Byltingarkennd GPS-tækni í þágu blindra og sjónskertra

Í dag kom út útgáfa 4,6 af forritinu Mobile Speak (Farsímatali) sem spænska hugbúnaðarfyrirtækið Code Factory framleiðir. Mobile Speak er hugbúnaður sem birtir upplýsingar í farsímum með tali, stækkuðu letri eða blindraletri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hugbúnaðurinn var þýddur á íslensku fyrir 6 árum og hefur verið unnið að þýðingu viðbóta æ síðan.

Þessi nýja útgáfa Mobile Speak er merkileg fyrir þær sakir að hún gerir Ovi-kortin frá Nokia aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Flest mikilvægustu atriðin, sem í boði eru, hafa verið gerð aðgengileg. Hægt er að leita að ýmsum þjónustuflokkum s.s. veitingastöðum, samgöngumannvirkjum, verslunum o.s.frv. Hver og einn getur sett inn sína uppáhaldsstaði, leitað að fyrirtækjum, húsnúmerum o.s.frv. Þá er bæði göngu- og akstursleiðsögn í forritinu. Röddin, sem Nokia býður, er enn ekki á íslensku og er því framburður sumra nafnanna dálítið undarlegur: Sudurlandsbrát. En íslenska talið, sem birtir þær upplýsingar sem notandinn sér á skjánum, vegur upp á móti þessu því að þar eru allar upplýsingar lesnar á íslensku og framburður götuheitanna eðlilegur.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum var mér boðið að vera með í alþjóðlegum reynsluhópi sem prófaði Ovi-kortin og ýmislegt annað. Árangurinn hefur verið undraverður. Ég hef nýtt mér leiðsögnina á ferðum mínum með strætisvögnum og hef jafnan getað fylgst með því hvar ég er staddur hverju sinni. Á göngu minni til og frá vinnustað hef ég öðru hverju þurft að átta mig á því hvar ég væriog ekki bregst búnaðurinn. Þó verður að gjalda vara við að treysta honum í blindni. Í gærkvöld gerði ég eftirfarandi tilraun:

Ég ákvað að leita að húsinu nr. 54 við Sörlaskjól, en húsbondinn á því heimili, Flosi Kristjánsson, er einn þeirra sem lýst hefur áhuga sínum á þessum GPS-tilraunum sem ég hef gert að undanförnu. Þegar ég nálgaðist húsið kom í ljós að forritið gaf upp allt aðra fjarlægð en við hjónin töldum að væri rétt. Virtist sem staðsetning hússins ruglaði eitthvað kerfið í ríminu, hverju sem það er að kenna.

Fleir annmarka gæti ég nefnt, en þar er ekki við blindrahugbúnaðinn að sakast heldur ónákvæmni skráninga í gagnagrunninum. En víða á höfuðborgarsvæðinu er skráningin svo nákvæm að vart skeikar nema nokkrum metrum. Þá er auðvelt að treysta á búnaðinn og fylgjast með því yfir hvaða götur er farið. Aðeins þarf að styðja á einn hnapp og les þá Farsímatalið upp heiti þeirrar götu sem farið er yfir. Menn geta einnig horft í kringum sig með stýripinna símans og kannað hvaða gata liggur til hægri eða vinstri, þegar komið er að gatnamótum.

Á því er ekki nokkur vafi að þessi búnaður á eftir að nýtast mörgu blindu og sjónskertu fólki hér á landi og auka að mun sjálfstæði þess og öryggi. Ég tel þetta með því merkasta sem ég hef séð á þeim 36-40 árum sem ég hef fylgst með hjálpartækjum blindra og sjónskertra.

Að lokum skal þess getið að hugbúnaðinum fylgir einnig litaskynjari. Þá er myndavél símans beint að því sem skoða á og tekin mynd. Greinir hugbúnaðurinn þá frá lit ess sem myndað var. Einnig er hægt að athuga birtustig.

Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér þessa tækni, er bent á skjalið „find your way with Mobile speak 4.6 sem fylgir þessari færslu.

Örtækni hefur umboð fyrir Mobile speak.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Halldór Einarsson

Þetta eru frábærar fréttir Arnþór. Hafðu kærar þakkir fyrir þinn veigamikla þátt í þessu verkefni. Ég á öruggleega eftir að skoða þetta vel, þar sem ég hef orðið takmarkaða ratsjón.

Kristinn Halldór Einarsson, 24.11.2010 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband