínu. Við Emil Bóasson, hjálparhella mín, vinur og velgjörðamaður til margra áratuga, notuðum þetta tæki með eftirfarandi hætti<.

Þegar við fengumst við að þýða kínverskt lesefni af ensku yfir á íslensku ræddum við fyrst textann og hófumst síðan handa. Emil las og ég vélritaði. Við tengdum skjá við Optacon-tækið og sá þá Emil hvað vélrituninni leið. Sá hann strax þegar gerðar voru innsláttarvillur og var hægt að leiðrétta þær um leið.

Ég hafði unun af að fylla út ýmiss konar eyðublöð með því að tengja ritvélarlinsuna við tækið. Má nefna að ég fyllti þannig út eyðublaðið vegna manntalsins á 9. áratugnum og fyllti jafnan út úttektareyðublöð þegar ég hugðist næla mér í aura af sparisjóðsbók.Mér fannst tækið auka sjálfstæði mitt að mun.

Ég hef kynst ýmsum nýjungum um dagana svo sem hljóðgleraugum, litaskynjurum, hugbúnaði sem breytir tali í texta, tölvuskimum o.s.frv. Ritsjáin tel ég að hafi komist næst tölvunum og blindraletursskjáunum þegar meta skal hagnýtt gildi tækjanna og þær breytingar sem þau hafa haft á líf mitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband