Um morgunmat og góða þjónustu í Frankafurðu

Stundum er nauðsynlegt að sanna fyrir sjálfum sér að maður sé enn fær um að takast á við lífið og tilveruna og njóta þess sem að höndum ber.

Undanfarna daga hef ég öðru hverju reynt að blogga en án árangurs. Ég var í þráðlausu netsambandi á gistihúsi í Frankafurðu og þegar leikurinn stóð sem hæst í blogginu kom jafnan eitthvað fyrir.

Ég fór til Frankfurt á sýninguna Sight City þriðjudaginn 6. maí. allt gekk að óskum. Ungur Pólverji fylgdi mér út í vél og var hann bæði mæltur á íslensku og ensku, kaus þó fremur að nota enskuna.

Í Frankfurt tók á móti mér kona sem kom mér í leigubíl og á hótelið var ég kominn um kl. 13:30 að þýskum tíma. Þar tók ég til óspilltra málanna, hringdi nokkur símtöl vegna Kím og fleira og hófst síðan handa við grein sem ég vinn að.

Um 6-leytið var ég farinn að finna til svengdar og ákvað að hafast eitthvað að.

Ég reikaði fram úr herberginu og fann það sem ég taldi vera bar. Kom að mér ungur maður og spurði hvort ég væri að leita að matsalnum. Kvað ég svo vera og vísaði hann mér á borð.

Þá kom ung kona og las mér matseðilinn. Mig langaði hvorki í súpu, salaat, grænmeti né pasta svo að ég fékk mér vínarsnitsel með frönskum kartöflum og salati. Bað um vatn og brauð ásamt bjór.

Mér barst firnagott, nýbakað brauð í glerkörfu ásamt volgu og fremur vondu vatni og svo kom stór bjórkanna á borðið, mun stærri en ég hugði.

Síðan kom Vínarsnitselið og reyndist líka meiri máltíð en ég hugði.

Á eftir langaði mig í eftirrétt og fannst ísinn of sætur og búðingarnir líka. Ákvað að panta mér ostabakka og kaffi.

Fljótlega kom kaffið og kláraðist.

Þá kláraði ég bjórinn sem var ekki eins mikill og ég hugði en glasið stærra og þykkara.

Síðan kom miðaldra þýskumælandi Þjóðverji með ostabakkann, tveggja, þriggja eða góðan fjögurra manna skammt. Þetta var skár útilátið en ostabakkinn sem ég bauð Elínu hér um árið í Djúpinu þegar við vorum í tilhugalífinu enda hringdi ég til hennar til þess að segja henni þetta.

Ég réðst á ostana, jarðarberin og einhvern annan ávöxt ásamt firnum af góðu brauði, með hníf og gaffli. Dundaði mér við þetta og komst loks inn á herbergi í fylgd þjóns, stillti á íslenska útvarpið og nennti ekki að vinna meira að svo stöddu.

Gaf mér auka insúlínskammt. Eins gott að vélstjórnin sé í lagi.

Sagði þjóninum söguna af norska sendiherranum í Tsaire og handleggnum sem konan hafði ekki lyst á og sagðist ekki geta borðað meira. Hann hló reyndar þegar ég sagði honum að ostabakkinn hefði verið einum of stór.

Ætli ég þyngist ekki um 2 kg fyrir vikið?

Hvað ætti ég að fá mér í morgunmat á morgun? hugsaði ég um það leyti sem svefninn færðist yfir. Hálft kíló af brauði, tvo hrokafulla grautardiska, annan með hafragraut og hinn með jógúrt með morgunkorni? rúnstykki, kaffi, appelsínu og epli, súkkulaði köku, vínarbrauð og te?

Það ætti að nægja. Ef einhver finnur að því svara ég bara eins og Tóti í Berjanesi: "Ek má til. Fæðið er svo dýrt."

Ég var á fótum fyrir allar aldir á miðvikudagsmorgun og fór í morgunverð upp úr kl. 8. Tókst mér loks að vekja athygli þjóns sem vísaði mér á sæti. Sagðist ég vilja kaffi og rúnstykki með spægipylsu. Færði hann mér þrjú rúnstykki með osti og smábrauð að auki sem hann hafði smurt vandlega og bætt við á diskinn gúrkusneiðum og tómötum.

Ég réðst á þetta matarsafn og kom þá að mér fullorðin kona og vildi fá að vita hvaðan ég væri. Ég minnti sig svo á manninn sinn, en hann hefði verið blindur. Taldi hún að ég hefði hvergi nærri fengið nóg og spurði hvort ég vildi ekki jógúrt líka. Ég lét lítið yfir því en hún kvaðst þá útbúa handa mér dýrindis jógúrt með ávöxtum. Morgunmaturinn endaði á hrokafullum jógúrtdisk með alls kyns góðgæti.

Þessu fór fram næstu tvo morgna. Ég mætti kl. 8 í morgunmat á fimmtudag og kom þá blessuð manneskjan og sagðist hafa saknað mín. Sagði hún mér frá dauðastríði manns síns og því að hún væri sjálf komin með krabbamein og þyrfti að undirgangast aðgerð í næsta mánuði.

Í gær, föstudag, vaknaði ég seinna en ella, enda hafði ég verið á tæknisýningunni allan daginn og farið síðan í boði Papenmeiers á Jóhannesarfjall þar sem menn brugga ýmis dýrindisvín. Vorum við þar í vínsmökkun og afar fróðlegum fyrirlestri og síðan góðum kvöldverði.

Kl. 8:30 var barið að dyrum hjá mér og var þar þá þjónninn kominn og vildi vita hvort ég ætlaði ekki í morgunmat. Ég var þá að mæla blóðsykur og fór síðan með honum. Greinilegt var að hann og hin ágæta samstarfskona hans höfðu þá útbúið handa mér morgunmat, tvö rúnstykki, tómata og gúrkur og jógúrt, sem konan hafði blandað með alls kyns hnetum og vanillubúðingi. Namm!

Ég kvaddi svo þetta góða fólk og hélt af hótelinu um kl. 11:30.

Ég mun á næstunni skrifa hér á þessari bloggsíðu örlítið um tæknisýninguna eftir því sem úrvinnslu gagna vindur fram.

Mér finnst ég vera fullur af orku og þakklæti til Blindravinafélags Íslands sem styrkti mig til fararinnar og konu minnar elskulegrar sem hvatti mig eindregið.

Það er ómetanlegt að fá tækifæri til þess að ræða við fólk um ýmis álitamál sem koma upp og það gat ég gert í ríkum mæli þá daga sem ég dvaldist í Frankafurðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband