Morgunblaðið tekur til varna

Þegar Öryrkjabandalag Íslands átti í sem mestum átökum við ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skipaði Morgunblaðið sér á bekk með Öryrkjabandalagi Íslands. Því báru vitni nokkrir leiðarar blaðsins.

Enn skrifar ritstjóri Morgunblaðsins leiðara til stuðnings Öryrkjabandalagi Íslands og réttindum fatlaðra.

 

“Íslensk stjórnvöld undirrituðu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007. Undirskrift jafngildir skuldbindingu um að virða réttindin, sem kveðið er á um í sáttmálanum og ganga ekki gegn honum. Samningurinn hefur hins vegar ekki verið innleiddur hér á landi fyrr en hann hefur verið fullgiltur eða lögfestur.

Öryrkjabandalag Íslands hélt í fyrradag ráðstefnu undir yfirskriftinni Mannréttindi fyrir alla. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, segir mikilvægt að samningurinn verði lögfestur. Stjórnvöld hafi ætlað að festa samninginn í lög í fyrra, síðan á þessu ári, en nú hafi því verið frestað til næsta árs.

Ellen tekur í samtali í Morgunblaðinu í gær túlkaþjónustu sem dæmi um að réttindi fatlaðra séu ekki tryggð. Nánast sé árvisst að heyrnarlausir fái ekki túlkaþjónustu þegar líður á haust vegna þess að opinberar fjárveitingar séu uppurnar. Hún telur að innleiðing myndi breyta þessu.

Barátta fatlaðra fyrir réttindum sínum hefur verið löng og ströng. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra gegnir lykilhlutverki í að knýja fram viðhorfsbreytingu þannig að hætt verði að líta á fatlaða sem málstað fyrir góðgerðarstofnanir og verkefni fyrir heilbrigðis- og félagsþjónustu og tryggt verði að þeir njóti sannmælis sem fullgildir þjóðfélagsþegnar og búi við þau réttindi sem því fylgja.

Undirritun sáttmála Sameinuðu þjóðanna var mikilvæg og nú er rétt að stíga skrefið til fulls með því að fullgilda hann.”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband