Íslendingar eru hálgerðir afturkreistingar í aðgengismálum á flestum sviðum!

Stundum finnst mér Íslendingar standa sig sæmilega í aðgengismálum, en iðulega vakna ég upp við vondan draum.
Nú hefur tvennt orðið á vegi mínum sem veldu mér undrun.
1. Fyrir skömmu var mér bent á dýrðarforrit sem gerir sjónskertu og blindu fólki kleift að lesa pdf-skjöl. Ég keypti það eftir dálitla prófun og varð ekki fyrir vonbrigðum fyrr en ég náði í pdf-útgáfu Fréttablaðsins. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli setur blaðstjórnin einga hausa eða önnur leiðarmerki inn í þessa útgáfu og verður maður því að skruna gegnum allt blaðið. Er Fréttablaðið ætlað sumum en ekki öllum?

2. Í dag fórum við á Listasafn Einars Jónssonar. Að vísu er ég orðinn löngu leiður á söfnum og hef reyndar aldrei jafnað mig almennilega á þeim eftir fyrstu ferð mína í Þjóðminjasafnið á 7. áratug síðustu aldar.
Mig furðaði á aðgengi að listasafninu. Klöngrast þarf upp tröppur að aðalinganginum. Þar er ekkert handrið að styðjast við. Inngangur, sem er bakdyramegin, væri auðveldlega breytanlegur svo að hentaði fólki í hjólastól eða með skerta færni.
Þegar inn í safnið er komið eru stigar upp og ofan en engin lyfta. Nú minnist ég þess að hafa heyrt og lesið um endurbætur á húsnæði safnsins. Er það samkvæmt stefnu eiganda þess, sem er væntanlega Reykjavíkurborg, að safnið eigi að vera aðgengilegt sumum en ekki öllum?
Íslendingar eru miklir eftirbátar í aðgengismálum á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað.
Ég sat einu sinni í norrænni f´dómnefnd um aðgengi að söfnum, það var rétt eftir aldamótin. Þá var ekkert íslenskt safn svo aðgengilegt að ástæða væri til að veita því aðgengisverðlaunverðlaun. Félagar mínir í nefndinni töldu þetta ófært og lögðu til að stofnaður yrði nýr flokkur vegna umbóta sem hefðu leitt til takmarkaðs aðgengis. Ég taldi það af og frá og hlaut talsverðar ákúrur forstöðumanna listasafna hér á landi fyrir.

Sagt var: "Ef þið gerið of miklar kröfur fáið þið engu framgengt."

Nú er vitað að víðs vegar um heim eru gerðar smávægilegar breytingar á fornum byggingum til þess að þær verði aðgengilegar. Hús eru yfirleitt þannig gerð að unnt er að laga sitthvað að kbreyttum kröfum. Sums staðar hefur tekist vel í slíkum málum hér á landi en vanrækslan er æpandi áberandi víða.

Hvaða flokkur í borgarstjórn Reykjavíkur ætli hafi aðgengismál á sinni könnu, Sjálfstæðisflokkurinn eða sósíalistaflokkurinn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband