Andvaraleysi og ófarir

Sitthvaðhefur borið til tíðinda að undanförnu og hef ég orðið fyrir tvenns konar hremmingum, misskemmtilegum.

Á fimmtudaginn var hélt ég gangandi frá Hlemmi í átt að Nóatúni 17. Veðrið var þokkalegt, næstum logn en örlítill vestan ískaldur andvari.

Eitthvað var ég annars hugar og sté í ógát út af gangstéttinni. Það kom svo sem ekki að sök en ég rauk upp á gangstéttina aftur og uggði ekki að mér. Skeytti ég engu um umferlisreglur sem ég hef kunnað í nokkra áratugi og hlaut árangur erfiðis míns. Varð fyrir mér ljósastaur og móttökurnar heldur óblíðar. Við höggið fann ég að vökvi seytlaði niður andlitið og taldi óvíst að ég gréti. Brátt leyndi sér ekki að blóð hljóp úr nösum mér og varð vasaklútur minn gegndrepa þegar ég þerraði það af mér. Sem betur fór hafði ég meðferðis heilmarga pappírsklúta og þarraði blóðið þar til rennslið stöðvaðist að mestu. Þá var hringt á leigubíl. Kom sér þá vel að hafa staðsetningartækið því að ég gat sagt símastúlku Hreyfils hvar ég væri staddur.

Ekki þarf að spyrja að því að heimleiðis hélt ég og þvoði þar almennilega framan úr mér.

Í morgun varð ég fyrir annarri reynslu sem kom þó ekki að sök og skaðaði hvorki sjálfan mig né aðra. Í vagninum sem ég ferðaðist með var ekkert leiðsagnarkerfi. Herdís, mágkona mín, hefur greinilega gleymt að tilflytjast í þann vagn en væntanlega stendur það til bóta. Ég leitaði uppi áfangastað með aðstoð símans og OVI-búnaðarins. En nú brá svo við að síminn missti hvað eftir annað samband við gervitungl og varð leiðsögnin eftir því kolröng. Hélt ég að eitthvað væri að og prófaði því tækið eftir að ég fór út úr strætisvagninum. Reyndist þá allt vera með felldu.

Mönnum er að vísu tekinn vari v ið að treysta um of á GPS-leiðsögn innan borga. Ég hef þó ekki reynt það fyrr en í dag að sambandsleysið væri slíkt að leiðsögutækið vissi vart sitt rjúkandi ráð. Velti ég fyrir mér hvort skýringarinnar sé að leita í því að ég sat í fremsta farþegasæti hægra megin. Fyrir framan mig var einhver tækjakassi sem kann að hafa truflað tækið. Gæti veðrið hafa skipt máli? Þoka var á og ímynda ég mer að lágskýjað hafi verið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leiðsögutæki sem þetta missa oft allar áttir í þrútnu lofti og rigningu. Þar ræður nokkru stæðr og umfang loftnets. Í snjómuggu sjá þau oft ekkert betur en við.

Emil (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 03:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband