Þarf ég endilega að hnýta í fótboltann?

Nú þegar Hekla gamla veltir fyrir sér að gjósa dálítið er best að ég gjósi líka.

Mér er ekki í nöp við knattspyrnu. En mér er í nöp við hvernig knattspyrnuáhugamenn beita fjármagni til þess að troða áhugamáli sínu upp á aðra svo að allt verður að víkja og öll viðmið samfélagsins snúast um tuðrusparkara. Þetta er svo yfirþyrmandi að sjónvarpsáhorfarar, sem kunna ekki að hlusta á rás 1 fara að horfa á þessi ósköp og verða spennufíklar á þessu sviði sem öðrum.

Íslendingar eru fíklar og þar er ég engin undantekning. Við hjónin lesum stundum saman Dan Brown og einstaka sinnum tek ég hressilega í nefið. Ég legg þá tóbakshornið á nös mér og sýg, fyrst í þá vinstri og síðan í hina hægri. Áhrifin eru slík að ég kemst næstum í vímu og tíminn herðir á sér.

Hins vegar verður Dan Brown stundum svo leiðinlegur að tíminn ætlar aldrei að líða. Aðra stundina verður hann svo æsispennandi að tíminn stendur alveg kyrr.

Um daginn var þáttaröð í BBC um Davinci-lykilinn og hvernig sá samansetningur, sem mér þótti vel saminn og skemmtilegur, eyðilagði næstum regluna Opus Dei. Rakið var hvernig reglan hefði mótast í áranna rás og hvernig ráðist hefði verið í breytingar á henni. Einnig var vikið að því hver áhrif Dans Browns hefðu orðið á þá sem voru í reglunni og það líknarstarf sem unnið hefur verið á henni. Rætt var við Dan og varð han heldur tvísaga um margt.

Fyrir nokkru spjallaði ég um bækur Dans við kunningja og benti þá einn á að ónefndur höfundur íslenskur hefði ekki þorað að nota nafn Halldórs Laxness í bókinni "Höfundur Íslands". Slíkt hefði þótt óhæfa.

Það er ekki nema von að kirkjunnar mönnum þyki óhæfa að jafnskemmtilegt og vel samið verk og Davinci-lykillinn skuli beinast að einum samtökum. Hitt er umdeilanlegt hvort það þjóni nokkrum tilgangi að banna bókina.

Hið sama er um fótboltann. Ég vil ekki láta banna hann en ég vil að menningarviðburðir og stofnanir fái að vera í friði fyrir honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband