Styrkir íhaldið stöðu sína?

Það er haft eftir einum af reyndustu starfsmönnum Morgunblaðsins að eftir eigi að koma í ljós hvort nýir eigendur kunni að eiga fjölmiðil.

Þegar litið er yfir nöfn þeirra sem tengjast Þórsmörk fer ekki hjá því að sá grunur læðist að sumum að hópurinn sé fremur einsleitur. Guðbjörg Matthíasdóttir hefur þar nokkra sérstöðu. Þau hjónin áttu Eyjafréttir og veit ég að Sigurður gætti þess jafnan að skipta sér ekki af ritstjórn blaðsins endaþótt honum fyndist stundum að útgerðarmönnum vegið eða soðningaríhaldinu eins og Oddsteinn Friðriksson kallaði útgerðarmenn í hópi sjálfstæðismanna.

Sjávarútvegurinn styrkir mjög stöðu sína í blaðaheiminum hér á landi ef menn vilja hugsa þannig. En forystumaður hópsins er margreyndur í viðskiptum og veit sjálfsagt jafnvel og meginþorri þjóðarinnar að illa fara saman fjölmiðlun og þröng pólítísk sjónarmið.

Í athyglisverðu fylgiblaði Morgunblaðsins í dag kemur í ljós að búist er við að auglýsingar dragist saman um 30% hér á landi í ár. Það verður því þungur róður nýjum eigendum og starfsmönnum Árvakurs í byrjun.

Það er erfitt að gerast spámaður í eigin föðurlandi en margt bendir til að 365 miðlar muni fara halloka á markaðinum. Í samdrættinum kemur betur í ljós hvað samkeppnisumhverfið hér á landi lýtur ólíkum lögmálum því sem gengur og gerist í fjölmennari ríkjum. Því gæti farið svo að ríkisútvarpið og Árvakur yrðu að mestu leyti tvö um hituna auk ýmissa netmiðla sem munu gegna meira hlutverki eftir því sem tímar líða fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband