Betri hönnun rafrænna eyðublaða upprætir dálítið samfélagsmein

Ég hef nokkrum sinnum ritað um rafræn eyðublöð á vefnum sem eru óaðgengileg. Stundum vantar einungis herslumuninn til þess að slík blöð sé hægt að fylla út vandræðalaust með því að nota skjálesara fyrir blinda eða sjónskerta. Nú stendur svo á að ég þarf að sækja um vsk-númer og fylla út sitthvað annað sem snertir m.a. greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Til þess er sérstakt eyðublað nr. 502 á vef ríkisskattstjóra. Þegar ég hugðist fylla út þetta eyðublað kom í ljós að einungis vantar herslumuninn til þess að ég geti fyllt það út. Hópurinn sem þarf á aðgengilegu efni á tölvutæki sniði er enn fámennur hér á landi. Fólki fer þó fjölgandi með betri menntun og aukinni tölvukunnáttu. Búast má við að þeir sem daprast sýn með árunum vilji eiga aðgang að þeim gögnum sem þeir gátu nýtt sér áður fyrr og geri því þá kröfu að eyðublöð og annað því um líkt sé aðgengilegt. Sum fyrirtæki og stofnanir hafa lagt metnað sinn í að hafa eyðublöðin aðgengileg. Þannig má halda því fram að tiltölulega einfalt sé að fylla út atvinnuumsókn hjá Morgunblaðinu þótt vissulega mætti lagfæra aðgengið örlítið. Hið sama verður vart sagt um Kaupþing. Þar vantar talsvert á að atvinnuumsóknir séu aðgengilegar þeim sem lítt eru skyggnir á tölvuskjái. Þar sem eyðublaðið nr. 502, sem nefnt var hér áðan, var ekki alls kostar aðgengilegt hafði ég samband við skattstofu Reykjanesumdæmis og óskaði aðstoðar við að fylla blaðið út. Hefst því brátt ferð mín suður í Hafnarfjörð að leita mér aðstoðar starfsfólksins. Þarna veldur óaðgengilegt eyðublað óþörfum óþægindum, kostnaði hjá umsækjanda og töfum hjá starfsmönnum Skattstofu Reykjanesumdæmis sem hefðu e.t.v. getað eytt tíma sínum í annað. Á móti kemur að tveir leigubílstjórar fá vinnu við fólksflutning og ég hitti vonandi skemmtilegt fólk á skattstofunni. Annars verð ég að hrósa starfsmönnum ríkisskattstjóra og öðru þeim sem leiddu mig um völundarhús reglugerða og lagagreina í morgun. að lokum: Full ástæða er til að stofna nýtt félag fatlaðra um upplýsingaaðgengi. Mér sýnist sem starfandi samtök, hvort sem um er að ræða heildarsamtök eða aðildarfélög þeirra, sinni þessu málum lítt. Hafi ég rangt fyrir mér í þessum efnum þætti mér fróðlegt að sjá athugasemdir við þessi skrif frá forystumönnum þessara samtaka.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband