Hverjir lifa í myrkri?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.

Um daginn fylgdi ég einum af mínum bestu vinum til grafar, en órofavinátta okkar stóð rúma hálfa öld. Þessi góðvinur minn var blindur frá því að hann var 10 ára gamall, en um leið og hann missti sjónina missti hann einnig hægri höndina. Presturinn flutti notaleg minningarorð. Þó varð honum á í messunni.

Hann vitnaði í orð Krists um að menn skyldu njóta ljóssins á meðan það væri á meðal þeirra. Út frá þessum orðum Jóhannesar guðspjallamanns talaði hann um það myrkur sem hinn látni hefði orðið að sætta sig við og ljósið sem hann var sviptur, þótt hann hefði jafnan horft björtum augum til framtíðarinnar.

Þessi vinur minn lifði ekki í neinu myrkri fremur en flestir þeir sem hafa verið án sjónar árum saman. Þeir, sem eru fæddir blindir, vita þar að auki ekki hvað myrkur er. Prestum gengur yfirleitt gott eitt til þegar þeir flytja líkræður og þær eru einkum ætlaðar til að lina sársauka og sorg eftirlifenda. Þess vegna er það í hróplegu ósamræmi að gera líkingar Biblíunnar að beinhörðum staðreyndum sem ekki standast nánari skoðun.

Hugsið ykkur þann sem lifir í eilífu myrkri. Sá sem á enga von um að myrkrinu linni lítur vart glaðan dag og myrkrið leggst af ofurþunga á sálina. Sá sem sér ekki lifir í tómi. En þetta tóm fylla ýmis hughrif. Hinn blindi lærir að beita öðrum skilningarvitum svo sem heyrn og veit því einatt ýmislegt um sitt nánasta umhverfi, sem sjáandi fólk fer á mis við, því að það nýtir ekki heyrnina sem skyldi. Sá, sem eitt sinn hefur séð, man liti og lögun hluta, tunglskin, sólarupprás og sólsetur, já, litbrigði himinsins í öllu sínu veldi, flug fugla og lögun þeirra. Allt þetta mundi vinur minn og lýsti eitt sinn fyrir mér flugi hrossagauksins þegar hann lætur þjóta í fjöðrunum. Þess vegna minnast margir, sem hafa lengi verið blindir, daganna í samræmi við veðrið eins og það var hverju sinni. Ef til vill fundu menn ylinn frá sólargeisla gegnum stofuglugga snemma í febrúar og áttuðu sig á því í minningunni, að þá var úti fagurt vetrarveður og sól farin að hækka á lofti.

Höfundur þessa pistils væntir þess að hinn ágæti prestur, sem jarðsöng vin minn hugsi sig tvisvar um áður en hann umlykur blint fólk myrkri sem það brýst út úr með vongleði sinni. Blint fólk lifir ekki í myrkri og allt tal um sérstaka innri sjón blindra er hjóm eitt. Hver sá, sem er sjáandi eða blindur, fer mikils á mis, hafi hann ekki innri sjón, sem gefur honum sýn á umhverfi sitt og málefni líðandi stundar.

Höfundur fæddist sjóndapur og var létt, þegar honum hvarf sín stöðugt þverrandi sjón.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband