Yndislega eyjan mín 40 árum síðar

Tónleikarnir, Yndislega eyjan mín 40 árum síðar, sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu í kvöld, voru vel heppnaðir. Flestir söngvararnir komu ánægjulega á óvart. Nefni ég einkum Sigríði Beinteinsdóttur, Margréti Eir, Magna Ásgeirsson og Þór Breiðfjörð. Enginn vissi hvað kynnirinn hét því að hann var hvorki kynntur í efnisskrá né kynnti hann sig sjálfur. Hann stóð sig þó með prýði.

Margar útsetningar Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar voru ágætar og hljóðblöndunin yfirleitt góð. Þó fór styrkurinn nokkrum sinnum yfir þolmörk vinstra eyra á sjötugsaldri.

Það var áberandi hvað textar laganna voru vel ortir. Af yngri textunum skáru sig úr Kvöldsigling, tvö lög Stuðmanna og Þjóðhátíðarlagið 1997. Verstu textar kvöldsins voru Vestmannaeyjar, lag og ljóð eftir Jóhann G. Jóhannsson. Þar er nafnið Vestmannaeyjar haft í eintölu og þótti mér, þegar lagið kom út á hljómplötu 1977 með ólíkindum að Logar skyldu syngja þetta. >Þá hafði verið efnt til ljóðasamkeppni í tilefni tónleikanna og var ljóð valið, sem ort var árið 1977. Þar var ekki fylgt hefðbundnum reglum ríms og ljóðstafa. Auk þess voru ambögur í ljóðinu, sem hefði átt að lagfæra, einkum í ljósi þess að sú sem setti saman ljóðið, var 19 ára árið 1977 og hefur væntanlega farið fram síðan. Ljóðið sýndi í hnotskurn þær hrakfarir sem íslensk textagerð hefur orðið að sæta að undanförnu.

Í lok tónleikanna var sungið lag Brynjúlfs Sigfússonar við kvæði Sigurbjörns Sveinssonar, Yndislega eyjan mín. Lagið var upphaflega ætlað Samkór Vestmannaeyja, en um tíma voru í kórnum miklar sópranraddir. Í kvöld var lagið sungið í B-dúr. Betur hefði farið á að færa það niður í G-dúr. Þá hefðu fleiri getað tekið undir.

Aðstandendum tónleikanna er þökkuð góð skemmtun og flytjendum afbragðs flutningur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband