Eiga öryrkjar baráttusamtök?

Um þessar mundir eru 25 ár liðin síðan stjórnvöld ákváðu að skerða framkvæmdasjóð fatlaðra um 64 milljónir króna, úr 160 milljónum í 96 milljónir. Nýr formaður hafði þá nýlega tekið við hjá Öryrkjabandalagi Íslands og svo stóð einnig á hjá Landssamtökunum Þroskahjálp.

Þessi tvö samtök brugðust hart við og settu af stað svokallað byltingarráð. Efnt var til funda með stjórnmálamönnum og farið á alla vinnustaði fatlaðra til þess að stappa í fólk stálinu. Mikil stemmning náðist og var haldin vaka á Hótel Borg, þar sem menn báru saman bækur sínar. Steingrímur Hermannsson tók síðan við kröfum samtakanna á Austurvelli og í loftinu lá framboð, mun betur og alvarlegar hugsað en nokkru sinni fyrr og síðar af þessum samtökum. Svo fór að Alþigi hvarf að hluta frá þessari skerðingu.

Nú ætlar ríkisstjórnin enn að skerða hlut öryrkja og aldraðra ásamt bótum til handa atvinnulausu fólki. Ekki stendur til að hækka bætur til jafns við laun á almennum markaði. Þetta er þekkt aðferð íslenskra stjórnvalda allra tíma og hefur iðulega leitt til þess að fatlað fólk hefur festst í harðari fátækragildru eftir því sem árin hafa liðið.

Nú heyrist fyrst og fremst frá Alþýðusambandinu, en frá samtökum fatlaðra heyrast einungis veiklulegar bókanir og fatlaðir forystumenn þeirra treystast ekki til þess að ganga fram fyrir skjöldu og verja hag umbjóðenda sinna.

Þarf forysta samtakanna ekki að hugsa sinn gang?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband