Þingheimur hefur lítið lært og fáu gleymt

Alþingi hefur ekkert lært og engu gleymt og hugsýnin um nýtt og betra Ísland víðs fjarri á vettvangi þingsins.

Atburðirnir kringum stjórnarskrárbreytingar eru stjórn og stjórnarandstöðu til háborinnar skammar. Þar er enginn öðrum skárri. Stjórnarandstaðan (aðallega Sjálfstæðisflokkurinn) hamast gegn breytingum og stjórnarmeirihlutinn leggur í dóm þjóðarinnar lítt grundaðar tillögur.

Klækjabrögðum hefur svo sem verið beitt fyrr á Alþingi vegna mála, sem skiptu hvorki íslenskt efnahagslíf, hagsmuni almennings né menningu og orðstír þjóðarinnar neinu máli.

Árið 1974 talaði Sverrir Hermannsson klukkutímum saman á Alþingi til þess að reyna að hindra að bókstafurinn z yrði felldur úr íslenskri stafsetningu.

Árið 2000 í upphafi árs neitaði stjórnarandstaðan að fallast á afbrigði til þess að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar gæti ekki þjösnað hefndarlögum gegn Öryrkjabandalagi Íslands gegnum þingið með forgangshraði.

Nokkrum árum síðar gekk stjórnarandstaðan af göflunum vegna fjölmiðlalaganna og forsetinn synjaði þeim staðfestingar.

Vorið 2007 þvældist Sjálfstæðisflokkurinn fyrir, þegar reynt var að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar og gera kvótann að viðurkenndri sameign þjóðarinnar. Var það að vonum, bæði vegna andstöðu við breytingar á sviði sjávarútvegs og hins, að tillögur formanns Framsóknarflokksins mátti auðveldlega hártoga og misskilja, eins og rakið var á þessum síðum.

Og enn beitir stjórnarandstaðan, aðallega Sjálfstæðisflokkurinn, bolabrögðum, málþófi og vífilengjum til þess að koma í veg fyrir að tillögur ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga.

Stjórnarmeirihlutinn ber því fyrir sig að ekki hafi tekist að fjalla nægilega vel um tillögur Stjórnlagaráðs, þar sem of mikill tími hafi farið í að fjalla um tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins um að aflýsa málinu gegn Geir Haarde. Málflutningur stjórnarliða var oft með eindæmum í rökfimleikum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og greinilegt að sumir, sem hæst töluðu og mest, höfðu aldrei kynnt sér, hvort hægt sé að afturkalla málshöfðun. Þótt málatilbúnaður Sjálfstæðisflokksins hefði ekki komið til, var umfjöllun Alþingis öll í skötulíki um stjórnarskrárdrög Stjórnlagaráðs. Án þess að farið verði nánar í saumana á skjalinu, verður því þó hiklaust haldið fram hér á þessum vettvangi, að það sé vart boðlegt sem stjórnarskrá landsins. Þótt ýmislegt sé þar til bóta er annað þannig orða að til vansa er og greinilegt að tíminn hefur verið of skammur. Þingið á því talsvert verk fyrir höndum, áður en hægt verði að leggja drögin fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

Niðurstaða þessa pistils er sú, að Alþingi hafi í raun verið of upptekið af málþófi, fánýtu gaspri um einskis verða hluti og hjaðningarvígum, sem hafa leitt til þess að við erum enn í megnum ógöngum, sem sér vart fram úr. Ýmis þjóðþrifamál lenda í undandrætti vegna þess að sérhagsmunagæðinga hafa svo sterk ítök innan stjórnmálaflokkanna, að öllum brögðum er beitt til þess að koma í veg fyrir breytingar, sem hnekkja stöðu ´þeirra. Á Alþingi ríkir samræða hefnda en ekki lausnamiðuð nálgun verkefna.

Alþingismenn þurfa nú að taka höndum saman og fara rækilega yfir þá samræðuhefð, sem ríkir innan þingsins. Ef fyrirtækjum eða félagasamtökum væri stjórnað með málatilbúnaði eins og þeim, sem ríkir innan þingsins, þokaði litlu áfram.

Er nema von, að vegur þingsins sé lítill á meðal þjóðarinnar. Ætli sami söngurinn hefjist ekki eftir páska, þegar kvótafrumvarpið verður rætt, engar haldbærar tillögur, heldur upphrópanir og hagsmunagæsla? Er ekki mál að linni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband