Sigurrós - you know!

Okkur hjónunum var boðið á frumsýningu Sigurrósarkvikmyndarinnar í gærkvöld sem háð var við upphaf kvikmyndahátíðar. Að mörgu leyti var það unaðsleg upplifun, frábær hljóðsetning, góð tónlist og sérstæð kvikmyndun.

Helsti ljóður myndarinnar var talið sem var á ensku. Þar kom í ljós hvað Íslendingar tala í raun lélega ensku. Algengustu orðin voru - you know - sem komu allt að 10 sinnum fyrir í sumum setningunum.

Vonandi vegnar Sigurrósarmyndinni vel á erlendum markaði. Ég efast um að velgengnin yrði minni þótt menn hefðu tjáð sig á íslensku. Er ekki myndin um Ísland og Íslendinga? Ekki kveður Steindór Andersen á ensku?

Fyrr nokkrum árum var sýnd hér á landi bandarísk mynd þar sem menn þurftu að tala næstum útdautt tungumál indíánaþjóðar. Gömul kerling var fengin til að kenna leikurum að tala. Ekki varð séð að indíánamálið drægi úr aðsókn að myndinni.

Um leið og Íslendingar þykjast vera stoltir af sér og sínu virðast þeir einnig skammast sín fyrir sitthvað í fari sínu, þar á meðal íslenskuna. Sigurrósarmyndin er glöggt dæmi þar um.

Þrátt fyrir það sem hér er sagt er ástæða til að óska aðstandendum myndarinnar til hamingju með árangurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband