Íslenskar reifarastælingar og þýddir reifarar

Fyrir rúmum áratug vakti athygli mína auglýsingin um fyrstu Harry Potter bókina. Um svipað leyti og hún kom út var mér falið að skima hana inn og breyta í blindraletur. Þótti mér bókin svo skemmtileg að ég vann þetta verk á fjórum dögum ef ég man rétt.

Ég vann einnig þá næstu, en eftir það hætti ég hjá Blindrabókasafni Íslands. Lásum við hjónin næstu bækur saman. Síðustu tvær bækurnar las ég þó einn en þær fékk ég hjá Blindrabókasafni Íslands. Ég réðst á þá síðustu um daginn og hafði vissa skemmtan af. Þó verð ég að viðurkenna að á köflum þótti mér bókin fulllangdregin og að skaðlausu hefði mátt sleppa sumum köflunum sem voru í raun endursögn á því sem áður hafði verið greint frá.

Þýðingar Helgu Haraldsdóttur hafa farið batnandi með hverri bók. Þegar hugurinn er látinn reika um þetta þýðingarverk hennar er ástæða til að harma að ýmis heiti svo sem heiti menntaskólans, sem galdrar voru kenndir við, skyldi ekki þýtt ásamt nöfnum deildanna. Það hefði gefið bókunum margfalt meira gildi á íslensku. Finnsk vinkona mín hefur sagt mér að ýmis heiti sem koma fyrir í sagnabálkinum hafi finnski þyðandinn þýtt. Ég vona að við endurútgáfu bókanna verði þýðingarnar lagfærðar og staðfærðar auk þess sem meinlegar þýðingarvillur verði leiðréttar. Til dæmis er ótækt að tala um prófessora sem kenna krökkum á gagnfræða- eða menntaskólastigi..

Ég læt einatt glepjast af auglýsingum og trúi einkum því sem auglýst er í Ríkisútvarpi allra landsmanna, einkum ef auglýst er á rás eitt. Þannig lét ég glepjast af bókinni Sólkrossinum eftir Óttar M. Norðfjörð. Bókinn fjallar um hálfbrjálaðan bónda austur í Rangárvallasýslu sem stofnar sólkrossreglu á grundvelli kenninga Einars Pálssonar, en Baldur Skarphéðinsson, sem reynt er að drepa í bókinni, hlýtur að hafa verið lærisveinn hans. Bróðir Baldurs, Grímur, lögregluþjónn, tekur að sér að rannsaka morðið og starfsmaður Þjóðminjasafnsins, Embla, flækist inn í málið ásamt kærastanum sínum. Í lok bókarinnar kemur í ljós að hálfbrjálaði bóndinn, sem flestir grunuðu um græsku, er saklaus, en tengdafaðir hans hafði nauðgað dóttur sinni og var faðir barnsins sem bóndinn taldi dóttur sína.

Óttar byggir persónusköpun og framvindu sögunnar á þeirri formúlu sem Dan Brown notar í sögum eins og Englum og djöflum og Davinci-lyklinum svo að einungis tvær bækur séu nefndar. Þótt Óttar hafri nokkra þekkingu á kenningum Einars Pálssonar og menningu íslenska þjóðveldisins skortir hann ýmislegt sem þarf til að skapa sennilegan söguþráð og sannfærandi persónur. Atburðarásin er svo illa gerð að spennufall verður einhvern veginn þegar frásögnin ætti í raun að rísa sem hæst. Því verður að telja það hástemmda lof, sem bókin hefur hlotið, hreint auglýsingaskrum.

Vonandi eru þetta einungis byrjendaörðugleikar hjá Óttari og vænti ég þess að honum takist betur upp næst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband