Augnstungið útvarp - alvarlegur áburður

Rás eitt er sem augnstungið hús. Það er eins og einhver hafi vaðið um með sleggju eða grjót og brotið og bramlað.

Þær sögur fóru fjöllunum hærra, þegar núverandi útvarpsstjóri var ráðinn, að hlutverk hans yrði að draga saman stofnunina og sjá til þess að hún yrði eyðilögð. Þetta er þungur áburður en ekki úr lausu lofti gripinn. Með aðgerðum sínum hefur útvarpsstjóri rofið ákveðið samhengi í sögu stofnunarinnar. Slíkt rof er eins og flóð sem enginn ræður við og sópar burtu með sér ómetanlegum verðmætum. Þótt hann haldi því fram að tillögurnar hafi komið frá millistjórnendum er deginum ljósara að hann hafði hvorki þekkingu né reynslu til þess að meta afleiðingarnar.

Þegar litið er yfir þann hóp sem hefur verið látinn hætta hjá Ríkisútvarpinu vekur athygli að engar faglegar ástæður virðast liggja að baki uppsögnunum. Engin stefnumarkandi umræða virðist hafa farið fram um afleiðingarnar. Það er eins og blindur þurs, skini skroppinn, hafi vaðið um, brotið og bramlað það sem fyrir varð.

Stjórnvöld bera einnig sína ábyrgð. Nú virðist Sjálfstæðisflokkurinn loksins hafa komist í þá aðstöðu að ná tangarhaldi á öllum stærstu fjölmiðlum landsins og Framsóknarflokkurinn fylgir með. Fjármagnið skal ráða en ekki þjóðarheill.

Margir Íslendingar hneykslast mjög á þeim ríkjum sem búa við stjórn eins flokks. Sumir þegnar eins flokks ríkja undrast hins vegar óstöðugleikann sem fylgir lýðræðinu. Hér á landi tekst sjaldan að móta framtíðarstefnu í nokkru máli. Ástæðan er sú að algjör kúvending verður með nýrri ríkisstjórn, hafi fyrri stjórn beðið ósigur. Þrátt fyrir kosti lýðræðisins eru annarkarnir þeir að agaleysi og skammsýni, sem byggja á þröngum hagsmunum, hamla nauðsynlegum breytingum til batnaðar.

Umræðuhefðin á Alþingi ber þessu glöggt vitni. Þar eru sjaldan stundaðar umræður heldur átök. Nú ræður fjármagnið mestu og tveir stærstu fjölmiðlar landsins, Morgunblaðið og 365 miðlar eru í eigu þess. Í þessu umhverfi er öflugt ríkisútvarp nauðsyn, öflugt útvarp sem getur veitt samfélaginu samtímis öflugt aðhald og góða þjónustu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband