Verstu hliðar kunningja- og vinasamfélagsins

Umræðan um Landsdóm og ákærur á hendur ráðherrum er orðin fyrir neðan allar hellur. Forsætisráðherra gerði reginmistök með ræðu sinni í gær. Hún kvað í ræðunni upp sinn eigin dóm og í krafti valds hennar yfir Samfylkingunni virðist nú svo sem Samfylkingin fylki sér að baki foringja sínum nær öll. Sjálfstæðisflokkurinn, sem jafnan hefur átt erfitt með að höggva á nokkra hnúta, sem máli skipta og varða hagsmuni flokksins, stendur hjá og bíður átekta.

Það var í sjálfu sér stórmerkur áfangi að rannsóknarnefnd Alþingi skyldi ná einróma niðurstöðu um skýrsluna sjálfa og að 7 af 9 þingmönnum í nefndinni mynduðu meirihluta um að leggja fram ákæru á hendur fjórum ráðherrum. Meiri gat samstaðan vart orðið og því hæpin sú fullyrðing Skúla Helgasonar að skipun nefndarinnar væri eins og hver önnur mistök. Þetta segir Skúli eftir að forsætisráðherra hefur talað.

Lögin um Landsdóm voru síðast endurskoðuð fyrir fáeinum árum og þá þótti Alþingi ekkert að lögunum. Þegar fjármálakerfi Íslendinga brast árið 2008 kom undir eins upp umræðan um Landsdóm og þá þótti það engum óeðlilegt. Hið sama var upp á teningnum þegar tillagan um skipun nefndarinnar var samþykkt. Nú hleypur hins vegar hver um annan þveran fram og finnur dómnum allt til foráttu. Jafnvel skynsamasta fólk birtir yfirlýsingar um brot á mannréttindum, andmælarétt, gamaldags dómsstig o.s.frv og nú síðast forsætisráðherra sem virðist ekki hafa kynnt sér lögin til hlítar.

Það gerist reyndar of oft á Alþingi að þingmenn tjái sig um lög án þess aðhafa kynnt sér efni þeirra og væri auðvelt að telja upp dæmi þar um. En hvað sem öðru líður ríður nú á að Alþingi Íslendinga sýni þjóðinni þá virðingu að þingmenn hætti þessum hráskinnaleik og gleymi ræðu forsætisráðherrans. Þótt Árni Sigurðsson segi að hann hafi ekki litið svo á að málið sé stjórnarmál hlýtur þingflokkur VG að íhuga alvarlega stöðu sína fari svo að þingið felli tillögu meirihluta nefndarinnar.

Jóhanna Sigurðardóttir er margreyndur stjórnmálamaður og kann að leika sér með tilfinningar manna. Ýmsir héldu að hún yrði fær um að koma sér upp úr því fari sem íslenskir þingmenn hafa iðulega farið í og hjakkað í áratugum saman. Það virðist því miður hafa verið byggt á misskilningi. Ræðan í gær bar því vitni.

Alþingi hlýtur að taka nú til alvarlegrar athugunar að breyta þeim aðferðum sem notaðar eru við atkvæðagreiðslur á þinginu. Oft er þörf en nú er nauðsyn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Sammála. VG er hins vegar að undirbúa sig fyrir að kyngja þessu eins og öðru. Það mátti heyra á máli varaformannsins í kvöld. Þetta er ekkert stórmál segir hún.

Jón Baldur Lorange, 21.9.2010 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband