Góður dagur með GPS-leiðsögn

Ég gekk hring um Seltjarnarnesið í dag og fór andsælis, en það hef ég ekki gert áður á eigin spýtur. Ástæðan er sú að kennileiti eru ógreinileg og ég þarf að hafa fyrir því að finna hliðarreinina af stígnum yfir á Suðurströnd.

Ég undirbjó ferðina með því að kveikja á gps-búnaði farsímans og opna Loadstone-leiðsöguforritið sem er sérstaklega hannað handa blindu fólki. Ég ákvað síðan hvaða leiðarpunkta ég léti forritið lesa upp sjálfkrafa og gekk það að mestu eftir. Eftir að ég lagði af stað áttaði ég mig á því að með örvalykli símans var hægt að færa bendilinn á næsta punkt og fylgjast með því hvað ferðinni liði. Með því fékkst mun nákvæmari staðsetning. Þannig fann ég bekk við sjávarsíðuna sunnanmegin og fleiri kennileiti skiluðu sér ágætlega.

Ég fór villur vegar þegar ég beygði yfir Suðurströndina yfir á stíginn fyrir vestan bifreiðastæðið við Bakkatjörn. Þá kom kerfið sér vel. Með því að miða við fjarlægð síðasta punkts og í hvaða átt hann væri áttaði ég mig á villu míns vegar og komst á rétta leið. Eftir það var fátt um punkta framundan. Ég hafði markað hliðarreinina við Suðurströnd og bekk þar nærri. Á leiðinni að Gróttufjöru skráði ég nokkra punkta.

Eftir að ég fór að fylgja Norðurströndinni birti síminn fljótlega upplýsingar um að bekkurinn við Suðurströnd (hefði átt að merkja hann öðruvísi) væri 1,7 km framundan. Á leiðinni fann ég fleiri bekki og skráði þá í gagnagrunninn. Þegar ég fann síðasta bekkinn voru enn 300 m að bekknum v. Suðurströnd og bar ég þá brigður á hæfni forritsins því að ég hélt að ég væri komin nær Suðurströndinni. En viti menn. Ég hélt áfram að nálgast áður nefndan bekk og þegar 20 metrar voru eftir að honum gerði tækið mér viðvart. Ég hreyfði nú örvalykilinn, fékk nákvæma staðsetningu og fann bekkinn. Forritið hélt því fram að 3 m væru eftir að bekknum en hann var þá þar. Þá minntist ég þess að ég hafði staðið við austurenda hans þegar ég skráði hnitið.

Hliðarreinina fann ég síðan. Ég komst slysalaust yfir Norðurströndina og að umferðarljósunum á mótum Suðurstrandar og Nesvegar. Mikið er bagalegt að ekki skuli vera þar hljóðljós. En yfir álpaðist ég, síðan yfir Nesveginn en var þá eitthvað annars hugar og rak mig rækilega á ljósastaurinn. Var það mjög hressandi.

Ég var með lítið heyrnartól í vinstra eyranu og hlustaði á símann greina frá punktunum. Eiginlega þyrfti ég að fá mér lítinn hátalara sem ég gæti tengt við farsímann, hengt um hálsinn og hlustað á. Þá tapaði ég ekki hluta umhverfishlustunarinnar.

Ég hlustaði í dag óvenju grannt eftir ýmsum kennileitum og varð margs vísari. Kyrrðin var svo mikil að ég heyrði hvar baðskýlið er sem sjóhundar nota og fleira skynjaði ég eins og hákarlahjallinn v. Norðurströnd. Engan fann ég þó ilminn.

Nokkrar lóur skemmtu mér með vetrar- eða haustsöng sínum en krían greinilega farin veg allrar veraldar suður á bóginn. Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér Loadstone-forritið skal bent á síðuna

www.loadstone-gps.com/

Þegar heim kom las ég tölvupóstinn og þar á meðal þessa vísu frá Birni Ingólfssyni, leirskáldi á Grenivík:

Í andkuli haustsins þá uni ég mér,

og alveg er stemningin mögnuð,

þegar spóinn er hættur að hreykja sér

og helvítis lóan er þögnuð.

Ég stóðst ekki mátið og svaraði með þessu hnoði:

Lóuþvarg ei þagnað er,

það er fjör við sjóinn.

Gekk ég út að gamna mér,

þá gargaði ekki spóinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Sérlega athyglisverð umfjöllun um tækniundur sem nýtist með mjög margvíslegum hætti.

Flosi Kristjánsson, 25.9.2010 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband