Orð í tíma töluð - Styrmir Gunnarsson við nýársguðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju

Við messu í Seltjarnarneskirkju í dag flutti Styrmir Gunnarsson, ritstjóri, athyglisverða hugvekju. Greindi hann m.a. galla þess og kosti sem fámennið á Íslandi hefur í för með sér. Sagði hann að bankahrunið 2008 mætti m.a. rekja til þess.
Kosti fámennisins taldi hann vera nálægð fólks hvert við annað. Rakti hann hvernig Íslendingar ættu að geta nýtt fámennið til þess að efla ýmsa samfélagsþætti. Í ræðunni fjallaði hann um ýmsa hópa sem standa höllum fæti í samfélaginu og taldi upp nokkur atriði sem betur mætti fara. Fullyrti hann að ókostir íslensks samfélags væru grimmd og eigingirni (túlkun höfundar). Nefndi hann að fangelsun væri sennilega úrelt ráðstöfun samfélagsins og að létta þyrfti margvíslegri leynd af ýmsum þáttum eins og drykkjusýki og geðsýki, sem hefðu djúpstæð áhrif á aðstandendur. Hvatti Styrmir til frekari stuðnings í þeim efnum og afnáms fátæktar, sem væri sýnilegri í íslenska fámenninu en á meðal milljónaþjóða.
Líklegt er að hin skarpa greining ritstjórans hafi hreyft við þanka þeirra sem hlýddu ræðunni. Neikvæð umræða, órökstuddar fullyrðingar og sleggjudómar eru sennilega verstu óvinir íslensku þjóðarinnar. Megi þetta ár verða Íslendingum gott til vitrænnar umræðu og rökstuddra ályktana um hvað eina sem ber á góma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband