Vandræði stjórnmálahreyfinga

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, hefur ritað athyglisverða pistla í helgarblað Moggans undanfarna mánuði. Hér er birtur pistillinn frá 21. júlí með leyfi höfundar.

 

Ráðstefna Ögmundar Jónassonar gæti orðið upphafið að endurnýjun vinstri hreyfinga

 

Sl. þriðjudag var haldin ráðstefna fyrir fullu húsi í Norræna húsinu um þá spurningu hvort við þyrftum að endurskapa samfélagið. Vegna erlendra fyrirlesara fór ráðstefnan fram á ensku og á þeirri tungu var spurningin sem leitað var svara við þessi: „Do we have to reinvent society?“

Það var Ögmundur Jónasson, fyrrum þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, sem efndi til þessa málþings í tilefni af sjötugs afmæli sínu þann dag. Hann sagði mér að þetta yrði „mjög rauð ráðstefna“, sem vakti áhuga minn á að hlýða á það sem fram mundi fara.

Hvað skyldi vera að gerast á meðal vinstri manna um þessar mundir?

Nú á tímum, þegar lítið er um umræður og skoðanaskipti um meginmál í þjóðfélagsmálum, er slíkt framtak einstaklings til mikillar fyrirmyndar. Á starfsvettvangi stjórnmálaflokkanna er orðið ótrúlega lítið um slíkar umræður.

Á afmælisráðstefnu Ögmundar voru nokkrir erlendir fyrirlesarar og þótt þeir hafi komið víða að má segja að meginþráður í gagnrýni þeirra á það sem liðið er hafi ekki bara snúið að því sem hér er kallað nýfrjálshyggja, heldur líka á þá jafnaðarmenn sem undir merkjum „New Labour“ og Tony Blair, þáverandi leiðtoga brezka Verkamannaflokksins, hafi nánast gengið til liðs við þá sem aðhylltust þá hugmyndafræði.

Allyson Pollock læknir var í hópi fyrirlesara, en hún hefur gengist fyrir lögsókn á hendur brezkum stjórnvöldum vegna einkavæðingar heilbrigðisþjónustunnar. Einn af samstarfsmönnum hennar í því verkefni var hinn heimsþekkti Steven Hawking, sem nú er látinn. Brendan Martin veitir forstöðu hugveitu sem nefnist Public World. Þá var þarna þýzkur járniðnaðarmaður, Jurgen Buxbaum, sem síðar öðlaðist háskólamenntun, og John Holloway, sem er prófessor við háskóla í Mexikó. Kúrdar áttu sinn fulltrúa á ráðstefnu Ögmundar, sem var Havin Guenser, sem kynnti nýjar þjóðfélagshugmyndir í þeirra röðum. Loks var í þessum hópi Vicente Paolo Yu, sem kemur að alþjóðastarfi verkalýðsfélaga.

Eins og sjá má var hér vandað mjög til verka. Í upphafi spilaði Vladimir Stoupel á flygil og jafnframt léku tvær ungar stúlkur, Danielle Angelique og Gabrielle Victoria, á fiðlur.

Á margan hátt má segja að Ögmundur sjálfur hafi flutt athyglisverðustu ræðuna í upphafi. Hann lýsti þeirri skoðun að stjórnmálaheimurinn væri að fjarlægjast grasrótina og jafnvel verkalýðshreyfingin líka. Hann vísaði með skemmtilegum hætti í Sölku Völku og átök hennar við Bogesen, sem átti allt í þorpinu en hann hefði þó vitað hvað þar var að gerast. Bogesenar okkar tíma hafa yfirgefið þorpið, sagði Ögmundur, og vita ekki lengur hvað þar er á ferð.

Getur verið að þetta séu líka örlög stjórnmálamanna okkar tíma, að þeir sjái „þorpið“ ekki lengur og viti þess vegna ekki hvað þar er að gerast?

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var í hópi fyrirlesara og setti fram athyglisverða gagnrýni á viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við Hruninu. Hún lýsti þeirri skoðun að í stað þess að nota tækifærið og beita sér fyrir breytingum hefði verkalýðshreyfingin tekið þátt í því eftir Hrun að endurreisa það samfélag sem var. Það var ljóst af viðbrögðum fundarmanna að þetta sjónarmið náði sterklega til þeirra.

Ekki er ólíklegt að þarna hafi talað einn af framtíðarleiðtogum vinstri manna á Íslandi.

Það er alveg ljóst að stjórnmálahreyfingar vinstri manna hafa verið í djúpri tilvistarkreppu síðustu áratugi og alveg sérstaklega frá fjármálakreppunni 2008. Það á við bæði hér og annars staðar. En það er athyglisvert að sú tilvistarkreppa hefur lítið sem ekkert verið til umræðu meðal vinstri manna hér.

Það er ekki fráleitt að halda því fram að þessi ráðstefna Ögmundar Jónassonar hafi verið eins konar byrjun á því að vinstri menn snúi blaðinu við og reyni að finna sér fótfestu á ný. Fyrsta skrefið í þá átt er að sjálfsögðu að skilgreina rétt hver vandinn er.

Auðvitað eru vinstri menn ekki þeir einu sem þurfa að finna sér nýjan farveg. Það þurfa hægri menn líka að gera, eins og ég leitast við að fjalla um í bók minni Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar – Byltingin, sem aldrei varð, sem út kom fyrir síðustu jól, þar sem m.a. er fjallað um pólitíska vegferð þeirrar nýju kynslóðar sem kom til skjalanna í Sjálfstæðisflokknum fyrir um fjórum áratugum og brunaði fram undir fánum frjálshyggjunnar. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki síður en vinstri menn að endurhugsa og endurnýja sína stefnu.

Og þá má velta því fyrir sér hvort raunverulega beri mikið á milli þessara fylkinga í mati á því hvernig eigi að endurskapa samfélagið.

Í fyrrnefndri bók segir:

„Það er hægt að færa sterk rök fyrir því að skiptingin í stjórnmálum á Íslandi sé ekki lengur á milli hægri og vinstri eða á milli einstakra flokka heldur sé hún á milli þeirra fámennu samfélagshópa, sem eru inni í valdahringnum og samanstanda af stjórnmálamönnum, embættismönnum, sérfræðingum innan háskólasamfélagsins og vissum hópum í viðskipta- og atvinnulífi og jafnvel í fjölmiðlun. Utan við þann hring stendur þorri þjóðarinnar.

Þeir sem eru inn í valdahringnum notfæra sér aðstöðu sína út í yztu æsar.“

Það sem er spennandi við samstarf þeirra flokka sem standa að núverandi ríkisstjórn er einmitt það hvort flokkar til hægri og vinstri geti náð saman um að endurskapa samfélag okkar í ljósi fenginnar reynslu.

Það á eftir að koma í ljós hvort það tekst.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

til baka Til baka


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband