Gönguferðir í dag og GPS

Í dag fórum við Elín gangandi meðfram sjónum í átt að JL-húsinu. Ég notaði mér gönguleiðsögnina í OVI-kortunum og taldi tækið niður fjarlægðina aðhúsinu þar til um 10 m voru eftir að innganginum við Nóatún. ekki svo slæmt.

Við fórum krókaleiðir heim, þræddum göngustíga til þess að njóta næðisins. Þá vissi leiðsögumaðurinn hvorki í þennan heim né annan fyrr en við komum að Kolbeinsmýrinni. Þá áttaði tækið sig og greindi frá fjarlægð að Tjarnarbóli 14.

Í kvöld gerði ég aðra tilraun. Ég leitaði að tilteknu heimilisfangi við Nesveg, stillti tækið á talandi leiðsögn og lagði af stað út í myrkrið. Enskkumælandi kona í tækinu sagði mér að ég ætti 650 metra ófarna að ákvörðunarstað og síðan tók talgervillinn að telja niður. Ég ákvað að stríða ensku konunni og beygði inn Sörlaskjól. Þá þagnaði allt.

Ég sneri við og skráði inn heimilisfang mitt. Var mér þá sagt að ég væri fyirr utan Sörlaskjól 17 og ég skyldi halda í norðvestur. Ég gerði það. Vart var um aðra átt að ræða. Eftr nokkra stund var mér sagt að Nesvegur væri 60 metra í burto og þar ætti ég að beygja til vinstri. Þegar ég var rétt kominn að horninu var mér sagt að beygja.

Eftir nokkra stund var mér skipað að beygja inn Tjarnarstíginn þegar nær drægi og þegar þar að kom vildi tækið að ég færi þá leið og inn Tjarnarbólið. Ég þrjóskaðist við og hélt áfram meðfram Nesveginu. Tækið reyndi í tvígang að reikna út leiðina að nýju en tókst ekki. Akstursleiðsögnin hefði sagt mér að taka U-beygju og halda 200 metra í áttina sem ég kom úr og fara síðan inn tjarnarbólið. Jafnvel hefði tækið átt til að segja mér að halda áfram svo sem 100 metra í viðbót, taka þar U-beygju og aka síðan 300 metra til baka o.s.frv.

Gönguleiðsögnin í OVI-búnaðinum er fýsilegur kostur. Fróðlegt verður að kanna hvernig hún gefst á hinum ýmsu leiðum. Tékkneskur notandi Mobilespeak-búnaðarins, sem er í prófunarhópnum, fór einn síns liðs á gistihús sem hann leitaði uppi og fann það. Einungis þurfti hann að spyrja til vegar þegar hann var í þann mund að verða kominn að hótelinu.

Þegar hann fór aftur heim á leið leitaðihann uppi strætisvagnastöð, en lenti í villum. Búnaðurinn hélt honum þó það vel við efnið að hann áttaði sig og gat spurst til vegar. Ég veit að ýmsir, sem eru blindir og hugrakkir, skemmta sér konunglega við þess háttar tilraunir. Jafnvel ég, sem hef aldrei verið sérstaklega hugrakkur, brenn í skinninu að takast á hendur einhvern leiðangur út í óvissuna. Hættan er einungi sú að umhverfinu í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu hefur verið spillt svo mjög að það er að verða stórhættulegt blindu fólki að ferðast um eitt síns liðs. Ég hlýt að finna verðugt verkefni þar sem ég kemst hjá því að fara mér að voða.

GPS-tæknin í þágu blindra er mikið framfaraspor. Það á jafnt við um OVI-kortin og Loadstone-búnaðinn sem ritað hefur verið um á þessum síðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband